Fjórir aðlögunarstyrkir í fjárlagafrumvarpi þvert á samþykkt VG
27.10.2011 | 08:59
Á flokksráðsfundi VG fyrir einu ári var samþykkt að hafna aðlögunarstyrkjum ESB, þ.e. fjármagni sem beinlínis ætti að undirbúa aðild. Í nýju fjárlagafrumvarpi er þó engu að síður að finna fjóra slíka styrki og kallar það ótvírætt á skýringar af hálfu ráðherra VG.
Aðlögunarstyrkir eru veittir til verkefna á vegum stjórnvalda úr "foraðildarsjóði ESP" sem heitir á ensku Instrument for Pre Accession (IPA). Í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram 1. október síðastliðinn er gert ráð fyrir 400 milljón króna aðlögunarstyrkjum á árinu 2012.
Jafnframt er boðað að á næstu fjórum árum nemi þessir styrkir alls 926 milljónum íslenskra króna.
Í texta fjárlagafrumvarpsins er tekið fram að IPA-verkefni Íslands hafi verið "valin með tillliti til þess að þau myndu nýtast Íslandi hvort sem að aðild verður eða ekki." Verkefnin sem hér um ræðir eru eftirtalin:
1) Iðnaðarráðuneytið tekur við 37 milljónum á þessu ári og 91 milljón alls á næstu árum til verkefnis sem unnið er af Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi og heitir Katla-Jarðvangur. Um er að ræða uppbyggingu á þekkingarsetri og mun nýtast til þátttöku Íslands í Evrópska byggðaþróunarsjóðnum.
2) Menntamálaráðuneytið fær 124 milljónir í ár og alls 309 milljónir til að styðja við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem ætlað er að auka starfshæfni fullorðinna sem hafa litla menntun.
3) Efnahags- og viðskiptaráðuneytið: Hagstofan hefur samið um 13 milljóna Eurostatstyrk og 36 milljóna króna IPA styrk á árinu 2012 til manntalsverkefna og undirbúnings að kerfi til að halda utan um utanríkisviðskipti Íslands við önnur aðildarríki Evrópusambandsins ef til aðildar að sambandinu kemur. Heildar Evrópustyrkir til verkefnisins nema um 135 milljónum en vera má að hluti þeirrar upphæðar komi úr sjóðum sem Íslendingar taka þátt í og greiða til í gegnum EES. Það sem hér liggur að baki er að við aðild yrði Ísland að taka upp tollkerfi ESB og m.a. að leggja toll á ýmsar vörur frá löndum utan ESB sem ekki bera toll á Íslandi. Á það einkum við um vörur, m.a. matvörur, sem koma frá Norður-, Mið- og Suður Ameríku. Hér er því bersýnilega um að ræða mikinn undirbúning og aðlögun áður en þjóðin hefur tekið nokkra afstöðu til málsins.
4) Umhverfisráðuneytið fær 125 milljónir á árinu og alls 468 milljónir til verkefnisins NATURA 2000 sem unnið verður af Náttúrufræðistofnun. Í verkefni þessu verður ráðist í kortlagningu vistkerfis, fuglalífs og svæða sem þarfnast verndunar vegna yfirtöku tilskipana ESB á sviði náttúruverndar, burt séð frá því hvort þær séu sniðnar að íslenskum aðstæðum.
Allir styrkirnir koma fram í fjárlögum þar sem IPA styrkir eru veittir íslenska ríkinu til ákveðinna verkefna. Því hækkar tekjugrunnur Íslands um 400 milljónir á árinu og síðan umtalsvert til viðbótar á næstu árum.
Í fjölmiðlum hefur komið fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hafi hafnað þátttöku í nokkur hundruð milljón króna IPA-verkefni.
Ályktun flokksráðs VG frá haustinu 2010 er að finna á vefsíðu VG: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/4911 Þar segir m.a:
Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild. Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis."
Engu breytir þótt IPA-verkefnin hafi verið valin með tilliti þess að þau nýtist Íslandi utan ESB. Yfirleitt er fjarstæðukennt að hægt sé að verja 926 milljónum króna með svo hrapalegum hætti að það sé með öllu gagnslaust fyrir fullvalda Ísland þótt þjóðin gangi ekki inn í nýtt stórríki ESB. Hins vegar er hér augljóslega verið að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem koma skal: að bera fé á dóminn" til þess að flækja sem flesta kyrfilega í ESB netinu.
Nánari upplýsingar um IPA styrkina má finna í fjárlagafrumvarpinu: (http://www.althingi.is/altext/140/s/pdf/0001.pdf ) á blaðsíðum 201, 270, 394 og 414.
Meirihluti styrkja vegna VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.