Hjörleifur: Brusselvaldið og afdrifarík skerðing lýðræðis

Afsal fullveldis og skerðing lýðræðis blasa við í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu. Það síðara tengist ólýðræðislegri uppbyggingu ESB og við bætist fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum sambandsins þar sem íslenskur almenningur hefði lítil tækifæri til að gera vart við sig. Þar fyrir utan er það fjármagn og fjölþjóðafyrirtæki sem eru mestir áhrifavaldar í ESB og stærstu ríkin, Þýskaland og Frakkland, sem marka stefnuna eins og berlega hefur komið í ljós á síðustu mánuðum. Með Lissabon-sáttmálanum hefur svo sameiginleg utanríkis- og hermálastefna bæst við sem einn af grunnþáttum á leið ESB í átt að sambandsríki.

Skerðing lýðræðis og fjarlægt vald

Skert lýðræði, sem oft er vísað til sem „lýðræðishalla‟, hefur einkennt ESB frá upphafi og orðið æ meira áberandi eftir því sem aðildarríkjum þess hefur fjölgað og framkvæmdastjórnin í Brussel náð undir sig fleiri málasviðum. Stjórnskipuð 27 manna framkvæmdastjórn í Brussel með tugþúsunda starfsliði og umkringd herskörum lobbýista hefur ein rétt til að leggja fram lagafrumvörp (tilskipanir) sem ráðherraráð ESB og Evrópuþingið síðan þurfa að samþykkja eftir flóknum reglum, m.a. um atkvæðavægi. Stöðugt heyrast kröfur um styrkingu ESB-þingsins en auknum áhrifum þess fylgir  óhjákvæmilega minna vægi þjóðþinga aðildarríkjanna. Áhugi á kosningum til Evrópuþingsins hefur verið mjög takmarkaður, í síðustu kosningum var þátttakan aðeins um 43% og fór niður í 20% í sumum aðildarríkjum.

Á Evrópuþinginu fengi Ísland í mesta lagi 6 fulltrúa af nú 736 alls og og réði yfir langt innan við 1% atkvæða af 350 í Ráðherraráði ESB. Fjarlægð Íslands frá meginlandinu og valdastofnunum ESB takmarkar enn frekar möguleika til áhrifa, svo ekki sé talað um að íslenskur almenningur geti haft áhrif með nærveru sinni eins og gerist gagnvart innlendum stofnunum. Það verður engin búsáhaldabylting ástunduð með valdamiðstöðvar staðsettar handan Atlantsála.

Fjármagnið ræður för

Gangverk Evrópusambandsins er í grunninn hákapítalískt með óheft fjármagnsflæði og fjölþjóðafyrirtækin sem leiðandi afl. Markaðurinn þrengir sér stig af stigi inn á svið opinberrar þjónustu, studdur af úrskurðum Dómstólsins í Lúxemborg sem tekur mið af markmiðum stofnsáttmála ESB um samruna og aukna samkeppni í dómsniðurstöðum. Það sem hefur verið að gerast á evru-svæðinu að undanförnu afhjúpar að það eru hagsmunir fjármagns sem þar ráða för. Þessa dagana er verið að leggja á ráðin um að ausa fjármunum úr sameiginlegum sjóðum í einkabanka og aðrar fjármálastofnanir. Herða á síðan á spennitreyju evrunnar með miðstýrðum ákvörðunum og boðvaldi frá Brussel um fjármál aðildarríkjanna, þar sem niðurskurður velferðarþjónustu er efstur á blaði og jaðarsvæði verða harðast úti.

Utanríkis- og hernaðarmálefni

Með Lissabon-sáttmála hefur verið stofnað embætti yfirmanns utanríkis- og öryggismála ESB. Sá hinn sami er varaformaður framkvæmdastjórnar ESB. Sett hefur verið á fót Samvinnustofnun hermála, komið á sérstökum Evrópuherdeildum  (EU Battlegroups) og Ráðherraráð ESB og Evrópuþingið hefur samþykkt að stofna skuli 60 þúsund manna her (Eurocorps). Vopnasala hefur lengi verið stór liður í atvinnustarfsemi margra ESB-ríkja. „Aðildarríkin skulu auka hernaðarmátt sinn‟ segir í 42. grein Lissabon-sáttmálans. Evrópusambandið býr sig þannig undir að verða hernaðarstórveldi.

 Áhugi ESB á aðild Íslands vegna Norðurslóða

Ekki hefur farið dult áhugi ESB á aðild Íslands m.a. vegna aukinna ítaka sem það myndi veita Evrópusambandinu til að hlutast til um málefni Norðurslóða. Í ályktun Evrópuþingsins 20. janúar 2011 um stefnu ESB fyrir norðurheimsskautssvæðið er vikið að aðildarumsókn Íslands með þessum orðum:

„[Evrópuþingið] beinir sjónum að þeirri staðreynd að framtíðaraðild Íslands að ESB myndi breyta Evrópusambandinu í strandeiningu á Norðurslóðum (Arctic coastal entity) og að umsókn Íslands um aðild undirstrikar þörfina á  samræmdri Norðurslóðastefnu ESB og gefur hernaðarleg tækifæri fyrir ESB til virkari afskipta og myndi leiða til fjölþættrar stjórnar á heimsskautssvæðinu; [þingið] telur að aðild Íslands að ESB myndi treysta í sessi nærveru ESB í Norðurheimskautsráðinu.‟

Hér væri kominn sá hlekkur sem rannsóknadeild sænska hersins lýsti eftir á dögunum um leið og hún dró fram Bjart í Sumarhúsum sér til fulltingis.

Hjörleifur Guttormsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Enn slær Hjörleifur Guttormsson í gegn í sínum skrifum.  Segir í einum pistli næstum allt sem segja þarf um evrópska miðstýringarveldið. 

Elle_, 22.10.2011 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband