Ógöngur evrusvæðisins komu alls ekki á óvart

Flestum er nú ljóst að undirrótin að gífurlegum vanda evruríkjanna felst í gjörólíkum efnahagslegum aðstæðum þeirra og meingölluðu stjórnskipulagi evrusvæðisins. Á þetta bentu hundruð hagfræðinga áður en evran var sett á flot.

Minna má á að heilu ári áður en evran fór í umferð 2001 rituðu 155 þýskumælandi hagfræðingar undir ávarp og fóru fram á að upptöku evru yrði frestað um óákveðinn tíma og færðu fyrir því skýr rök.  Vandi evrusvæðisins fólst frá upphafi í því að vegna ólíkra aðstæðna í hagkerfum þeirra ríkja sem nota áttu sameiginlegu myntina voru hagsveiflur þeirra nokkuð langt frá því að vera í takt. Vaxtastig og gengi gjaldmiðilsins sem í báðum tilvikum réðust af þörfum og aðstæðum í forysturíkjunum, Þýskalandi og Frakklandi, hentuðu ýmsum smærri ríkjum verr.

Upptaka evrunnar var fyrst og fremst pólitískt áhugamál stjórnmálamanna sem vildu nýta sameiginlega mynt til að þrýsta á um hraðari samruna ESB-ríkjanna í ein voldug Bandaríki Evrópu. Reynslan virðist hins vegar sýna að treglega hefur gengið að hrista saman ólík hagkerfi innan evrusvæðisins.

Gunnar Rögnvaldsson hefur á bloggi sínu tilveran-i-esb.blog.is tekið saman ýmsar athyglisverðar staðreyndir í þessu máli. Hann hefur t.d. bent á að mismunurinn á lægstu og hæstu verðbólgu í löndum myntbandalagsins var, þegar evran fór í umferð, um tvö prósentustig. En nú tíu árum seinna er þessi mismunur 5,9 prósentustig. Mismunurinn á milli árlegs meðaltals hagvaxtar Írlands og Portúgals á fyrri helming áratugar myntbandalagsins var 4,8 prósentustig. Árið 2009 var þessi mismunur orðinn 6 prósentustig. Mesti mismunur á milli framleiðnivísitölu landa evrusvæðis óx frá 25 vísitölustigum í 66,2 stig á 10 árum myntbandalagsins. Mismunurinn á milli launavísitölu evrulanda (vísitala tímalauna) óx frá 5,4 prósentustigum til 32,8 prósentustiga á tíu árum myntbandalagsins.

Eftirtektarvert er að vandræðaástandið á evrusvæðinu hefur verið verst í þremur ríkjum á ystu jöðrum svæðisins: Írlandi, Grikklandi og Portúgal, og þróunin er einnig hægt og bítandi á verri veginn í tveimur stórum ríkjum á suður-jaðrinum: Spáni og Ítalíu.

Umsóknarríkið Ísland er sannarlega yst á jaðri álfunnar. En það er jafnframt staðreynd að hagkerfi Íslands er ólíkara hagkerfum stóru ríkjanna á evrusvæðinu en efnahagskerfi nokkurs evruríkis. Því veldur einkum hvað sjávarútvegur og fiskvinnsla eru hér mikilvægur þáttur efnahagslífsins. Hagþróun hér á landi, uppsveiflur og samdráttarskeið, hafa sem sagt verið hér í afar litlum takti við efnahagsþróun í forysturíkjum evrusvæðisins, Þýskalandi og Frakklandi. Því má með góðum rökum fullyrða að evran henti íslensku efnahagslífi enn verr en jaðarríkjum evrusvæðisins. En meira um það síðar.

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband