Skrautlegur pakki - en innihaldið ekkert

Dönsk kona boðar okkur fagnaðarerindið í Fréttablaðinu í morgun, mánudag. Hún segir að þar sem Íslendingar eigi nú von í miklum styrkjum frá ESB til byggðamála sé gott að huga strax að því hvernig heppilegast sé að útdeila þessu fé. Best sé að sérstök ráð, skipuð fulltrúum bænda, menntastofnana og bæjarstjórna í hverju héraði, skipti þessu fé.

 

Þetta hljómar auðvitað fjarskalega freistandi. Susanne Kirkegaard, sérfræðingur í atvinnu- og byggðastefnu ESB, sem hér var á ferð fyrir skömmu og „lagði til ráð í aðildarviðræðunum“ eins og komist er að orði í fréttinni, lét þess þó ekki getið að fé til byggðamál frá ESB myndi í raun réttri koma frá íslenskum skattgreiðendum. Við ESB-aðild neyðist íslenska ríkið til að greiða árlega mjög háan skatt til ESB, sennilega um 15 milljarða króna árlega og nokkur hluti af þessu íslenska skattfé kemur sem sagt til baka í formi byggðastyrkja eftir að hafa fyrst verið sent til Brussel.

 

Ljóst er að skriffinnskan í ESB er Súsönnu Kirkegaard nokkurt áhyggjuefni því að hún veltir einmitt upp þeirri spurningu: „Hvort peningarnir fari bara ekki allir í breytingar í stjórnsýslu frekar en verkefnin.“ Hún spyr sig hins vegar ekki hvort hitt væri ekki miklu einfaldara, ef íslenska ríkið vill verja auknu fjármagn til byggðamála, að byggðaþróunarfélög og Byggðastofnun útdeildu því fé. Að sjálfsögðu finnst henni hitt miklu flottara að peningarnir séu fluttir til Brussel og síðan sendir aftur heim í heiðadalinn svo að unnt sé að útdeila þeim þar með pomp og prakt og hæfilegri viðhöfn sem byggðastyrkjum með ástarkveðju frá ESB.

 

Þetta er sem sagt ein af þessum dæmigerðu gervilausnum sem þeir ESB-menn eru svo frægir fyrir. Össur á eftir að draga margar slíkar „sérlausnir fyrir Ísland“ upp úr hatti sínum þegar þar að kemur, að sjálfsögðu í afar skrautlegum umbúðum - en því miður með engu raunverulegu innihaldi. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband