ESB ber fé í dóminn: 230 milljónir í áróður!
19.8.2011 | 18:23
Eftirlætisröksemd ESB-sinna er að ljúka verði aðildarferlinu svo að unnt sé að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Vandi þeirra er hins vegar sá að allar kannanir undanfarin tvö ár hafa sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í ESB.
Og hvað er þá til ráða? Svo er að sjá að Össur utanríkisráðherra hafi náð einkar athyglisverðum árangri, hvað þetta varðar, í viðræðum sínum við forystumenn ESB, hvað sem öðru líður. Ákveðið hefur verið að verja úr sjóðum Evrópusambandsins 230 milljónum króna hér á landi til að kynna ESB fyrir Íslendingum".
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Það krefst mikils undirbúnings og aðstoðar færustu manna, erlendra sem innlendra, að koma þjóðinni í skilning um með nógu kraftmikilli kynningarstarfsemi að vondur samningur sé þrátt fyrir allt góður samningur. Forystumenn ESB hafa oft áður glímt við þjóðir sem tregar eru til inngöngu og áróðursmeistarar þeirra hafa þróað ýmsar aðferðir til að breyta skoðunum kjósenda í aðdraganda þjóðaratkvæðis. Þeir kæra sig ekki um að vera dregnir á asnaeyrunum í margra ára viðræðum til þess eins að fá svo framan í sig þann löðrung að þjóð segi nei og allt þeirra erfiði verði unnið fyrir gíg.
Þess vegna hefur þýska fyrirtækinu Media Consulta verið falið í samvinnu við almannatengslafyrirtækið Athygli að kynna"Evrópusambandið fyrir Íslendingum. Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu 11. ágúst s.l. er samningurinn til tveggja ára og greiðir ESB alls 1,4 milljónir evra fyrir kynninguna eða 230 milljónir króna.
Í vefkynningu MediaConsulta er frá því sagt að kjarninn í kynningarherferðum sé ákveðinn í Berlín en helsti kostur fyrirtækisins sé að innan þess geti menn lagað þessar herferðir að geðslagi, skipulagi, menningu og lögum hverrar þjóðar allt frá því að fyrstu drög að herferðum séu samin. Fyrirtækið geti sniðið efni sem menn vilji kynna að aðstæðum í hverju landi á einfaldasta, áhrifaríkasta og hagkvæmasta hátt."
Þetta eru einmitt þau lýðræðislegu" vinnubrögð sem ESB-sinnar hafa í huga þegar þeir minna á það sí og æ að ljúka verði samningum svo unnt sé að leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar". Fyrr á öldum höfðu menn þá siðferðiskennd að fordæma þann verknað þegar auðmenn tryggðu sér hagfellda niðurstöðu með því að bera fé í dóminn". Nú er ekki ætlunin að bera" fé í dóminn; nær lagi væri að segja að mokað verði í dóminn hundruðum milljóna króna erlendis frá.
Lýðræðislegt? Ekki satt?
Ragnar Arnalds
Athugasemdir
Jú einkar áhugavert og skyldi þessi "kynning" nú verða hlutlaus og allt upp á borðinu?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.8.2011 kl. 14:56
Athyglisvert eftirfarandi
GERÐUR AÐ VIÐSKIPTARÁÐHERRA Í ESB STJÓRN JÓHöNNU SIGURÐARDÓTTUR EFTIR AÐ HAFA STJÓRNAÐ ÁHLAUPI Á BANKAKERFIÐ Spámaður í föðurlandi
Velferðarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir valdi sem viðskiptaráðherra fyrst í stað Gylfa Magnússon kennara við Háskóla Íslands. Það var að vonum þar sem hann hafði með góðum árangri stjórnað áhlaupi á bankakerfi landsins í október 2008. Í framhaldi af því fór Gylfi mikinn á útifundum Harðar Torfasonar og hafði ráð undir rifi hverju og sá allt fyrir.
Í apríl 2009 kom Gylfi fyrir viðskiptanefnd Alþingis en neðangreint er úr frétt Viðskiptablaðsins af þeim fundi þ.2.4.2009:
"Nú sér loks fyrir endann ná því hrunsferli sem hófst í október 2008. Við höfum nokkra skýra mynd af því sem þarf að gera til að hér verði heilbrigt fjármálakerfi með þokkalega rekstrarstöðu,“ sagði Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á opnum fundi viðskiptanefndar sem nú stendur yfir.
Jón Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir fundinum til að ræða viðbrögð stjórnvalda við erfiðleikum á fjármálamarkaði síðustu vikur m.a. um aðgerðir stjórnvalda gagnvart smærri fjármálafyrirtækjum og beitingu neyðarlaga gagnvart Straumi, SPRON og Sparisjóðabankanum, fjárhagslega fyrirgreiðslu til VBS og Saga Capital og fyrirheit um stuðning við nokkra sparisjóði."
Frá því að Gylfi sá fyrir endan á hrunsferlinu hafa 8 fjármálafyrirtæki fallið.
Örn Ægir (IP-tala skráð) 20.8.2011 kl. 16:41
Össur og félagar róa nú lífróður til Brussel þar sem evrópusambandið mun hrynja yfir þá. Eftir stendur ðll hjörðin
berstrípuð með landráð á samviskunni, búin að valda ómældu tjóni uppá þúsundir milljarða hjá Íslensku þjóðini,
Örn Ægir (IP-tala skráð) 20.8.2011 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.