Húsfreyjan lætur geðvonskuna bitna á kallinum og krökkunum

Frú Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gaf landsmönnum smá innsýn inn í heimilislíf á stjórnarheimilinu í hádegisfréttum í gær þegar hún lýsti vanþóknun sinni yfir pólitískum ályktunum flokksráðs VG og tók samstarfsflokk sinn til bæna. Síðar sama dag lýsti forsætisráðherra vanþóknun yfir þeim sem ekki kynnu að fagna erlendu auðmagni.

 

Vitaskuld vék forsætisráðherra ekki að skoðanaágreiningi í ESB málum og einhverjum þykir því kannski óþarfi að gera þetta hefðbundna pólitíska sjónarspil að umræðuefni á vef sem beinlínis er haldið úti af andstæðingum ESB aðilar Íslands og til baráttu á þeim vettvangi.

 

En eins og oft í pólitík þá sætir hér meiri tíðindum það sem ekki er sagt heldur en það sem sagt er. Einmitt það að forsætisráðherra og samstarfsráðherrar hennar úr Samfylkingu veitast nú að ráðherrum VG fyrir ýmsar smálegar sakir er okkar gamalkunna Albaníuaðferð, þekkt jafnt úr heimspólitík sem fjölskyldulífi.

 

Fyrir þá sem fyrir aldurs sakir muna ekki söguna aftur til Albaníu Envers Hoxha þá dregur hugtak þetta nafn af þeim sið Sovétmanna að ausa smáríkið Albaníu skömmum þegar þeir vildu koma á framfæri vanþóknun sinni yfir verkum og afstöðu Maós í Kína. Balkanlandið Albanía var á þeim tíma bandalagsland Kína.

 

ESB - Albanía Jóhönnu er ályktun VG um Líbíustríðið og síðan varfærni innanríkisráðherra vegna mögulegra kaupa Kínverja á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvorugt þessara mála truflar í reynd stjórnarsamstarfið þó að þau séu grafalvarleg fyrir mörgum vinstri mönnum. Með Líbíustríðinu gerðist Ísland öðru sinni þátttakandi í stríðsrekstri.

 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsætisráðherra gengur hart fram gegn samstarfsflokki sínum en frægt var þegar Jóhanna kallaði þingmenn VG villiketti og margir telja að þar með hafi hún átt upptökin að þeim leik sem að lokum hrakti þrjá þingmenn út úr þingflokki VG.

 

Það má vel vera að einhverjum í forystu VG hafi gramist að sjá ályktun flokksráðs um Lýbíu en hún kom úr grasrót flokksins. Ef til vill er ferill þess máls innan ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar eitthvað göróttur. En ummæli Jóhönnu um ályktun VG eru síst til þess fallin að svæfa málið.

Fyrir okkur sem horfum á utan að frá er umhugsunarvert hvers vegna Jóhanna kaus að hirta samstarfsflokkinn að þessu tilefni og hvort ekki sé líklegra að húsfreyjan á stjórnarheimilinu hafi látið geðvonsku sína bitna á kallinum og krökkunum en í rauninni sé þar að brjótast út pirringur hennar og samflokksmanna hennar yfir því hvernig Samfylkingin hefur smám saman verið að einangrast í ESB-málinu og andstaðan við aðild aukist jafnt og þétt. - Z


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband