Össur og Frattini: Saman á eldfjalli
9.9.2011 | 16:50
Hér hefur verið í heimsókn Franco Frattini utanríkisráðherra Ítalíu. Í tilkynningu Össurar um fund þeirra kemur fram að sá ítalski styðji eindregið umsókn Íslands um aðild að ESB og býðst til milligöngu ef í ljós komi að viðræður þar að lútandi gangi erfiðlega. Ekkert kemur fram um mat íslenska utanríkisráðherrans á stöðu viðræðna um þessar mundir.
Hinsvegar bauð Frattini Íslendingum til samstarfs um rannsóknir á eldfjöllum og eldfjallaösku sem séu sá þáttur sem helst sameini löndin. Þetta eru auðvitað mikil tíðindi, ekki síst í ljósi þess að það er mat sérfróðra að mesta sprengiefnið innan Evrusvæðinu sé nú að finna á Ítalíu undir stjórn Silvio Berlusconis.
Frattini fullvissaði Össur um að aðgerðir ítölsku ríkisstjórnarinnar til að ná niður gífurlegum fjárlagahalla muni styrkja Evruna. Ekki virðist tímaritið The Economist (3.-9. sept.) trúað á þær björgunaraðgerðir, því að í vikunni segir það Ítala vera að eyðileggja björgunarbátinn (Trashing the lifeboat) með undanbrögðum og svikum á marggefnum loforðum um að ná niður fjárlagahalla. Í fyrirliggjandi neyðarfjárlögum sé gat upp á amk 4-5 milljarða Evra og enn séu stjórnvöld á flótta gagnvart þingi og almenningi þannig að hvergi sjái til lands.
Evrópski seðlabankinn sem hefur undanfarið verið að kaupa ítölsk ríkisskuldabréf til stuðnings evrunni og vaxtakjörum Ítala sé sérstaklega áhyggjufullur vegna framhaldsins. Það er því ekki ónýtt fyrir Frattini að geta fært Berlusconi þær fréttir eftir heimsókn á Íslandi að Össur starfsbróðir hans hafi fallist á að veita Ítölum ráð um hvernig komast megi úr öskunni í eldinn. Er reynslan frá gosinu í Eyjafjallajökli sérstaklega nefnd í því samhengi.
Hjörleifur Guttormsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.