Ný tilskipun ESB: Bannað að fullyrða að vatnsdrykkja hindri ofþornun!
27.11.2011 | 11:36
Reglur ESB um rétta lögun gúrku og banana og staðlaða lengd smokka eru sögulega séð meðal frægustu tilskipana ESB. Nú hefur enn ein af sama tagi bæst við: Það varðar tveggja ára fangelsi að halda því fram á seldri vatnsflösku að vatnsdrykkja sé góð fyrir heilsuna og komi í veg fyrir ofþornun.
Þetta er enn eitt dæmið um tilskipunaráráttu miðstjórnarvaldsins í Brussel sem dynur stöðugt á aðildarríkjunum og oft er mjög á skjön við heilbrigða skynsemi. Það var breskur þingmaður á ESB-þinginu, Roger Helmer sem vakti athygli blaðsins The Telegraph á þessari nýju tilskipun sem taka á gildi í Bretlandi og öðrum ESB-ríkjum í desember. Roger Helmer orðaði það svo:
Þetta er heimska rituð með stórum stöfum. Evran stendur í björtu báli, ESB er að hruni komið og þó eru þeir þarna: hálaunaðir embættismenn sem eiga í vændum afar góð eftirlaun en hafa mestar áhyggjur af augljósum gæðum blávatns og neita okkur um að segja það sem er bersýnilega satt.
Annar breskur þingmaður á ESB-þinginu, Paul Nuttall, sagði um tilskipun ESB: Ég varð að lesa þetta fjórum eða fimm sinnum áður en ég trúði því. Hin fræga formúla ESB um bognu bananana virðist næstum skynsamleg í samanburði við þessa.
Prófessor Hahn við Næringarfræðistofnunina í Hanover háskóla var spurður álits á hinni nýju tilskipun. Hann svaraði: Hver eru viðbrögð okkar við þessari niðurstöðu? Við skulum orða það þannig: Við hvorki undrumst né fögnum. ESB hefur rangt fyrir sér. Það ætti öllum að vera ljóst sem drukkið hefur vatn, og hver hefur það ekki? Við erum hræddir um að eitthvað sé að í Evrópuríkinu. (We fear there is something wrong in the state of Europe.)
Þess ber að geta að hinar frægu tilskipanir ESB um bognu banana og sveigðu gúrkurnar voru formlega afnumdar árið 2008 eftir að hlegið hafði verið að þeim árum saman víða um heim.
Ásgrímur Hartmannsson benti fyrstur á þessa fróðlegu frétt um nýjasta afrek kommissaranna í Brussel hér á Moggabloggi og vísaði á hvar hana væri að finna. Fyrir vantrúaða er slóðin þessi: http://www.telegraph.co.uk/news/worldnews/europe/eu/8897662
Athugasemdir
Hávær og yfirgangssamur minnihlutinn vill þetta.
GB (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 11:51
Kanski ekki alveg svona einfalt. En það má deila um þetta. Það er ekki fullyrðingin að vatn komi í veg fyrir ofþornun heldur það sem kom á eftir.
http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2011:299:0001:0003:DE:PDF
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 12:04
Enn eitt dæmið um firringuna sem heltekur þetta ESB apparat.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.11.2011 kl. 12:11
Ég myndi nú ekki kyngja öllum þessum sögum, þótt ég sé á móti ESB. Mér finnst þær enda ekki relevant. Mig grunar stundum að þeir setji þessar mýtur sínar út sjálfir til að geta hrakið þær og beint umræðunni frá alvarlegri gagnrýni á þá.
Þegar þeir telja sig þurfa að opna áróðursskrifstofur til að "leiðrétta misskilning" um bandalagið, þá snúast þessar leiðréttingar út á svona bull úr gulu pressunni á Bretlandi. Hvað sem til er í þessum tröllasögum finnst mér engu máli skipta í stærra samhengi um eðli þessa skrímslis.
Nú eru þeir t.d. búnir að setja fyrrverandi Goldman Sacks cronie við völd á Ítalíu án þess að nokkur fengi að kjósa um það. Sé er nú að fara að einkavæða allt þar í landi til að borga bönkum uppdiktaðar skuldir loftpeninga. Meðal þess sem selja skal eru vatnsveitur.
Corporativismi Mussolinis er að ganga í endurnýjun lífdaga þar. ( Hann breytti reyndar um nafn á stefnunni síðar.)
Jón Steinar Ragnarsson, 27.11.2011 kl. 12:59
Mikið að gera á þjóðrembingsvaktinni?
þvílík hálfvitasíða. Kalla sig svo ,,vinstri".
Gubb.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.11.2011 kl. 00:39
Evrópusambandsinnar eru ekki sviknir af liðsinni þínu Ómar.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 04:01
Þegar rök þrýtur byrjar skítkastið. Reyndar hafa aldrei komið fram nein rök ESB sinna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2011 kl. 09:35
Var að velta fyrir mér hvort Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 12:04 hafi ekki getað fundið tengil sem vísaði á skiljanlegt tungumál?
Má vera enska, norska, danska, sænska, pólska, því það eru tungumálin sem ég skil fyrir utan okkar ástkæra ylhýra...
kveðja
Ólafur Björn Ólafsson, 28.11.2011 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.