Alþekkt er úr íslenskri sögu að búfé okkar sem einangrað hefur verið í þúsund ár er afar viðkvæmt fyrir erlendum dýrasjúkdómum. Þess vegna er innflutningur bannaður á lifandi dýrum. En það rímar hreint ekki við regluverk ESB.
Erna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, vakti athygli á því í ræðu sinni á aðalfundi Heimssýnar um seinustu helgi að á rýnifundi um löggjöf Íslands á sviði dýraheilbrigðis sl. vetur hefði ESB gert skýrar athugasemdir við að íslensk lög um matvælaöryggi, dýra- og plöntusjúkdóma féllu ekki að ESB-lögum. Sérstaklega var rætt um bann Íslendinga við innflutningi á lifandi búfé og plöntum.
Reglur ESB um dýraheilbrigði eiga að tryggja frjálst flæði búfjár innan sambandsins eins og um hverja aðra vöru sé að ræða. Fram kom það sjónarmið af hálfu ESB að mögulegt sé að tryggja hagsmuni Íslands með því að banna innflutning á búfé frá svæðum innan ESB þar sem er að finna tiltekna sjúkdóma sem ekki eru á Íslandi. Erna benti á að það væri af og frá að heilbrigði íslensks búfjár yrði tryggt með þessum hætti.
Aðeins hluti dýrasjúkdóma er skráningarskyldur innan ESB. Reynslan sýnir að sjúkdómar sem ekki teljast skæðir í búfé erlendis geta valdið stórfelldu tjóni þegar þeir berast í búfé sem hér hefur verið einangrað um aldir.
Það eru ekki aðeins bændur sem óttast hvað gerst geti ef frjáls innflutningur lifandi dýra verður leyfður að kröfu ESB. Hestamenn um land allt hafa þungar áhyggjur af þessu máli. Skemmst er að minnast hestapestarinnar sem herjaði árið 2010 og olli hundraða milljóna króna tjóni fyrir þann atvinnuveg einan.
Reynslan sýnir að þrátt fyrir að heilbrigðisvottorð fylgi plöntum sem fluttar eru hingað til lands frá ESB löndum berast á hverju ári sjúkdómar og meindýr sem hafa takmarkaða útbreiðslu innan ESB.
Tugir þúsunda manna stunda hestamennsku hér á landi og þeir munu vafalaust standa þétt við hlið bænda á móti kröfum ESB um frjálsan innflutning dýra.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG spurði Jón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, um þetta mál á opnum nefndafundi í Alþingi í gær.
Í mínum huga er þetta algjör forsenda fyrir viðræðum í sjálfu sér," svaraði Jón og bætti því við að áframhaldandi bann við innflutningi lifandi dýra væri ófrávíkjanlegt skilyrði. Þetta er líka hluti af okkar fæðuöryggi og hluti af því að við stöndum vörð um okkar viðkvæma búfé," sagði hann.
Engum sögum fer af afstöðu Össurar utanríkisráðherra til málsins.
Athugasemdir
Þetta er allt satt og rétt sem sagt er í þessum pistli. Það er ekki útlit fyrir að harðákveðnir ESB-aðildarsinnar vilji hlusta á hlið Íslands í þessum málum, frekar en öðrum.
Öfga-aðildarsinnar virðast hlusta eingöngu á Brussel-"ráðgjafa"-útgáfuna á öllum málum, og forðast að hlusta á innanlands-staðreyndir. Þetta eru ógnvænleg einstefnu-vinnubrögð, sem er útilokað að skilja sem ábyrg. Ábyrgir aðilar hlusta á allar hliðar, og kynna sér staðreyndir mála, og vilja rökræðu um allar hliðar. Að vaða áfram með eitthvað á jafn óábyrgan og rökræðulausan hátt og nú er gert í ESB-umsókninni, getur ekki endað nema illa fyrir heiðarlegan almenning, bæði hér á landi og í ESB.
Svona blindra-einstefna hefur verið notuð áður á Íslandi, og þá hrundu bankarnir. Sumum finnst spennandi að halda áfram að nota sama blekkingarleikinn og gloppótt kerfi EES og ESB-"ráðgjafa", þrátt fyrir fyrri reynslu þessarar þjóðar af blindragöngu græðginnar hjá siðlausum Evrópskum bönkum og matsfyrirtækjum.
Fólk vill fara í ESB til að kíkja í pakkann, og sjá hvað þeir græða á ESB, en ekki vegna hugsjónarinnar um frið og samstöðu. Var ekki ESB stofnað sem friðar-hugsjónabandalag?
Myndi Össur Skarphéðinsson og Silfur-Egill Helgason vilja vera fjósamenn og moka flór hjá frönskum eða þýskum bændum og fá fæði og húsnæði að launum? Ef þeir vilja raunverulega samstöðu, jafnræði og frið með ESB-aðildar-hugsjóninni, þá myndu þeir ekki láta slík kostakjör, sem matvinnungar í fjósamanns-starfi, stoppa sig í ESB-hugsjónastarfinu. Hugsjónafólk lætur ekki kröpp kjör stoppa sig.
En þessir tveir ágætu menn eiga það sameiginlegt (ásamt mörgum öðrum)að vera trúgjarnir og hafa trygga vinnu hjá valdastéttinni (gömlu/nýju). Það veikir vissulega trúverðugleika þessara tveggja ágætu "hugsjónarmanna" í ESB-málunum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.11.2011 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.