Vinnubrögð Össurar í ESB-viðræðum harðlega gagnrýnd

„Engar kröfur eru reistar af Íslands hálfu. Hvergi eru vandamál almannaþjónustunnar reifuð í þeim anda sem verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur sett fram, né þá heldur eins og margir flokkar á Evrópuþinginu (þeirra á meðal systurflokkar Samfylkingarinnar) hafa lýst þeim og reynt að taka á. Það eru heldur ekki gerðar neinar tillögur um varnir sem Alþingi mætti grípa til á heimavelli. Málið hlýtur því augljóslega að koma til kasta Alþingis um leið og það kemur saman á ný eftir áramót.“

 

Þetta segir Páll H. Hannesson, félagsfræðingur, í grein sem hann ritar á vefsíðunni ESB og almannahagur, esbogalmannahagur.blog.is. Hann gerir þar ítarlega úttekt á vinnubrögðum utanríkisráðuneytisins í samningaviðræðum við ESB og sýnir fram á það með rækilegum samanburði að ráðuneytinu hafi mistekist að halda til haga þeim meginhagsmunum Íslands “að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu”, sem meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis skilgreindi sem þær forsendur sem stjórnvöldum bæri að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB.

 

Páll bendir á að markmið nefndarálitsins hafi verið þynnt út eða tekin úr samhengi og mikilvægir áherslupunktar horfið. Honum þykir sýn utanríkisráðherra á opinbera almannaþjónustu harla undarleg og ljóst sé að ráðuneytið undir forystu Össurar hafi allt aðra og þrengri sýn á hvað telst vera opinber almannaþjónusta en fram komi í nefndarálitinu.

 

Hér á eftir er valið brot úr þessari fróðlegu og vönduðu úttekt Páls þar sem hann fjallar um hvernig best megi verja hagmuni opinberar almannaþjónustu á Íslandi fyrir ágengni nýfrjálshyggjunnar:

 

„Að sjóða froskinn yfir hægum hita...

 

En slagurinn snýst ekki bara um hvort opinber almannaþjónusta er færð markaðinum í hendur með sölu opinberra eigna og einkavæðingu. Breytingarnar sem um er að ræða eru oft “fíngerðari” en svo, en engu að síður afdrifaríkar. Markaðsvæðing hinnar opinberu almannaþjónustu hefur átt sér stað, hægt og sígandi, og ekki síst verið drifin áfram af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Síauknar kröfur um útboð verkefna á almennum markaði, aukin greiðsluþátttaka almennings, hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækja, einkaframkvæmdir og aðrar útgáfur af “samvinnu” einkafyrirtækja og opinberra og breyttir stjórnunarhættir innan almannaþjónustunnar hafa gert mörkin milli hinnar opinberu almannaþjónustu og fyrirtækja reknum á markaðsforsendum sífellt ógreinilegri.

 

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur fundið opinberum rekstri allt til foráttu og iðulega haft þær lausnir einar við vandamálum hinnar opinberu almannaþjónustu að einkavæða eða innfæra stjórnunarhætti einkafyrirtækja. Sú þrönga nálgun hefur iðulega haft neikvæð áhrif á eðlilega framþróun opinberrar þjónustu, komið í veg fyrir samvinnu á milli opinberra aðila og takmarkað skilvirkni og nýsköpun. Til að átta sig á því jákvæða samfélagslega afli sem opinber almannaþjónusta getur verið þarf ekki annað en að skoða sögu Norðurlanda eða Bretlands upp úr síðari heimsstyrjöld.

 

Afleiðingin er því sú að grafið hefur verið undan hinni opinberu almannaþjónustu sérstaklega þeirri tegund sem kölluð er hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Það má til sanns vegar færa að sá gröftur hefur ekki allur verið á ábyrgð Evrópusambandsins og löggjafar þess. Innlend stjórnvöld í hverju landi hafa verið fullfær um að eyðileggja innviði hinnar opinberu almannaþjónustu á eigin spýtur og er ríkisstjórn Margrétar Thatcher og svo ríkisstjórn Tony Blair skýr dæmi um það. Hér hafa íslensk stjórnvöld í gegnum tíðina augljóslega sína ábyrgð að bera, en nú búum við við ríkisstjórn sem kennir sig við vinstri stefnu og hefur sem eitt af sínum helstu stefnumálum að efla hið norræna velferðarkerfi. Það má því gera kröfur til hennar í samræmi við það.

 

Önnur afleiðing er að hin markaðssýrða opinbera almannaþjónusta færist sífellt nær því að vera skilgreind sem þjónusta á markaði, sem fellur undir löggjöf innri markaðs ESB. Einkaaðilar láta sífellt reyna á þær sprungur sem þannig myndast á skel hinnar opinberu þjónustu og vísa málum til Evrópudómsstólsins eða ESA. Og það hefur ekki alltaf verið auðvelt að segja fyrir um á hvaða forsendum Evrópudómsstólinn hefur byggt málatilbúnað sinn á. Það hefur þó gætt æ ríkari tilhneigingar á seinni árum að dómstólinn leggi fjórfrelsið eitt til megingrundvallar, þó honum hafi verið margar aðrar lögfræðilegar leiðir færar.

 

Um það vitna til dæmis Viking, Laval, Luxemborgar og Rüffert dómarnir. Þar var gengið gegn áliti ríkisstjórna og þekktra lögspekinga, sem og langgrónum hefðum á vinnumarkaði. Sú afstaða Evrópudómsstólsins þarf reyndar ekki að koma á óvart, því ólíkt öðrum dómsstólum hefur Evrópudómsstólinn sérstöku hlutverki að gegna, sem kemur síðan beint fram í dómaframkvæmd hans. Hann hefur sem sagt það hlutverk að vernda grundvallarsáttmála Evrópusambandins og því falla dómar hans iðulega gegn þeim sem með einum eða öðrum hætti ganga gegn eða ógna þeirri undirstöðu.

 

Hluti af því að verja stöðu almannaþjónustu á Íslandi er því að fara yfir íslenska löggjöf um almannaþjónustu, tryggja að skírt sé kveðið á um forræði hins opinbera yfir henni í hverju tilfelli, kanna með hvaða hætti þjónustan hefur verið markaðsvædd og meta hvaða áhrif það hefur gagnvart löggjöf ESB.

 

ESB og frjálshyggjan

 

Evrópusambandið á sínar rætur í efnahagsbandalagi þar sem kjarni hugmyndafræðinnar var að efla viðskipti á grundvelli samkeppni á markaði. Á síðustu þrjátíu árum hefur löggjöf ESB svo mótast æ meir af þeirri ríkjandi hugmyndafræði sem nýfrjálshyggjan er og hefur löggjöf og dómaframkvæmd tekið æ meiri mið af henni.

 

Í stuttu máli má segja að fjórfrelsið hafi orðið að DNA eða ráðandi erfðaefni Evrópusambandins og að öll önnur löggjöf með einum eða öðrum hætti hafi þurft að beygja sig undir þann klafa. Samkeppnislöggjöfin hefur verið ráðandi og þegar sú trú hefur verið við lýði að markaðurinn skili bestum árangri á öllum sviðum, þá hefur farið saman sterk tilhneiging til að færa hina opinberu almannaþjónustuna út á markaðinn eða breyta lögum á þann veg að dregið hefur úr afli hennar á sama tíma og taumur einkarekstar er dreginn.

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur oft verið gagnrýnd fyrir að hafa tileinkað sér hugsunarhátt nýfrjálshyggjunnar og því að vera mjög opin fyrir þrýstingi hagsmunaaðila eins og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Því miður fer framkvæmdastjórnin ein með löggjafarvaldið innan ESB. Löggjöf eins og samkeppnislög, lög um opinber innkaup og ríkisaðstoð eru skýr merki þessa og hafa oft verið kölluð spennitreyja hinnar opinberu almannaþjónustu.

 

Það er þess vegna sem að ríkisstjórn Íslands, sem vill verja og efla hið norræna velferðarkerfi og opinbera almannaþjónustu, þarf að átta sig á að það verður ekki gert með því að taka eins og hverju náttúrulögmáli þeirri spennitreyju sem ESB hefur viljað klæða hina opinberu almannaþjónustu í. Og því þarf að tryggja að hin tiltölulega skýra stefnumótun Alþingis berist samninganefndum Íslands og öðrum þeim sem vinna að stefnumótun fyrir Íslands hönd með gerð samningsmarkmiða, til eyrna.

 

Kröfur verkalýðsfélaga og Evrópuþingsins

 

Það er hér sem að verkalýðhreyfingin í Evrópu, með Evrópusamband starfsfólks í almannaþjónustu, ESPU, í fararbroddi en dyggilega stutt af ETUC, hefur dregið víglínuna. Árið 2006, í kjölfar samþykktar þjónustutilskipunarinnar, hóf EPSU herferð fyrir því að fá samþykkta svokallaða lárétta tilskipun um almannaþjónustu. Markmið hennar var að draga skýr mörk milli hinnar opinberu almannaþjónustu, sem sinnir almannahagsmunum og svo markaðarins sem sinnir hagsmunum hluthafa. Var vonast til að slík tilskipun myndi aðskilja lagaumhverfi markaðarins og almannaþjónustunnar og almannaþjónustunni yrði hlíft við síauknum ágangi fyrirtækja inn á svið almannaþjónustunnar. Fengu verkalýðsfélögin mikinn stuðning frá hinum ýmsu frjálsu félagasamtökum, stjórnmálaflokkum og einstaklingum.

 

Andstæðingurinn var framkvæmdastjórn ESB, sem fékkst ekki haggað. Án þess að rekja þá baráttu í löngu máli, þá sýna þessi átök nokkuð vel hvað við er að eiga þegar kemur að því að verja hagsmuni hins norræna forms opinberrar almannaþjónustu gegn regluverki ESB, dómaframkvæmd Evrópudómsstólsins og framkvæmdastjórninni sjálfri.

 

Í þessari baráttu gerðu nokkrir aðilar tilraunir til að skrifa drög að slíkri tilskipun um almannaþjónustuna. Tilgangurinn var m.a. að sýna að það væri vel framkvæmanlegt að skrifa slíka tilskipun, þar sem framkvæmdastjórn ESB neitaði að gera slíkt. Meðal þeirra aðila sem hver fyrir sig skrifuðu slík drög að tilskipun, voru ETUC, Evrópusamband verkalýðsfélaga, CELSIG (Evrópunefnd um almannaþjónustu) og PES, flokkasamsteypa sósialdemókrata á Evrópuþinginu. (Samfylkingin mun væntanlega ganga í þann hóp, verði af því að Ísland gerist aðili að ESB.) Þessar tilskipanir gengu mislangt en þær eiga það sameiginlegt að draga saman efnisatriði kröfu Alþingis, byggt á lögfræðilegri umgjörð ESB. Þær hljóta því að teljast til skyldulesningar fyrir samningahópa utanríkisráðuneytisins. Og hafi ríkisstjórn Íslands til þess áræði þá getur hún leitað og fundið sér gríðarlega sterka bandamenn innan ESB sem væru boðnir og búnir að tryggja framgang kröfu Alþingis um sjálfræði stjórnvalda til að byggja upp opinbera almannaþjónustu á norrænum grunni.

 

Það er því alveg ljóst að samninganefndir Íslands sem vinna að samningsmarkmiðum á sviði samkeppnismála og annarra þátta er snerta fjórfrelsið og því EES-samninginn, þurfa að bretta upp ermarnar og líta á samningsferlið með opnum augum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skyldi hann ESB/EVRY Gylfi Arnbjörnsson yfirjólasveinn ASÍ Elítunnar vita af þessu ?

Nei í alvöru talað þá er þetta gríðarlega yfirgripsmikil og góð skýrsla hjá Páli Hannessyni. Hann hefur lagt gríðarlega mikla vinnu í þetta, fyrir utan að byggja sjálfur á gríðarlegri þekkingu og reynslu af þessum málum. Hafi hann þakkir fyrir.

En þessu þarf að halda vel til haga og helst þarf að senda öllum verkalýðsleiðtogum, stjórnum verkalýðsfélaga, miðstjórn ASí og öllum þeim sem sækja ársfund ASÍ þessa skýrslu.

Einnig á skýrsla þessi erindi við alla alþingismenn þjóðarinnar og einnig alla bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúa alls staðar á landinu og svo þarf að reyna fá upp umræðu um þetta mál meðal almennings.

Þessi skýrsla hlýtur að verða til þess að það verði tekinn einhver djúp og alvarleg umræða um þessi mál innan Verkalýðshreyfingarinnar allrar alveg frá forystunni niður í grasrótina.

En ekki bara gagnrýnislaust endalaust áfram þessi holi ESB/EVRU áróður !

Gunnlaugur I (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 13:07

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Skýrsla Páls Hannessonar er enn eitt áfallið varðandi þessa ESB umsókn. Eins og hann bendir á, virðist samninganefndin og starfsmenn hennar einblína á hvaða atriði aðgreinir íslenska löggjöf og ESB löggjöf og í framhaldi af því aðlaga þá íslensku að hinni - gagnrýnislaust.

Það virðist ekki bóla á neinu sem kalla mætti "kröfur" af hálfu íslendinga í þessu ferli.

Kolbrún Hilmars, 19.12.2011 kl. 17:17

3 identicon

Ástæðan er einföl. Nefndin með Össur Skarpa í fararbroddi veit ekkert um hvað ESB snýst og samþykkir allar tillögur umbúðalaust og vilja klára málið NÚNA! Það er betra að sita á veitingastöðum og belgja sig út af lostæti ókeypis, en að grubla í pappírum á tungumáli sem maður ekki skilur. Síðan samþykkja hinir heimskingjarnir samninginn ólesinn, því þeir skilja ekkert sjálfir og setja allt sitt traust á þann Skarpa. Svo erum við í ESB og með evru og allir happý!!!,.Eða hvað! Ps - það væri gaman að fá að sjá kaflann og samþykktina frá honum um " VERÐTRYGGINGUNA". Undir hvaða málaflokk fellur hún? Hvenar og hvernig á hún að leggjast af?

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband