Áróðurssókn ESB er margþætt og ríkulega fjármögnuð
6.12.2011 | 12:15
Jafnt og þétt er ESB að undirbúa aðgerðir sínar hér á landi með stofnun áróðursmiðstöðvar, samningum við auglýsingastofur svo og aðlögunarstyrkjum og markvissri misnotkun á aðstöðu ESB-sinna í háskólum til að reyna að tryggja að Íslendingar samþykki aðild í fyrirhuguðu þjóðaratkvæði.
Nú fyrir helgi var frá því greint að forstjóri hefði verið ráðinn að Evrópustofu - upplýsingamiðstöð ESB" sem opnuð yrði um áramótin. Áróðursmiðstöðin verður rekin af Athygli ehf. og þýska almannatengslafyrirtækinu Media Consulta og að öllu leyti fjármögnuð af Evrópusambandinu" eins og sagði í fréttinni. Áður hefur fram komið að auk áróðursmiðstöðvarinnar hyggst ESB verja 213 milljón krónum til auglýsinga í viðbót við óþekktan fjölda kynningaferða fyrir áhrifafólk til Brussel í þeim yfirlýsta tilgangi að eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins".
Á Alþingi er nú fjallað um rammasamning" sem gerður hefur verið milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar ESB um fjárhagsaðstoð ESB við Ísland" sem umsóknarríkis ESB", og er þar fjallað um aðgerðir sem fjármagnaðar eru samkvæmt reglum Foraðildarsjóðsins". Í e) lið 11. gr. er sérstaklega tekið fram að allur innflutningur, sem fer fram samkvæmt reglum Foraðildarsjóðsins, verði undanþeginn tollum, innflutningsgjöldum og annarri skattheimtu."
Í 12. gr. 2.a) þessa makalausa samnings er einnig tekið fram: Allur innflutningur ESB-verktaka skal undanþeginn tollum eða innflutningsgjöldum, virðisaukaskatti eða öðrum sköttum og annarri skattheimtu sem hafa sambærileg áhrif." Í lið sömu greinar 2 b) segir einnig: ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi."
ESB leggur þunga áherslu á að IPA-styrkirnir séu ekki aðeins ætlaðir til aðlögunar Íslands að regluverki ESB heldur hafi þeir einnig mikilvægt áróðurshlutverk. Þess vegna er þess krafist að íslensk stjórnvöld tryggi viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB". 10 gr. rammasamningsins fjallar einmitt um Kynningu og sýnileika" og er þar sérstaklega tekið fram í 1) lið: Upplýsingunum skal beina til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi". Á þetta við þegar aðstoð er stjórnað miðlægt og sameiginlega..."
Þess skal getið að IPA-styrkirnir, sem milda eiga afstöðu meiri hluta landsmanna gagnvart ESB-aðild, eru að sjálfsögðu aðeins brot af þeim skattgreiðslum til ESB sem Íslendingar verða síðan árlega að gjalda yfirboðurum sínum í Brussel eftir að aðild hefur verið samþykkt.
Sá þáttur áróðursherferðarinnar sem fram fer í háskólum landsins er kapituli út af fyrir sig og þyrfti að rannsaka sérstaklega. Í háskólanum að Bifröst er það Eiríkur Bergmann, lektor, stjórnandi Evrópufræðaseturs (The Centre for European Studies) sem stjórnar áróðursmálum ESB. Í Háskóla Íslands sér Baldur Þórhallsson, prófessor og formaður stjórnar Alþjóðamálastofnunar (Board of the Institute of International Affairs and Centre for Small State) um áróðurinn og í Háskólanum í Reykjavík er það Aðalsteinn B. Leifsson, lektor, og þykir einnig býsna iðinn við störf sín í skólanum í þágu ESB.
Eins og sjá má af þessu stutta yfirliti er áróðursvefur ESB hér á landi býsna vel spunninn og herferðin bæði þrælskipulögð og ríkulega fjármögnuð.
Athugasemdir
Það kemur ekki á óvart að Vinstrivaktin skuli vera andsnúin upplýsingagjöf um ESB til almennings. Það gæti grafið undan hinum góða árangri blekkingaráróðursins. Sá árangur gæti hrunið á einni nóttu.
Ég sé ekki betur en að flestir þeirra sem tala fyrir aðild haldi sig að mestu leyti við mikilvægar staðreyndir og styðji mál sitt sterkum rökum.
Öðru máli gegnir um þá sem tala gegn aðild. Ef þeir eru ekki með hreinar blekkingar blása þeir upp mál sem engu máli skipta. Þeir hafa yfirleitt ekki vit á að benda á þá annmarka sem þó fylgja aðild.
Við þessar aðstæður verður fólk að fá upplýsingar frá ábyrgum aðila, upplýsingar sem það getur treyst. Slík upplýsingagjöf hefur verið órjúfanlegur hluti ESB-aðildarunmsóknar annarra þjóða enda annað óeðlilegt.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 08:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.