Ólafur ritstjóri ráðleggur Össuri hvernig slá megi af kröfum Alþingis

Ólafur Stephensen ritstjóri lýsir þungum áhyggjum sínum af því að Íslendingar geri of miklar kröfur í samningaviðræðum við ESB. Í leiðara Fréttablaðsins 15. sept. ráðleggur hann Össuri að koma sér undan sem flestum skilyrðum sem meiri hluti Alþingis setti fyrir aðild þegar umsóknin var samþykkt. Hann skrifar m.a:

 

„Stjórnmálamenn, jafnvel þeir sem vilja gjarnan ná aðildarsamningi við ESB, hafa hins vegar stuðlað að óraunhæfum væntingum um hvað kynni að koma út úr aðildarviðræðum með því að halda á lofti hugmyndum um alls konar óraunhæfar kröfur, sem litlar líkur eru á að hægt sé að rökstyðja...“

 

Ritstjórinn leggur áherslu á að gera sem fæstar kröfur. Hann mælir t.d. mjög á móti því: „að banni við fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi verði viðhaldið“.

 

Bann við meirihlutaeign útlendinga hefur verið í gildi um áratugi og meðal annars tryggt að erlend auðfélög og matvælakeðjur slyppu ekki bakdyramegin inn í íslenskan sjávarútveg því að löngum hafa íslensk útgerðarfyrirtæki verið skuldum vafin og freistingin ávallt mikil í erfiðu árferði að selja erlendum auðfélögum veiðiheimildir við Íslands strendur. Því að þannig gæti rétturinn til fiskveiða við landið auðveldlega safnast jafnt og þétt á hendur erlendum stórfyrirtækjum sem flyttu síðan arðinn óunnin úr landi. Ísland gæti sem sagt á krepputímum breyst í kvótalítið eða kvótalaust laust sjávarþorp, eins og margoft hefur verið bent á.

 

Ólafur leggur hins vegar áherslu á aðra hlið málsins sem gæti orðið hentug skiptimynt að hans dómi í samningum um framsal á forræði Íslendinga yfir sjávarauðlindunum:

 

„Í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá því í fyrra kemur þannig skýrt fram að semja þurfi við Ísland um brottkastreglur. Þar er sömuleiðis viðurkennt að aðild Íslands að ESB muni hafa mikil áhrif á sjávarútvegsstefnu sambandsins og fyrirliggjandi hugmyndir um endurskoðun hennar færi hana nær íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Á þessum nótum ætti að vera hægt að ná viðunandi samningum við Evrópusambandið um sjávarútveg; að búa til lausnir fyrir Ísland innan sjávarútvegsstefnunnar fremur en að sækjast eftir varanlegum undanþágum.“

 

Vafalaust þakkar Össur ritstjóranum fyrir þessar stórmerkilegu ábendingar, enda alþekkt að fáir styðja ESB-aðild jafn afdráttarlaust og einmitt Ólafur ritstjóri. Sjálfur er Össur einmitt önnum kafinn við að búa til sýndartillögur og gervilausnir sem flagga mætti sem stórsigri fyrir íslenskan sjávarútveg í aðildarsamningi við ESB, a.m.k. á ytra borði. Spurning er þó hvort Össur hefur nokkru sinni haft ímyndunarafl til að láta sér detta í hug jafn lítilþægar lausnir og Ólafur stingur upp á í leiðara sínum, þ.e. að Íslendingar fengju þá einu varanlegu undanþágu að mega áfram banna brottkast á fiski, meðan útgerðarmenn ESB-ríkja þráast við og henda enn um sinn stórum hluta aflans fyrir borð með alkunnum og skelfilegum afleiðingum fyrir fiskistofna ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Nýr tónn í uppgjafarstef esb-sinna! Kíkti ritstjórinn loksins í pakkann?

Það þarf ákveðinn kjark til að játa glámskyggni sína, segja frá rýru og dýru innihaldinu og ganga af esb-trúnni. En þeir munu ösla áfram með þvingað bros og reyna láta á engu bera.

Frekar en að segja satt skal útvatna fagurgalann og draga úr væntingum. Þá er kannski von að hægt sé að telja einhverjum trú um að esb-aðild sé ekki svo galin.

Haraldur Hansson, 16.9.2011 kl. 17:05

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fyrir mér kemur bara eitt upp í hugan við þennan lestur og það er LANDRÁÐ

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.9.2011 kl. 21:47

3 identicon

Ásthildur ég fékk alveg sömu tilfinningu fyrir þessu, það ætti að vera saknæmt að hvetja til landráða með þessum hætti og það er spurning hvort fjölmiðlögin þyrftu ekki að banna svona óvönduð dagblöð með óvandaða ritsjtóra sem setja slíkt frá sér.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 08:25

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ef við byggjum í lýðræðisþjóðfélagi, þá hefði landsdómur næg verkefni framundan, þegar farið verður ofan í saumana á gjörðum forystumanna Samfylkingarinnar og nokkurra Vinstri grænna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.9.2011 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband