Í minningu baráttumanns gegn aðild Íslands að ESB
17.11.2011 | 10:25
Þórir Karl Jónasson, eldheitur baráttumaður gegn aðild Íslands að ESB, einlægur vinstri maður og sívakandi í kröfu sinni um réttlæti, er fallinn frá rétt rúmlega fertugur að aldri. Þórir Karl vann af miklum krafti að hugsjónum sínum og eitt af hans stóru verkefnum var baráttan gegn aðild Íslands að ESB. Hann var mjög virkur í starfi Samstöðu um óháð Ísland, sem voru helstu samtökin gegn aðild Íslands ESB á tíunda áratug síðustu aldar og sat meðal annars í stjórn Samstöðu og var ritari samtakanna um skeið.
Við fórum saman á ársfund TEAM, samevrópskra samtaka gagnrýnenda ESB, fyrir liðlega áratug, en þann fund sótti Hjörleifur Guttormsson einnig, og þar var Þórir mjög virkur í starfi ungliða víðs vegar að úr Evrópu. Seinast lágu leiðir okkar saman á fundum Vinstri grænna í kringum síðustu kosningar. Hann var duglegur að berjast fyrir þeim réttlætismálum sem hann taldi brýnust hverju sinni og hikaði ekki við að beita hvassri gagnrýni ef honum þótti ástæða til. Þórir Karl lét víða til sín taka í umræðunni og þótt við værum ekki sammála um allt var ekki hægt annað en dást að elju hans og réttlætiskröfu.
Það lýsir sjálfsagt best sýn hans á stöðu okkar vinstra fólks gegn ESB sem hann skrifaði í athugasemdakerfið hér á Vinstrivaktinni fyrir tæpum mánuði, raunar rétt fyrir landsfund VG á Akureyri:
Því miður er það staðreynd að við sem stofnuðum VG á sínum tíma, eigum ekki mörg samleið með forystunni. Flokkurinn ætlaði sér að berjast fyrir bættu samfélagi og breyta eignaskiptingunni hér og jafna hlutina, að vísu get ég viðurkennt það að VG kom inn í ríkisstjórn við slæmar aðstæður, en það er ekki afsökun ein og sér. Flokkurinn ætlaði sér að hafna með öllu inngöngu í ESB, en að fara í aðildarviðræður (aðlögunarviðræður) er með réttu að flokkurinn ætlar sér ekki að gera neitt til að berjast gegn raunverulegri aðild að ESB, flokkurinn og forustan (þingmenn) ætla að sitja hjá. Það er vegna þessa sem ég og fleiri teljum okkur ekki eiga lengur samleið með VG. En við munum samt áfram berjast gegn inngöngu í ESB og réttlæti í samfélaginu. KV. Þórir Karl
Við sem áttum samleið með Þóri Karli í baráttunni vottum fjölskyldu hans samúð okkar.
Anna Björnsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.