Ekki er allt búið fyrr en feita konan hefur sungið!
2.11.2011 | 10:46
Þetta sagði David Jones, markaðssérfræðingur hjá IG Index þegar hann frétti að gríska þjóðin fengi tækifæri til að fella sinn dóm um samkomulag Grikkja við ESB. Orð hans eru dæmigerð um þá djúpu fyrirlitningu sem fjármálasérfræðingar, rétt eins og embættismenn ESB, hafa á skoðunum hins almenna kjósanda. Því að auðvitað er það gríska þjóðin sem er feita konan sem á að fá að syngja.
Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ávallt verið eitur í beinum yfirstéttarinnar í ESB, embættismanna og skriffinna, svo og sérfræðinga á sviði fjármála og viðskipta. Ástæðan er sú að aftur og aftur hefur alþýða manna í ESB sett fótinn fyrir sívaxandi samruna, afsal fullveldisréttinda á hverju sviðinu af öðru og æ meiri valdasamþjöppun til hins þrönga hóps yfirstéttarinnar.
Í skrifstofu kanslara Þýskalands í Berlín áttu menn varla nógu kröftug orð í gær til að lýsa hneykslan sinni á ákvörðun George Papanadreous. Viðbrögðin voru í eðli sínu nákvæmlega þau sömu og þegar Írar, tóku upp á þeim skratta, einir þjóða í ESB, að leyfa almenningi að kjósa um Lissabonsáttmálann. Forystumenn ESB rifu í hár sér bölvandi og ragnandi yfir þvílíkri ósvífni. Og ekki minnkaði hneykslunin þegar Írar sögðu svo nei. En nei-ið stóð ekki lengi eins og von var. Írum var þröngvað til þess með góðu og illu ári síðar að segja já. Kannski verður það sama uppi á teningnum í Grikklandi.
Aftur á móti gátu íslenskir skattgreiðendur leyft sér að neita að borga skuldir óreiðumanna í þjóðaratkvæði um icesafe, þrátt fyrir þrýstinginn frá forystumönnum ESB, fyrst og fremst vegna þess að þeir eru ekki í ESB og hafa því getað staðið upp í hárinu á valdhöfunum í ESB aftur og aftur, nú seinast í makríldeilunni, eins og allir þekkja.
Ef Grikkirnir standa fast á sínu og verða svo reknir úr evrusamstarfinu, er allt eins líklegt að þeir taki aftur upp drökmuna og spjari sig miklu betur með því að standa á eigin fótum rétt eins og Íslendingar, sbr. það sem Bill Gross heldur fram samkvæmt frétt á mbl.is.
Fyrirtækið IG Index, sem fyrrnefndur Jones starfar hjá, rekur útibú víða innan ESB og er eitt stærsta fyrirtæki heims í afleiðuviðskiptum. Þess háttar brask í fjármálaheiminum telja einmitt sumir eina af orsökum skuldakreppunnar sem nú herjar á evruríkin. Að sjálfsögðu er þó flestum ljóst að meingallað eðli evrunnar er höfuðorsökin, þ.e. gjörólíkar aðstæður annars vegar hjá stóru og voldugu ríkjunum á miðju evrusvæðinu og hins vegar hjá ýmsum minni ríkjum á útjöðrum gjaldmiðilsvæðisins.
Grikkir ættu hugsanlega að fara að fordæmi Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég óska Grikkjum góðs í þessu stríði, vona svo sannarlega að þeir nái að halda sína kosningu, og gríska þjóðin segi stórt NEI. Það er góð skilaboð til heimsins á þessum tímum. Einhversstaðar þarf gröfturinn að vella út.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2011 kl. 11:39
"Aftur á móti gátu íslenskir skattgreiðendur leyft sér að neita að borga skuldir óreiðumanna í þjóðaratkvæði um icesafe, þrátt fyrir þrýstinginn frá forystumönnum ESB, fyrst og fremst vegna þess að þeir eru ekki í ESB .."
Það er nú ekki útséð um þetta atriði, enda eiga alþjóðlegir dómstólar eftir að fjalla um það og því miður veldur atkvæðagreiðsla hér á Íslandi engum straumhvörfum í því efni.
Ellilífeyrisþegi (IP-tala skráð) 2.11.2011 kl. 12:20
Ég er ekki farin að sjá að neinir erlendir dómstólar eigi eftir að fjalla um þessi mál. En mikið langar þá sem vildu endilega borga þetta að við lendum í að þurfa að gera eitthvað slíkt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2011 kl. 13:43
Þetta var góður leikur hjá Papandreó. Það er ekkert óeðlilegt að fólkið fái að ráða í þessum efnum. Ég tel að grikkir munu segja sig úr bandalaginu og eða í hið minnsta úr myntbandalaginu.
Valdimar Samúelsson, 2.11.2011 kl. 13:46
Tek undir með Ásthildi Cesil, þegar að hún svarar, "Ellellífeyrisþeganum" fullum hálsi sem hér skrifar að framan.
Að mikið langaði þeim nú til að við þyrftum að borga þennan ófögnuð.
Það voru tilbúnir 25 milljarðar íslenskra króna til að greiða bara í vexti af ICESAVE ruglinu strax fyrir kosningarnar þar sem ICESAVE var fellt örugglega öðru sinni.
Við munum sem betur fer, þökk sé forseta vorum og þjóðinni, aldrei þurfa að greiða neitt fyrir þetta sukk eitt eða neitt nema í mesta lagi einhverjar málamynda greiðslur til að loka málinu.
Bretar, Hollendingar og hin gerspillta ESB Elíta vita sem er að þetta er gjörtapað mál og að ætla að reyna að sækja það með dómstólum eða hervaldi myndi kosta þá miklu meira en hafa vit á því að sitja á strák sínum.
Þeir vita sem er að þeir hafa engan lögvarðan rétt til að fara gegn okkar þjóð í þessu máli ! Punktur og pasta !
En enn langar samt íslensku ESB aftaníossana að illa færi fyrir okkur í þessu máli, þeir eru svo áttavilltir og óþjóðlegir og djúpt sokknir í ESB drullufenið !
Gunnlaugur I., 2.11.2011 kl. 17:00
Ég held að meirihluti íbúa í ríkjum ESB sáttir við þessa ákvörðun.
Þetta breytir stöðunni. Eitthvað sem flestir hafa vilja.
Nú fá menn að kjósa. Það er frábært. Ég fagna því líka og fleiri í Þýskalandi sem eru Jafnaðarmenn. (Bara svo þið vitið það;) )
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 2.11.2011 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.