Krugman nóbelshafi spáir því að nokkur aðildarríki yfirgefi evrusvæðið
20.8.2011 | 19:40
Búast má við að heimskreppan standi í tíu ár, segir Paul Krugman, prófessor í hagfræði. Hann telur að sumar þjóðir muni yfirgefa evrusamstarfið á næstu árum.
Hlutabréfaverð hefur hríðfallið í vikunni og ljóst að fjárfestar eru hræddir um áframhaldandi sveiflur á mörkuðum. Gullverð hefur náð nýjum hæðum sem er vísbending um það að fólk reynir nú að koma peningum í öruggt skjól. Spurningin er hvort önnur heimskreppa sé á leiðinni. Paul Krugman, prófessor í hagfræði við Princetonháskóla í Bandaríkjunum og dálkahöfundur dagblaðsins New York Times, segir að enn séum við að glíma við afleiðingar hrunsins frá 2008..... Gallinn við evruna, segir Krugman, er að ríkin sem standi að henni séu ekki nægilega samrýmd. Þau fari ólíkar leiðir í ríkisfjármálum og hagur þeirra sé afar misjafn. Hann býst þó við að kjarni evruríkjanna haldi samstarfinu áfram.
En líkurnar á því að Grikkland og nokkur lönd til viðbótar segi sig úr evrusamstarfinu eru allnokkrar, segir Paul Krugman.
Þetta er orðrétt skráð úr kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. En æðstu prestar ESB-trúboðsins á Íslandi með efnahagsráðherrann, Árna Pál, í fararbroddi, láta eins og ekkert sé. Evran er ljósið í fjarska sem leysa mun allan vanda.
Ný skoðanakönnun i Þýskalandi bendir til þess að þrír fjórðu þýskra kjósenda hafi enga eða litla trú á að Angela Merkel geti tekist á við evruvandann. Könnun í Frakklandi bendir til að Sarkozy njóti trausts aðeins 33% kjósenda. Fjárfestar selja nú hlutabréf í gríð og erg og margt bendir til þess, að fjármálakreppan á evrusvæðinu sé ekki að leysast heldur fari stöðugt vaxandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.