Ásmundur: Vaxandi spenna milli ráðuneyta Össurar og Jóns Bjarnasonar

„Því hefur verið haldið fram af Samfylkingunni að mikilvægt sé að sækja um aðild að ESB til að sjá hvað sé í boði. Nú er staðreyndin að koma í ljós og auðvitað er ekkert í boði nema regluverk ESB og umsóknarferlið tekur mið af því, segir Ásmundur Einar Daðason í grein í Morgunblaðinu. Hann yfirgaf VG í vor og gekk þá í Framsóknarflokkinn.

„Hluti af þessu umsóknarferli eru svokölluð opnunar- og lokunarskilyrði en þau fela í sér að ESB gerir kröfur til aðlögunar bæði áður en einstakir kaflar eru opnaðir og þeim lokað. Í Króatíu (Króatía er í aðlögunarferli líkt og Ísland) verður t.d. styrkjakerfi ESB í landbúnaði að virka 100% áður en samningskaflanum er lokað og ekkert er í boði nema regluverk ESB.

Mikil og vaxandi spenna hefur verið undanfarið milli utanríkisráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins vegna þeirrar staðreyndar að landbúnaðarráðherra vill fylgja stefnu Vinstri grænna og þingsályktun Alþingis sem segir skýrt að ekki skuli fara fram aðlögun fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra vill hins vegar hefja aðlögun að kröfum ESB og streitist á móti því að samningsskilyrði verði mótuð enda liggur ljóst fyrir að allar þær undanþágur sem talað hefur verið um voru í besta falli fjarstæðukenndur draumur. Ef ferlið á ekki að sigla í strand þá verður að hefjast aðlögun.

Margir reyna að halda uppi málefnalegri umræðu um þessar staðreyndir og Bændasamtök Íslands eru í þeim hópi. Þau hafa óskað eftir aðkomu að því að móta samningsskilyrði Íslands og sett fram varnarlínur sem byggja á mikilli vinnu við að fara yfir allt sem snýr að landbúnaðarumhverfi ESB. Ef slík samningsskilyrði eru ekki sett þá séum við að ógna innlendri matvælaframleiðslu og þar með fæðuöryggi, íslenskir búfjárstofnar yrðu í hættu og ESB-aðild án skilyrða myndi einnig fara mjög illa með dreifðari byggðir landsins.

Svarið við þessari málefnalegu nálgun hefur því miður verið að leita allra leiða til að rýra trúverðugleika íslensks landbúnaðar og neita öllu samráði eða samstarfi. Lögð er mikil vinna í að búa til fréttir þess efnis að kjötskortur sé í landinu og að þeir sem starfi við matvælaframleiðslu séu ógn við íslenskt samfélag. Ekkert er til sparað í þessum leiðangri, fjölbreytt áróðurstæki notuð, fjármagn frá gömlum útrásarvíkingum gegnum innlenda fjölmiðla og ótakmarkaðir styrkir frá Brussel. Í framhaldinu á væntanlega að draga upp fagra mynd af gjörspilltu styrkjakerfi ESB í landbúnaðarmálum sem töfralausn á þessum tilbúna vanda.

Í þessum málum helgar tilgangurinn meðalið og leigupennar Samfylkingarinnar eru strax kallaðir til, þar eru félagarnir Gylfi Arnbjörnsson og Þórólfur Matthíasson í broddi fylkingar. Þeir voru fengnir til að spá heimsendi ef Icesave yrði hafnað, þeir börðust af krafti gegn leiðréttingu á skuldum heimilanna, þeir vilja alls ekki að verðtryggingin verði afnumin og nú beita þeir sér af krafti fyrir því að rýra trúverðugleika innlendrar matvælaframleiðslu vegna ESB-vegferðarinnar. Þessir og fleiri leigupennar virðast alltaf vera til staðar þegar nauðsynlegt er að verja vondan málstað. Þjóðin lætur hinsvegar ekki segjast og skoðanakannanir sýna að Íslendingar taka málefnalega umræðu fram yfir pólitískan áróður ættaðan frá ESB. Það er vonandi að svo verði áfram."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband