Sósíalismi andskotans er átakapunkturinn á evrusvæðinu
5.9.2011 | 16:14
Einn helsti lærifaðir íslenskra krata kallaði það sósíalisma andskotans þegar ríkið þjóðnýtir tap en afhendir gróðann einstaklingum. Helsta átakamálið á evrusvæðinu er af þessum toga: Eiga evruríkin að taka sameiginlega ábyrgð á skuldum sem seinustu árin hafa aukist mjög vegna þess að þau voru þvinguð af ESB til að ganga í veð fyrir gjaldþrota einkabanka.
Þetta sluppum við Íslendingar einmitt við þegar okkar bankar urðu gjaldþrota. Við komust hjá því að taka gífurlega há lán, margar þúsundir milljarða, til bjargar einkabönkum vegna þess að við vorum ekki í ESB og okkur stóð því ekki til boða að reyna að bjarga bönkunum. Fyrir það lán í óláni getum við verið ævinlega þakklát.
Það var Vilmundur Jónsson, landlæknir, afi Vilmundar og Þorvaldar Gylfasona, sem var upphafsmaður þess orðfæris að kalla það sósíalisma andskotans" í háði þegar stjórnvöld láta skattgreiðendur greiða tap gróðamanna. Á ensku er til svipað hugtak lemon socialism - sítrónu sósíalismi". Hér á landi tölum við líka í hálfkæringi um pilsfaldakapítalisma, en það er skv. Wikipedia: sá kapitalismi sem starfar alfarið undir merkjum markaðarins þegar vel árar, og er að mestu á móti öllum ríkisútgjöldum, en vill svo skyndilega að ríkið komi hlaupandi og hjálpi þegar illa árar. Slíkur kapítalismi er ekki samkvæmur sjálfum sér, samkvæmt þeim sem taka sér hugtakið í munn. Pilsfaldakapítalisminn er kenndur við pilsfaldinn vegna þess að börn leita oft í skjól móður sinnar þegar eitthvað kemur upp á, og þannig er eins og þeir kapítalistar sæki í skjól ríkisins þegar það hentar þeim."
Reyndar má rekja umræður um þess háttar þjóðfélagsmein a.m.k. 180 ár aftur í tímann þegar einkavæðing gróðans og þjóðnýting tapsins var nefnd sósíalismi fyrir þá ríku og kapitalismi fyrir þá fátæku."
Hvort sem lesendur kjósa að tala um sósíalisma andskotans" eða pilsfaldakapitalisma" er ljóst að bæði þessi hugtök falla eins og flís við rass að þeim þvingunaraðgerðum sem ESB hefur nú uppi gagnvart smærri aðildarríkjum evrusvæðisins, Írlandi, Portúgal og Grikklandi, og felast í miklum lántökum ríkissjóða þessara landa í því skyni að koma í veg fyrir að evran hrynji. En raunar er tilgangurinn ekki síður sá að auðugustu einkabankar Þýskalands og Frakkland sem lánuðu bankakerfi þessara ríkja feikilegar fjárhæðir verði ekki fyrir miklum skakkaföllum. - RA
Athugasemdir
Hvað er ESB.
Hálf miljón blaðsíður af regluverki, og 125 þúsund eftirlitsmenn. Margir þessara 125 þúsund starfsmanna ESB, eru á skattfrjálsum launum, og með lífeyrissjóði sína staðsetta í skattaskjólum.
Síðastliðin 13 ár hefur ESB ekki getað lagt fram endurskoðaða ársreykninga,undirritaða af löggiltum endurskoðendum
Þetta er greinilega stækkuð sviðsmynd úr Animal Farm.
Er einhver hissa á því, að samfylkingar fólk vilji komast í ESB.
Jón Ólafs (IP-tala skráð) 5.9.2011 kl. 18:15
Vel orðað Evrópusambandið hefur beytt þessari aðferð við útþennslu sína sem betur fer heppnaðist það ekki fullkomlega hér
Örn Ægir (IP-tala skráð) 5.9.2011 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.