Ef allir bera ábyrgð á skuldum allra ber enginn ábyrgð

Þannig útskýrir Hans-Olaf Henkel, fyrrum forseti Samtaka iðnaðarins í Þýskalandi, endurmat sitt á evrunni. Hann segir það mestu mistökin á sínum ferli að hafa stutt gjaldmiðlasamstarfið um evruna. Grein hans birtist í í Financial Times í seinustu viku og hefur vakið mikla athygli.

 

Úr þessu verður evrunni ekki bjargað, segir Henkel. Ríki eins og Svíþjóð og Bretland, sem standa utan evru-samstarfsins, láta sér ekki til hugar koma að ganga inn í gjaldmiðlasamstarfið. Rúmenía er á hinn bóginn vís með að vilja inngöngu enda landlægur áhugi þar að komast undan ábyrgð á skuldbindingum.

 

,,Sameiginleg ábyrgð fjármálaskuldbindinga felur í sér að enginn ber ábyrgð," skrifar Henkel. Tillaga hans er að Þýskaland ásamt Finnlandi, Austurríki og Hollandi kljúfi sig úr evru-samstarfinu og myndi nýjan gjaldmiðil. Suður-Evrópuríkin sætu uppi með evruna sem myndi gjaldfalla og skapa forsendur fyrir betri samkeppnishæfni.

 

Henkel segir að grunnhugmyndin um evruna sé röng, þ.e. að einn gjaldmiðill geti hentað mörgum ólíkum efnahagskerfum. Grein hans er til marks um þá miklu þreytu meðal Þjóðverja á evrusamstarfinu sem nú verður æ meira vart við. Þeir hika mjög við að taka á sig ábyrgð á skuldum evru-ríkjanna í meira mæli en orðið er og ánægja þeirra með gjaldmiðillinn fer síminnkandi.

 

Að undanförnu hafa mikilvægar stofnanir í Þýskalandi, forsetaembætti og seðlabanki landsins, varað við yfirtöku skulda óreiðuríkja í Suður-Evrópu. Ýmsir fullyrða að björgunarpakkarnir til Grikklands gangi í berhögg við þýsku stjórnarskrána og nú er beðið eftir því að þýski stjórnlagadómstóllinn úrskurði í því máli. Dóms er að vænta n.k. miðvikudag, 7. september.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband