ESB-sinnar tala niður allt sem íslenskt er

„Aþena er fallin, Róm brennur og París og Berlin vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þessar staðreyndir eru sárar fyrir þá sem vilja að Ísland gangi inn. Örvænting ESB aðildarsinna er fullkomin," skrifaði Eygló Harðardóttir  fyrir skömmu. Hún benti á að reynt væri að tala niður allt sem íslenskt er. Þetta eru orð í tíma töluð sem vert er að vekja athygli á.

„Því er ráðist á þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Á þeim dynja ásakanir um þjóðernisöfgar og hatur á útlendingum. Að vera á móti lýðræði og samvinnu," skrifaði Eygló Harðardóttir, þingmaður framsóknarmanna, á heimasíðu sinni og bætti því við að helsta aðferð ESB-sinna til þess að koma Íslendingum inn í ESB væri að „berja inn í þá efasemdir um eigin getu. Efasemdir um hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð."

Tilefni skrifa Eyglóar var grein sem Eiríkur Bergmann Einarsson ritaði í Fréttatímann 4. nóvember sl. Eiríkur hefur gefið sig út fyrir að vera andlegur leiðtogi ESB-trúboðsins. Í þessari grein gerði hann Framsóknarflokkinn meðal annars að umfjöllunarefni sínu og tiltók einkum að á fundum flokksins væri áhersla lögð á „að sýna þjóðleg gildi", svo sem „glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum".

Að vísu ætti þessi skrýtna orðræða Eiríks Bergmanns betur heima í gamanþáttum Spaugstofunnar. Engu að síður er andúð Eiríks á öllu því sem minnir á þjóðleg gildi visst tímanna tákn. Eiríkur hæðist að íslenskri glímu en ekki að erlendum bardagaíþróttum sem úir og grúfir af hér sem annars staðar. Hann hæðist að því að íslenski fáninn sjáist blaktandi á íslenskum fundi, sem auðvitað er þó mjög alþjóðlegt fyrirbrigði. Minna mætti á að nýja stórríkið sem Eiríkur dáir framar öllu öðru, ESB, flaggar stórríkisfána sínum hvarvetna þar sem því verður við komið, og þjóðfáninn er mjög algengur í skólastofum í Bandaríkjunum.

Á Íslandi er sannarlega fjölmennur hópur manna sem stundar það ákaft um þessar mundir „að tala niður allt sem íslenskt er", eins og Eygló Harðardóttir bendir réttilega á. Dag eftir dag er íslenska krónan hrópuð niður og einkum fyrir það að hún féll mjög í verði í bankahruninu. Þó blasir það við að gengisfall krónunnar voru rökrétt og óhjákvæmileg viðbrögð markaðarins við nýjum aðstæðum sem bankahrunið olli hér á landi. Hitt hefði verið miklu háskalegra, þegar þjóðarbúið var á brún hengiflugsins og var nærri komið í þrot, ef gengi gjaldmiðils okkar hefði áfram setið fast í alltof háu gengi með áframhaldandi miklum viðskiptahalla. Það er einmitt samdóma álit mjög margra erlendra hagfræðinga sem hingað hafa komið að vegna þess að krónan aðlagaði sig að nýjum og gerbreyttum aðstæðum og sneri snarlega halla á viðskiptum í afgang með minnkandi innflutningi og auknum útflutningstekjum séum við nú á góðri leið upp úr vandræðum okkar.

Reyndar er einnig hálfskoplegt að sjá að einn helsti áróðurspunkturinn í auglýsingaherferð ESB-manna þessa dagana snýst um þá staðreynd að mikill fjöldi íslenskra ungmenna eigi sér þann draum að vinna í öðru Evrópuríki. Og þetta eiga að heita rök fyrir því að Íslendingar þurfi að ganga í ESB!

Allt frá landnámi fyrir þúsund árum hefur ungt fólk á Íslandi langað til að komast til útlanda og kynnast öðrum þjóðum. Sú þrá er og hefur alltaf verið mjög eðlileg og jákvæð tilfinning fólks sem býr langt frá meginlandi Evrópu og Ameríku. Sú hugdetta ESB-liðsins að útlandaþrá æskufólks hafi eitthvað með ESB að gera eða feli það jafnvel í sér, að unga fólkið sé með þessu að afneita þjóð sinni og landi, er að sjálfsögðu ekkert annað en forheimskun manna sem nota hvert tækifæri til að reka áróður fyrir því að þjóðin framselji fullveldisréttindi sín og sjálfstæði í hendur kommissaranna í Brussel. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Eiríkur Bergmann er eins og greindarskert kjaftakerling.

Helga Kristjánsdóttir, 23.11.2011 kl. 12:59

2 Smámynd: Gunnar Waage

Allt ungt fólk langar að flytja erlendis, þannig hefur það alltaf verið og ekkert óeðlilegt að vilja ferðast og kynnast öðrum menningarheimum. Það að Evrópusinnar vilji lesa eitthvað út ér því í þessu sambandi, ber vott um sveitamennsku.

Gunnar Waage, 23.11.2011 kl. 13:16

3 Smámynd: Birna Jensdóttir

Þetta ber vott um alheimsku en ekki sveitamennsku,því fæstir sveitamenn vilja þarna inn.Eitt enn og það eru umferðaskiltin þarna úti sem eru með ESB merkinu á hvað þá heldur annað.

Birna Jensdóttir, 23.11.2011 kl. 16:23

4 identicon

Margir hafa haft á orði að Framsóknarflokkurinn sé illu heilli að breytast í þjóðernissinnaðan flokk . Margir framsókanrmenn hafa nýlega sagt sig úr flokknum og gefið upp þessa ástæðu.

Nýtt merki flokksins hefur þjóðernislegar tilvísanir eins prófessor Goddur hefur bent á. Mörgum mislíkar slíkt alveg óháð afstöðu þeirra til ESB.

Það er þessi viðhorf sem Eiríkur Bergmann er að taka undir. Eygló hlýtur að hafa verið í mestu vandræðum með hvernig hún ætti að koma flokknum til varnar eftir að fyrsta atrenna þingmanna mistókst herfilega.

Jú, Eiríkur er hlynntur ESB, best að notfæra sér það, ályktar Eygló og skýtur svo langt yfir markið.

Það er auðvitað líklegt að þjóðernissinnaður flokkur sé á móti ESB. Hins vegar rúmast áherslur á þjóðleg gildi vel innan ESB enda leggur ESB áherslu á að að hver þjóð rækti sín séreinkenni og veitir styrki til slíkrar starfsemi.

Ég fullyrði að td Danmörk og Holland hafi ekkert misst af sínum sérkennum þrátt fyrir langa veru í ESB, allavega ekki meira en verið hefði ef þau hefðu verið utan sambandsins.

Að tala um að þessi ummæli Eiríks beri vott um örvæntingu ESB-sinna er auðvitað fráleitt. Engin örvænting felst í orðum Eiríks sem þar að auki er ekki neinn samnefnari fyrir ESB-sinna. Hins vegar sé ég ekki betur en að þessi langsótta skýring Eyglóar endurspegli örvæntingu.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 16:39

5 identicon

Af hverju í ósköpunum flytur þessi ESB minnihluti ekki til einhvers sæluríkisins og lætur okkur hin meirihlutann um að lifa áfram á okkar fullvalda Íslandi?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 16:47

6 identicon

Gunnar Waage, þessi ummæli þín eru óskiljanleg. Hvað ertu að gefa í skyn? Ertu að halda því fram að ESB-sinnum finnist það óeðlilegt að ungt fólk vilji flytja til útlanda? Þú ert að snúa hlutunum á hvolf.

Að hafna ESB getur einmitt torveldað fólki að gera þennan draum sinn að veruleika. Gjaldeyrishöftin samræmast ekki EES-samningnum. Valið virðist því vera um ESB eða úrsögn úr EES. Með úrsögn úr EES missum við rétt til náms og starfa Í ESB- og EES-löndum 

Krónan getur ekki verið án gjaldeyrishafta í einhverri mynd. Gjaldeyrishöft hafa tilhneigingu til að aukast með tímanum eftir því sem fleiri sjá við þeim. Það gæti hæglega leitt til að ferðamannagjaldeyrir verði skammtaður eins og við höfum reynslu af þangað til fyrir ekki svo löngu síðan.

Þá vantaði mikið upp á að ferðamannagjaldeyrir nægði fyrir meðalsumarleyfisferð. Menn urðu því að reyna að útvega sér gjaldeyrii á svörtum markaði á uppsprengdu verði. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 16:59

7 Smámynd: Gunnar Waage

" Ertu að halda því fram að ESB-sinnum finnist það óeðlilegt að ungt fólk vilji flytja til útlanda?"

Þú sagðir það

Gunnar Waage, 23.11.2011 kl. 17:11

8 identicon

Gunnar Waage, þú virðist ekki skilja skrifaðan texta. Þú virðist því túlka hann eins og þér hentar og átt því auðvelt með að snúa hlutunum á hvolf. Ertu aðdáandi Teboðshreyfingarinnar í BNA?

Ég sagði auðvitað ekki að ESB-sinnum fyndist það ótrúlegt að ungt fólk vildi flytja til útlanda. Þvert á móti finnst þeim það mjög eðlilegt. Auk þess auðveldar ESB aðild Íslands þeim að ná þessu markmiði.  

Ég hvet fólk til að lesa allar athugasemdir andstæðinga ESB hér á þessari síðu og velta fyrir sér hvað þær endurspegla. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 18:00

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek hér undir hvert orð í pistlinum.  Og gott að sjá að hér ríkir á mörgum stöðum heilbrigð hugsun.  En ekki eitthvað ESBleppblaður sem er ekkert annað en rörsýn manna sem hafa sennillega selt sálu sína til Brussel og Lúxemburg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2011 kl. 23:25

10 Smámynd: Gunnar Waage

Ásmundur, málflutningur þinn er út og suður og uppfullur af vitleysu og vanalega lætur maður þetta sem vind um eyru þjóta. En þar sem ég starfa í menntageiranum, þá verð ég nú að leiðrétta alvarlegustu rangfærsluna hjá þér;

"Með úrsögn úr EES missum við rétt til náms og starfa Í ESB- og EES-löndum"

Ég er hræddur um að þarna sért þú staddur á víðavangi, viltu ekki kynna þér málin aðeins betur ?

bkv

Gunnar Waage, 24.11.2011 kl. 01:14

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vil minna ásmund Harðarson á að Eiríkur skifaði líka lærða bók um efnið, þar sem hann hæist að heimóttalegri ættjarðarást (sem í raun er glóbal fyrirbrigði)íslendinga og dregur skíra línu á milli hennar og nationalisma og national sósíalisma. Þaðan leggur hann ekki svo óljósa tengingu milli fasista og þeirra sem vilja verda sjálfstæði og fullveldi landsins.

Ég minni einnig á grein þar sem hann nýtir sér fjöldamorðin í noregi til að draga svipaðar tengingar. Maðurinn er akademískur öryrki á bótum frá ESB og ég næ því ekki að þú sjáir enga tengingu milli þessara skrifa og þess að hann er virkur spunadoktor í evrópskum fræðum.

Eru þetta bara fróðleiksmolar frá honum svona utan efnis? Er þetta íslendingahatur hans bara svona áhugmál hans svona á hlið?

Ég botna hreinlega ekkert í því sem þú ert að fara hér. Þú lætur sem að hér verði reistur múr um landið og öll ljósin slökkt ef við göngum ekki í bandalagið. Hræðsluáróður af ofsatrúarlegum mælikvarða í bland við guðfræðilega röleysuloftfimleika til að skýra í burtu allt hið illa sem blasir þó við öllum.

Mætti ég frekar benda fólki á að lesa þessar apologíur þínar hér til að skynja örvæntingarfullt og trúarlegt hugarfar evrópusinna. Ekki væri heldur verra að þú sem og aðrir læsuð skrif Eiríks undanfarin misseri. Þau eru öll í anda sömu tilhneiginga úti í ESB, þar sem last resort í rökræðunni er að brípa til reductio ad Hitlerum til að enda alla skynsamlega umræðu um óverjandi apparat.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2011 kl. 03:34

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er annars ansi skoplegt að líkja heimóttalegum sveitamönnum í skrúðgöngu og glímu við forstokkaða corporativista með heimsvaldadrauma. Kannski hann ætti að líta sjálfum sér nær. Kannski hann ætti að hugleiða bláfánaborgirnar í Brussel og Strassbourgh. Hverskonar nationalismi skyldi það vera? Einhverskonar Uber-nationalismi?

Ég vona að ég  sé ekki kominn á jafn lágt plan og Eiríkur með slíkum dylgjum. Hvað finnst þér Ásmundur?

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2011 kl. 03:40

13 identicon

Gunnar Waage, þú þarft að kynna þér þau réttindi sem fylgja því að vera í ESB. Þau réttindi höfum við reyndar að miklu leyti nú þegar gegnum EES en eins og ég benti á samræmast gjaldeyrishöft ekki EES. Ef við höfnum ESB verðum við því að yfirgefa EES.

Ég er ekki að halda því fram að öllum Íslendingum verði bannað að stunda störf eða nám í ESB-löndum eftir úrsögn Íslands úr EES. En rétturinn verður ekki lengur til staðar.

Það verður því óvissu háð hverju sinni eins og við þekkjum þegar útlendingar utan EES sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Er þetta virkilega ekki ljóst?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 08:30

14 identicon

Jón Steinar, hvers vegna ertu að draga persónu Eiríks og fortíð hans inn í þessa umræðu?  Eiríkur sagði ekki annað í þessum pistli en margir höfðu sagt áður þar á meðal fyrrum forystumenn í flokknum. Þeir sögðu sig úr honum af þessum ástæðum.

Af einhverjum ástæðum virðast orð Eiríks þó hafa miklu meira vægi. Það er auðvitað ekki tilefni til lágkúrulegra persónulegra árása á hann. Slíkar árásir eru ómálefnalegar og rýra aðeins trúverðugleika þeirra sem beita þeim.  

Andúð á þjóðernisstefnu og þjóðrembu á auðvitað ekkert skylt við Íslendingahatur. Þvert á móti hefur slík andúð að markmiði að koma í veg fyrir að Íslendingar lendi í fjötrum einangrunar hugsanlega með skefilegum afleiðingum. Sérkenni þjóða eru mikils virði. Þau er auðvelt að varðveita innan ESB eins og reynslan sannar.

Ef þú telur að Ísland missi sjálfstæðið með ESB-aðild er það þegar glatað með EES samningnum. Reyndar göngum við skref tilbaka til sjálfstæðis með inngöngu í ESB. Þá munum við ekki lengur þurfa að lúta tilskipunum annarra þjóða heldur tökum fullan þátt í að móta þær. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 09:10

15 Smámynd: Gunnar Waage

Reductio ad absurdum

bkv

Gunnar Waage, 24.11.2011 kl. 14:03

16 Smámynd: Elle_

Hví má Jón Steinar ekki ´draga Eirík inn í umræðuna´?  Passar það ekki vel þar sem sami Eiríkur dregið okkur hin inn í alla umræðu með miklu hatri og lygum og líkt okkur við glæpamenn og útlendingahatara og öfgamenn?  Við verðum að svara persónuárásum og öfgatali um okkur og það verður ekki gert með neinu: Elsku Eiríkur, hættu nú að skálda um okkur.  Væri vert fyrir ykkur að fara að skilja að mesta öfgatalið er akkúrat ykkar.  

Líka skil ég ekki hvað maðurinn lætur eins og allt verði einangrað og lokað og læst ef við sættumst ekki á að MINNIHLUTINN dragi okkur með fantaskap og nánast valdi þangað sem við viljum alls ekki fara með fullvalda land okkar.   

Við höfum allan heiminn því þetta evrópska samband ykkar er bara um 42% af Evrópu og pínulítill 8% hluti alls heimsins.  Það verða engin endalok okkar þó við einangrumst ekki þarna inni í þessu miðstýringarveldi.  Þið ráðið þessu ekki.  

Elle_, 24.11.2011 kl. 17:40

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Minni á Kúpu norðursins Gylfa Magnússonar og Matthíasar Vilhjálmssonar.  Hvar er þessi Kúpa norðursins núna? ætli hún sé ekki frekar í Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Portugal. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2011 kl. 17:55

18 identicon

Elle, hvers vegna ertu á móti ESB? Viltu ekki lægra matvöruverð, lægri vexti, litla verðbólgu og enga verðtryggingu?

Viltu ekki stöðugleika sem kemur í veg fyrir að skuldir hækki upp úr öllu valdi? Viltu ekki gera íslensk fyrirtæki samkeppnishæf við erlend fyrirtæki?

Viltu ekki þá fjölbreytilegu útflutningsframleiðslu og auknu útflutningstekjur sem stöðugleikinn hefði í för með sér?

Viltu ekki betri lífskjör? Viltu nýtt hrun? Með krónu er það óhjákvæmilegt ef gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Næsta hrun verður hins vegar mun alvarlegra en 2008 vegna þess að nú er ríkið mjög skuldugt en var nánast skuldlaust 2008. Það er ekki hægt að afskrifa einhliða skuldir ríkisins eins og skuldir bankanna.

Viltu kannski gjaldeyrishöft um langa framtíð með þeirri einangrun og lífskjaraskerðingu sem þeim fylgja?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 23:25

19 Smámynd: Elle_

Ásmundur, fullveldi lands ætti ekki að vera gefið eða selt fyrir ódýrara lambalæri eða neina peninga.  Hví voru forfeður okkar þá að berjast með blóði sínu og lífi fyrir FULLVELDI. 

Og jú, ég vil gjaldeyrishöft frekar en örmiðil sem er kolfelldur að vild af ICESAVE-STJÓRNUM, glæpabönkum og vogunarsjóðum.  Við gætum verið með 2 + gjaldmiðla þess vegna en það þýðir ekki að við ættum að vera undir yfirstjórn evrópska stórveldisins. 

Við eigum að stjórna okkar landi sjálf.  Og ef alls ekki, vildi ég örugglega frekar vera hluti af Bandaríkjunum, Kanada, Færeyjum, eða Nýja-Sjálandi ef út í það er farið, heldur en að lokast inni undir ógnarstjórn þar sem lýðræðið er ekkert og ekki skárra en undir ´hinni norrænu velferðarstjórn´. 

Við ættum að vera í FRJÁLSUM samskiptum við önnur lönd og sem fullvalda ríki.   

Elle_, 25.11.2011 kl. 00:39

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel orðað Elle _ Ericson

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.11.2011 kl. 09:49

21 Smámynd: Elle_

Ásthildur, takk. 

Og já, ég man eftir ´Kúbu norðursins´ hans Gylfa og hinna ICESAVE-SINNANNA.  Lygin lak af þeim meðan þau þuldu ´Kúburnar´ og ´ísaldirnar´ og öll endalokin ´eftir næstu helgi´ ef við ekki létum gömul heimsveldi kúga okkur.  Hvílíkur fáránleiki. 

Og allan tímann vissum við að þau væru að skálda framan í opið geðið á okkur.   Við vorum líka úthrópuð ´óreiðumenn´ af þessu liði ef við ekki sættum okkur við nauðungina.

Elle_, 26.11.2011 kl. 01:16

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já mér liggur við að segja sem betur fer, því þetta herti okkur í vörninni að mínu mati.  Og nú stendur þetta fólk berskjaldað með sína lygi og áróður og æ fleiri verður ljóst hverslags fólk þetta er sem gerir allt til að koma okkur undir erlend yfirráð.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.11.2011 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband