Kapphlaup um hver situr uppi með Svarta Pétur
5.10.2011 | 16:12
Flestir hagfræðingar telja að gjaldþrot Grikkja væri markvissari lausn á vanda þeirra frekar en ennþá meiri lán. Ríkisstjórnir Frakka og Þjóðverja mega þó ekki heyra það nefnt að gríska þrotabúið sé gert upp því að þá lendir skellurinn á þýskum og frönskum bönkum sem eiga um 80% af lánunum í grísku skuldasúpunni. Það eru sem sagt Frakkar og Þjóðverjar sem helst dingla í snöru grískra skulda.
Sú mikla fjársöfnun sem nú fer fram í evruríkjum og tekin verður að mestu úr vasa skattgreiðenda þessara ríkja á komandi árum, mun á pappírnum millilenda í Grikklandi og hjá öðrum skuldugum evruríkjum. En síðan liggur leið þessa fjármagns inn á reikninga þýskra og franskra banka til að bjarga þeim frá þroti. Kreppan á evrusvæðinu snýst því um það hver situr á endanum uppi með Svarta Pétur. Hver og einn reynir að koma honum af sér yfir á einhvern annan og sá sem eftir situr á endanum með Svarta Péturinn er hinn almenni skattgreiðandi á evrusvæðinu.
Á tímaskeiði bankabólunnar miklu kepptust stórbankar Evrópu um að taka lán og veita lán með öllum tiltækum ráðum og í sem allra stærstum stíl til að græða sem mest, rétt eins og hér á Íslandi. Fasteignabólan og hlutabréfabólan gleypti gífurlegt fjármagn sem engin innistæða var fyrir. Þegar svo hrunið kemur er bæði sanngjarnt og rökrétt í því loftbóluhagkerfi sem við lifum í að stór hluti þessa fjármagns sé afskrifað og verði að engu, enda varð það til úr engu.
En leiðtogar ESB og evrusvæðisins undir forystu Þjóðverja og Frakka reyna að þvinga það fram að verstu bólubankarnir í löndum þeirra með villtustu lánveitingarnar sleppi að mestu skaðlausir út úr hruninu. Það er gamla lausnin: að láta skattgreiðendur borga brúsann eða með öðrum orðum: að þjóðnýta tapið. Það var löngum kallað kapítalismi þess sem í neðra býr.
Við Íslendingar áttum þess kost vegna þess að við vorum ekki undir oki ESB að velja allt aðra leið. Með neyðarlögunum fóru bankarnir í þrot, þúsundir milljarða erlendra lána frá bóluárunum þurrkuðust út og við gátum hafið endurreisnina á nýjum grunni. Margt er þó enn ógert og þ.ám. að leysa úr skuldavanda heimilanna. Auðvitað ætti það að vera auðveldara núna þegar mestu vandræðin frá bólutímabilinu hafa verið gerð upp. En það er önnur saga.
Ragnar Arnalds
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.