ESB bannar makrílveiðar við Ísland þótt 42% stofnsins sé að finna hér við land

Það er dæmigert fyrir ofríki ESB í sjávarútvegsmálum að ár eftir ár hefur ESB reynt að þvinga okkur Íslendinga til að afsala okkur veiðum á makríl í eigin lögsögu. Lengi vel vildu þeir ekki einu sinni ræða við okkur um veiðarnar og okkar mönnum var meinað að senda fulltrúa á fundi ESB þar sem fjallað var um makrílveiðar í Norður Atlantshafi.

En nú sýna rannsóknir að langstærstur hluti veiðistofnsins heldur sig á Íslandsmiðum á sumrin. Við höfum haldið áfram veiðum á makríl vegna þess að við höfum valdið til að stjórna veiðum hér við land og höfum ekki afsalað okkur þeir rétti eins og verða myndi ef við gengjum í ESB. Fá mál sýna því eins ljóslifandi hvílíkt glapræði það væri fyrir Íslendinga að fórna samningsréttinum um veiðar á deilistofnum í Norður Atlantshafi.

Á vef Hafrannsóknarstofnunar er birt skýrsla "um sameiginlegan leiðangur Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var í s.l. sumar á hafsvæðinu í kringum Ísland, Færeyjar og um Austurdjúp, allt að ströndum Noregs til að meta dreifingu og magn makríls og annarra uppsjávarfiska. Auk fiskirannsóknanna voru umhverfisskilyrði og vistfræði hafsvæðisins kannað."

"Í heild mældust um 2,7 milljónir tonna af makríl á rannsóknarsvæðinu, og þar af 1,1 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða um 42%." 

"Í leiðangrinum var jafnframt könnuð dreifing átu (helsta fæða markílsins), en mestur þéttleiki hennar var vestan við Ísland þar sem makríllinn var jafnframt í mestum þéttleika."

Það reyndist því ekki nóg með að makríllinn, sem Íslendingar mega alls ekki veiða að dómi ESB, haldi sig að stærstum hluta í íslenskri lögsögu heldur hirðir hann mest af fæðu sinni í lífríkinu kringum Ísland á kostnað annarra stofna sem þar er að finna.


mbl.is 42% af makrílnum innan íslensku lögsögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er engin sanngirni í því hvernig ESB ætlar að drottna og ráðskast með eigur íslendinga. Ósanngirni skapar aldrei réttlæti.

Hvað er fólk að hugsa sem vill leyfa ósanngirni að viðgangast? Er þannig fólk sanngjarnt og réttlátt?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.10.2011 kl. 13:37

2 identicon

Já framkoma ESB ríkisins Noregs gagnvart okkur, í makríl málinu, er alveg til skammar!

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 09:48

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Við verðum að veiða eins og hægt er annars klárar makríl stofninn allt æti í kring um landið og það verður hrun á öðrum stofnum s.s. þorsk ofl. Spyrjum samt hvað Jóhanna og Össur vilja gera svona bara til að sjá hvaða hug þau hafa til ESB í þessum efnum.

Valdimar Samúelsson, 8.10.2011 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband