Könnun MMR afhjúpar lymskulega orðaða könnun ESB-sinna
18.11.2011 | 12:25
Nú leggja ESB-sinnar ekki höfuðáherslu á rök sín fyrir inngöngu í ESB, enda hafa allar kannanir í tæp þrjú ár sýnt að meiri hluti landsmanna vill ekki láta leiða sig þangað inn. Þeir telja sér nú mest til tekna að fólk vilji fá að kjósa um málið og það verði ekki nema fyrst sé gerður fullbúinn samningur við 27 ríki um inngöngu þjóðarinnar í ESB.
Hlutlaust orðuð könnun MMR á vegum Andríkis sýnir ótvírætt að meiri hluti landsmanna vill beinlínis draga ESB-umsóknina til baka. Þannig afhjúpar sú niðurstaða leiðandi og villandi könnun sem ESB-sinnar skipulögðu fyrir fáum vikum og gaf þveröfuga niðurstöðu en Jóhanna forsætisráðherra nýtti sér einmitt þessa villandi könnun ESB-sinna í samtölum sínum við æðstu valdamenn ESB. Sama lymskulega orðaða spurningin var svo enn á ferðinni í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ESB-liðið í samtökunum Sterkara Ísland og birt er í Fréttatímanum í dag (18. nóv.).
Í könnun MMR er spurt beint út: Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka? Svarendur áttu kost á fimm möguleikum: 1) Mjög andvíg(ur), 2) Frekar andvíg(ur), 3) Hvorki fylgjandi né andvíg(ur), 4) Frekar fylgjandi, 5) Mjög fylgjandi.
Niðurstaðan sýndi að fjöldi þeirra sem sagðist vera Frekar andvíg(ur) og Frekar fylgjandi var næstum sá sami ( 11,5% og 11,7%). En úrslitum réð að þeir sem sögðust vera Mjög fylgjandi því að umsóknin yrði dregin til baka reyndust vera 38,8% og þar með miklu fleiri en þeir sem sögðust vera Mjög andvíg(ur) en þeir voru 23,8%. Heildarniðurstaðan var því að rúm 50% vildu draga umsóknina til baka en rúm 35 % vildu það ekki en rúm 14% tóku ekki afstöðu.
Ef aðeins er miðað við þá sem afstöðu tóku vildu tæp 59% að umsóknin yrði dregin til baka en 41% voru því andvíg.
Eins og sjá má var hér engin gulrót fest við aðra tegund spurninganna til að lokka fram hagstæð svör eins og gert er í könnun Capacent Gallup fyrir ESB-liðið sem lét spyrja: Hvort vilt þú ljúka aðildarviðræðum við ESB og fá að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu eða slíta aðildarviðræðum við ESB?
Niðurstaða þessarar könnunar reyndist að sjálfsögðu miklu hagstæðari fyrir ESB-sinna, eins og til var ætlast, en í henni vildu 53,1% þeirra sem tóku afstöðu halda aðildarviðræðum áfram og taka afstöðu til samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en 46,9% vilja slíta aðildarviðræðum.
Athyglisvert er að Fréttatíminn sem birti þessa frétt tekur svo til orða að könnun Capacent hafi snúist um afstöðu Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið. En það er að sjálfsögðu alrangt og beinlínis vísvitandi blekking. Könnun snerist alls ekki um afstöðu Íslendinga til inngöngu heldur að hálfu leyti um það hvort fólk vildi ljúka aðildarviðræðum við ESB og að hálfu leyti um það hvort fólk vildi fá að kjósa um málið. Þess skal getið að ritstjóri Fréttatímans er Jón Kaldal, eindreginn ESB-sinni, og reyndar einn sá ákafasti á landinu. Þessi fréttaflutningur þarf því ekki að koma á óvart.
Athugasemdir
Svona spurningar eru algerlega ómarktækar tölfræðilega séð, tölfræðin tekur bara til Já eða nei og svara ekki, annað er bara útúrsnúningur og ber þess merki að þeir sem vinna svona könnun séu frekar tæpir með tölfræðina.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 13:56
Fyrir hverja eru þessar spurningar lagðar? Fólk sem hefur búið í ESB landi lengur eða skemur og veit hvað það er? Eða fólk sem ferðast lítið, fylgist ekki með stjórnmálum og berst fyrir lifibrauðinu, eins og sagt er? Svörin geta ekki verið marktæk, einfaldlega vegna þess, að þetta fólk veit lítið og jafnvel ekkert um ESB. Halda áfram, eða stöðva umræðu og "hvað svo"? Meirihluti landsmanna hefur ekki hugmynd um hvað ESB er og hvað það byður t.d. hinum almenna borgara upp á. Ég var á Mallorca, þegar Spánn tók upp evruna. Mesta áfallið var okrið á smáþjónustu við almenning t.d. kaffibolli, rakari, smávörur í verslunum þar sem 1€ var 166 pesetas. Tek fram að vörur eru ennþá merktar með ps. jafnframt með €. Í dag er íslensk króna á svipuðu róli og stærsta sjokkið verður okrið á almenning, svipað og þegar tvö núll voru tekin af krónunni á sínum tíma. Spænska ríkisstjórnin gaf út tilkynningu um, að ef spánverjar vildu halda viðskiptavinum sínum (túristum), þá yrði að lækka alla þjónustu nú þegar, sem og gerðist. Því miður hafa íslendingar ekki það vit og upptaka evru kemur til með að hafa mikinn afturkipp í öllum viðskiptum vegna mikilla hækkana. Það, að verðtryggingin verður aldrei samþykkt með inngöngu er samt nóg til þess að koma þjóðarskútunni á heilbryggðara ról, að ég tali nú ekki um vextina.
Eitt má benda á, svona til gamans, að margir smábændur í ESB framleiða sína eigin osta og annað góðgæti t.d. súkkulaði heima á búgarðinum og margir hverjir selja beint frá sér, sem sýnir að ESB er ekki alls varnað. Dálítið annað en boð og bönn hjá þessari Guðs voluð þjóð á Íslandi.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 13:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.