Að draga menn á asnaeyrunum stuðlar ekki að góðum samskiptum í framtíðinni
24.10.2011 | 15:16
Það er séríslenskt uppátæki að kíkja í ESB-pakkann með formlegri inngöngubeiðni. Stefán Fühle, stækkunarstjóri ESB, hefur aldrei kynnst því fyrr að þjóð sæki um inngöngu í ESB í þeim tilgangi að sjá hvað út úr því komi. Hann bætir því við að þeir sem það geri séu að draga ESB á asnaeyrunum.
Þetta kom fram á fundi stækkunarstjórans með utanríkismálanefnd Alþingis, sbr. frétt Morgunblaðsins í dag, 24. okt. Fühle lagði áherslu á að umsókn um aðild þyrfti að byggjast á skýrum vilja viðkomandi þjóðar til að fá inngöngu í sambandið og viðræðurnar fara fram á þeim forsendum".
Samkvæmt þessu ætti að vera ljóst að frá sjónarmiði ESB fara aðildarviðræðurnar fram á kolröngum forsendum. Eins og allir vita hafa skoðanakannanir sýnt undanfarin þrjú ár að mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur ESB-aðild. Samfylkingin var eini flokkurinn sem boðaði aðild að ESB fyrir seinustu kosningar og fékk síðan samstarfsflokkinn til að hafna því að þjóðaratkvæði um aðildarumsóknina færi fram.
Það er engum til góðs og síst af öllu okkur Íslendingum að draga ESB á asnaeyrunum með því að óska eftir formlegum samningi við 27 ríki um inngöngu í ESB og láta þjóðþing í jafnmörgum löndum fjalla um samninginn í þeim tilgangi að skoðanakönnun geti farið fram í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem mestar líkur eru á að samningurinn verði síðan felldur. Þessi fáránlega aðferð til að kíkja í pakkann" er til þess eins fallin að valda erfiðleikum í samskiptum Íslands við ESB á komandi árum. Við þurfum sannarlega á því að halda að eiga góð samskipti við ESB í framtíðinni og stuðlum ekki að því með því að draga forystumenn ESB á asnaeyrunum. Þess háttar dyrabjölluat er grín sem hæfir óþekkum krökkum, sem ekki hafa annað að gera, en ekki fullorðnu fólki og kemur auðvitað þjóðinni síðar í koll.
Orð stækkunarstjórans eru því einmitt skýr rök fyrir því að ekki sé haldið áfram að verja mörgum milljörðum í gagnslaust umsóknarbrölt sem augljóslega er byggt á fölskum forsendum.
Drögum umsókna til baka eða leggjum hana til hliðar! Skrifum undir hjá skynsemi.is!
Ragnar Arnalds
Athugasemdir
Hárrétt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.10.2011 kl. 15:40
Nákvæmlega. Og þó löngu fyrr hefði verið. Stjórnvöld verða að hætta þessu fáránlega rugli og helst leggja niður Samfó í leiðinni.
Elle_, 24.10.2011 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.