Jóhanna gerir lítið úr andstöðu „villikattanna“ við ESB-aðild
23.10.2011 | 13:59
Frægt varð þegar Jóhanna líkti þingmönnum VG við villiketti sem erfitt væri að smala. Nú skín glaðhlakkalegt háð hennar í garð samstarfsflokksins enn í gegn þegar hún gerir lítið úr ESB-andstöðu Vinstri grænna.
Við skulum líka átta okkur á því að þrátt fyrir andstöðu innan VG við aðild að ESB hefði aðildarumsókn um ESB ekki orðið að veruleika, nema á grundvelli þessa stjórnarsamstarfs. Af yfirlýsingum forystumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks blasir við að umsóknin yrði dregin til baka kæmust þeir aftur til valda."
Þannig komst Jóhanna Sigurðardóttir að orði þegar hún setti landsfund Samfylkingarinnar s.l. föstudag 21. október. Hún þakkaði forystumönnum VG stuðninginn við ESB-aðildarumsóknina og taldi að þann stuðning bæri sérstaklega að hafa í huga þegar á móti blési eða hvessti á stjórnarheimilinu.
Það kemur auðvitað ekki á óvart að Jóhanna þakki forystu VG fyrir að greiða götu aðildarumsóknar að ESB, því að auðvitað er það hárrétt hjá henni að umsóknin hefði aldrei orðið að veruleika ef liðlega hálfur þingflokkur VG hefði ekki komið Samfylkingunni til hjálpar og tryggt henni framgang á Alþingi, þvert á yfirlýsta sannfæringu sína.
Hins vegar er ljóst að Jóhanna tekur nokkuð vægt til orða þegar hún segir um flokk sem samþykkt hefur einróma á öllum landsfundum sínum frá stofnun að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB, að um sé að ræða einhverja óskilgreinda andstöðu innan VG við aðild að ESB". Með orðavali sínu er hún óneitanlega að gefa í skyn og segja undir rós að andstaða VG við ESB-aðild sé ekki neitt til að hafa áhyggjur af.
Allar skoðanakannanir hafa þó sýnt að mikill meirihluti kjósenda VG er andvígur ESB-aðild. Jafnframt sýndi skoðanakönnun í sumar að meirihluti kjósenda VG vill beinlínis draga ESB-umsóknina til baka. Málið snýst því ekki um andstöðu INNAN VG" við aðild. Það er yfirlýst stefna VG að Ísland standi utan ESB. Mikill meiri hluti þjóðarinnar styður þá stefnu.
Forysta VG gerir sér vafalaust grein fyrir því að það er þegar orðið VG býsna dýrkeypt að hlaupa undir bagga með Samfylkingunni og hleypa ESB-umsókninni í gegn þrátt fyrir andstöðu við ESB-aðild. Allir stjórnmálaflokkar byggja tilveru sína á því að stuðningsmenn beri traust til forystunnar og þeirrar stefnu sem hún hefur boðað. Framsóknarflokkurinn galt illilega fyrir það á sínum tíma að daðra við ESB-aðild í andstöðu við mikinn meiri hluta þeirra sem studdu flokkinn.
Nú hefur framsókn gert hreint fyrir sínum dyrum og forystan fylgir skýrri stefnu gagnvart ESB-umsókninni. Líklegt er að í næstu kosningum muni framsóknarmenn höggva drjúgt inn í raðir þeirra sem stutt hafa VG, ef svo fer fram sem horfir, meðan Össur stendur í stafni og stjórnar ESB-siglingunni, að forysta VG láti áfram reka á reiðanum og hrekist undan veðri og vindum, án þess að láta mikið til sín heyra og án þess að minna kjósendur rækilega á hver sé stefna VG. Allt bendir til þess að spurningin um ESB-aðild verði stærsta málið í næstu kosningum og hætt er við að framboð sem reyna að sigla milli skers og báru í þessu máli njóti ekki mikils trausts.
Forystumönnum VG er því lítill greiði gerður þegar Jóhanna forsætisráðherra klappar þeim á bakið og hrósar þeim glaðhlakkalega fyrir veittan stuðning í baráttu sinni fyrir ESB-aðild. Almennir stuðningsmenn VG gerast nú langeygir eftir að sjá og heyra hvað forystan hefur nýtt að segja um afstöðu VG til þessa máls. Vonandi lætur landsfundur VG ekki sitt eftir liggja um næstu helgi að skýra stefnu VG fyrir landsmönnum á afdráttarlausan hátt.
Ragnar Arnalds
Athugasemdir
Þegar Jóhanna talaði um "villikettina" hélt hún að nægur stuðningur væri innan annara flokka en VG til stjórnarsamstarfs, til að koma ESB ruglinu áfram. Hún hélt að hún gæti verið án stuðnings VG.
Þegar svo bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tóku báðir afgerandi afstöðu gegn aðild, áttaði hún sig á að hún var múlbundin þingflokki VG.
Hún hefur áttað sig á þeirri staðreynd að aðildarumsókn verður ekki haldið áfram nema þingflokkur VG haldi áfram að svíkja sína kjósendur. Því er hún nú varfærnari í orðalagi gagnvart þeim.
Gunnar Heiðarsson, 23.10.2011 kl. 15:05
Því miður er það staðreynd að við sem stofnuðum VG á sínum tíma, eigum ekki mörg samleið með forustinni. Flokkurinn ætlaði sér að berjast fyrir bættu samfélagi og breyta eignaskiptingunni hér og jafna hlutina, að vísu get ég viðurkennt það að VG kom inn í ríkisstjórn við slæmar aðstæður, en það er ekki afsökun ein og sér. Flokkurinn ætlaði sér að hafna með öllu inngöngu í ESB, en að fara í aðildarviðræður (aðlögunarviðræður) er með réttu að flokkurinn ætlar sér ekki að gera neytt til að berjast gegn raunverulegri aðild að ESB, flokkurinn og forustan (þingmenn) ætla að sitja hjá. Það er vegna þessa sem ég og fleiri teljum okkur ekki eiga lengur samleið með VG. En við munum samt áfram berjast gegn inngöngu í ESB og réttlæti í samfélaginu. KV. Þórir Karl
Þórir Karl Jónasson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 15:45
Góður punktur hjá þér Gunnar, en það er alveg ljóst að VG hefur rústað sínum trúverðugleika um aldur og eiflífð, enginn mun nokkruntímann aftur trúa því að hann sé á móti inngöngu í ESB.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 16:43
Það er öruggt að svik Steingríms J. Sigfússonar við stefnu VG hefur þegar fælt marga hugsandi vinstri menn frá því að kjósa hann eða það hiski sem hann hefur gert að hirð sinni aldrei aftur, en vonandi eru þessir kjósendur skarpari en skólakrakkar og fara ekki að kjósa Framsóknarflokkinn sem enn er opinn í alla enda, eða eigum við að horfa upp á spillingargrósserana Finn og Ólaf tröllríða samfélaginu aftur í boði framsóknar, nóg er að sjá aumingjaskap fjármálaráðherrans varðandi bankasýslu. Þar ætti hann að taka ritsjóra MBL. sér til fyrirmyndar og leggja Þorstein, Pál og co. niður.
En vonandi kveður Lilja VG og býður sig fram fyrir Hreyfinguna og rakar til sín fylgi.
Sigurður Haraldsson
sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 17:18
Þórir: VG henti stefnuskrá sinni og loforðum og tók upp stefnuskrá Samfylkingarinnar við stjórnarmyndun. Hann samlagaðist öðrum flokki og sveik alla sína kjósendur í öllum liðum. Hverjum einasta N.B.
Ertu ennþá VG? Ég er með fréttir fyrir þig: VG er ekki til, non entity. Hér ríkir einræði. Jóhana bölvði því í ræðu sinni að þurfa að lúta hæstarétti (sem hún raunar hunsaði), Þurfa að umbera erfiða stjórnarandstöðu, og að vera ekki ofar Forsetanum í valdapýramídanum. Aumingja kerlingin. Vil ekki einhver reyna að skýra hugtakið lýðræði út fyrir henni?
Hvað varðar Steingrím J. : Hann mun enda feril sinn bak við lás og slá ef búum við eðlilegt réttarfar. Hann er ekkert annað en ótýndur glæpamaður.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2011 kl. 17:18
já Jón Steinar þú skefur ekkert utan af því, það sem margir hafa hugsað en ekki þorað að segja. En alveg er ljóst að núna munu VG og samspilling hanga á stólunum í lengstu lög því það er örugglega runnið upp fyrir flestum þeirra að þau munu ekki eiga afturkvæmt á alþingi eftir næstu kosningar.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 17:28
Það er til leið hún er hér: http://utanthingsstjorn.is/
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.10.2011 kl. 18:19
Enginn vitiborinn maður mun fara að taka alvarlega orð forystu VG hvað sem þeir segja. Ekki einu sinni munu´villikettirnir´ hlusta. Enda ekkert að marka nein fyrir orð. Steingrímur getur básúnað allt hann vill fyrir landsdómi eða sakadómi með Jóhönnu vegna ICESAVE.
Elle_, 23.10.2011 kl. 23:09
Ég ætla heldur ekkert að skafa utan af því,sjá dagar koma,þar sem þau fá makleg málagjöld, von að ég verði ekki dauð.
Helga Kristjánsdóttir, 23.10.2011 kl. 23:28
Ég vona svo sannarlega að það verði niðurstaðan, að Jóhanna og Steingrínur verði dregin fyrir dóm vegna aðkomu þeirra að skuldatilfærslum frá heimilum til fjármálafyrirtækja, og einnig vegna Icesave reikningana, það er ekki eðlilegt að þau skuli geta komist upp með að snúa öllu á hvolf og framkvæma hlutina án tillits til hagsmuna þjóðarinnar, rétt eins og við búum við einræði.
ESB umsóknin er svo annar kapituli, um hann ríkir stór spurning í mínum huga t.d. það að Alþingi Íslendinga óháð flokkum skuli hafa samþykkt að fara af stað í þessa vegferð, þar sem þeim mátti vera ljóst að við höfðum þegar innleitt 70-80% af regluverki ESB, það sem útaf stóð gátu þeir lesið sér til um,hlægilegt að tala svo um að þeir vilji kíkja í pakkann. Nei ég hef á tilfinningunni að þegar og ef Samfylkingin fær að ganga til enda með þessa vitleysu verði jafnvel of seint fyrir þjóðina að snúa við og við getum hætt að tala um Ísland sem sjálfstætt.
Sandy, 24.10.2011 kl. 09:50
Já Áshildur mín, utanthingsstjorn.is er eina leiðin. 24 grein stjórnarskrárinnar heimilar forseta að rjúfa þing, og honum líðst ekki að vanvirða undirskriftir meiri hluta landsmanna um áskorun til þess.
Það væri athyglivert að sjá hverjir ekki vilja skrifa undir þessa áskorun, og vita hvers vegna þeir ekki vilja það? Ekki myndi ég kjósa það fólk í alþingiskosningum, sem er of flokkaklíku-múlbundið, til að virða lýðræðið!
Forsetinn verður, vegna sjúklegs klíkuástands í þjóðfélaginu, að skipa réttlátt, heiðarlegt, samstarfshæft, reynsluríkt og vitiborið fólk til að stjórna hér í einhver tíma. Það á að vera hægt að komast að samkomulagi um niðurstöðu nokkura einstaklinga.
Það verður undantekningarlaust að vera fólk sem ekki er búið að selja sálu sína, skoðanir og sannfæringu fyrir ráns-peninga og falskar embættisstöður, og hægt er að treysta til að gera það ekki eftir að það hefur tekið við stjórn.
Heiðarleiki og virðing skiptir höfuðmáli í stjórnun landsins.
Flokkapólitíkin hefur eyðilagt og splundrað allri samstöðu og virðingu á Íslandi.
Samt finnst enn fólk sem talar um, og trúir því, að það þurfi flokka til að verja lýðræðið! Ekkert hefur farið ver með lýðræðið heldur en flokka-blóðsugurnar. Fólki er púslað í öll embætti og stöður eftir þeim flokka-klíkum sem logið hafa sig inn í stjórn með ofurfjármagni, og svíkur svo loforð við kjósendur sína og þjóðina um leið og búið er að nota atkvæði almennings.
Þvílíkt lýðræði!
Nei takk, ekki meira svika-flokka-kjaftæði og valda/peninga-rányrkju af svika-flokka-klíka hálfu! Flokkar ganga bara af almenningi dauðum, vegna spillingar og græðgi þeirra sem eiga flokkana.
Það breytist ekki á meðan hugsunarhátturinn á Íslandi gengur út á það að engum komi það við, þótt brotið sé á náunganum, ef ekki er um ættingja, vini eða flokka-klíkufélaga að ræða.
Samfélagsþroski íslendinga er í svo miklum mínus, að það mun taka mörg ár að kenna fólki að ókunnugt fólk eigi jafn mikinn rétt á, að almenningur og samfélagið taki upp varnir fyrir það, eins og væri það okkar eigin ættingjar, vinir eða flokka-klíku-systkini.
Þetta viðbjóðslega Íslenska klíkusamfélag er villimannslegt, og sitjandi stjórnarklíka er einmitt þannig, eins og hefur verið frá stofnun lýðveldisins. Það fer versnandi með árunum ef eitthvað er.
"Íslenska klíku-aðferðin" er ónothæf með öllu.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.10.2011 kl. 10:37
Já alveg réltt Anna, nú vill svo til að grasrótarfólk hefur farið á fund forsetans og rætt við hann ýmis mál, þar á meðal er ég viss um að rætt hefur verið um núverandi stjórnvöld og svik þeirra við þjóðina. En eins og vioð hljótum að muna þá er hann Guðfaðir þessarar ríkisstjórnar, hélt eins og við hin að þetta væri ærlegasta fólkið. En reiknaði örugglega ekki með einræðisdraumum þeirra.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.10.2011 kl. 11:22
Góð er greinin hér eftir Ragnar Arnalds, sem hans var von og vísa.
Jón Valur Jensson, 24.10.2011 kl. 12:14
Ég líkt og svo margir aðrir batt vonir mínar við stefnu VG og að þar færi stjórnmálaafl sem ekki væri rotið að innsta kjarna, stjórnmálaafl sem meinti það sem það segði og hefði forustu sem væri óhrædd að takast á við spillingaröflin, en mikið hrapalega skjátlaðist mér í því mati mínu og í dag sé ekki eftir neinu eins og að hafa stutt og unnið fyrir þennan flokk í síðustu tveim kosningum en starfaði fyrir VG hér á suðurlandi og við hjónin sátum í stjórn svæðisfélags VG í Ölfusi og Hveragerði og sat eiginkona mín þar reyndar sem formaður, bæði höfum við sagt skilið við VG í dag vegna stefnu flokksins í þessari ríkisstjórn og þeim svikum sem forusta VG hefur staðið fyrir þar sem nánast öll kosningarloforð hafa verið svikin í jafn stóru sem smáu. Það eina sem stendur upp úr er að enn finnast þó þeir meðlimir flokksins sem ekki vill láta forustuna fara svona með sig, bæði í röðum óbóreittra félagsmanna VG sem og í röðum þingmanna sem og þeirra sem yfirgefið hafa flokkinn. Ragnar veit sem er að það fólk sem skipar forustu VG getur ekki hugsað þá hugsun til enda að fyrsta hreina meirihlutastjórn vinstri manna flosni upp, því skipta málefnin og kosningaloforðin og stefn flokksins forustufólki VG engu, það fólk svífst einskinns í viðleitni sinni til að hanga á ráðherrastólunum og samstarfinu við SF, við hin sem viljum halda fast í stefnu flokksins og kosningaloforð hans eða yfirgefa samstarfið við SF ella erum sá fórnarkostnaður sem forustu VG finnst vera ásættanlegur í þessari viðleitni sinni.
Rafn Gíslason, 24.10.2011 kl. 16:03
Þetta er sárt, en satt innlegg frá þeim góða Rafni.
Jón Valur Jensson, 26.10.2011 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.