Andstaða við ESB-aðild er hvorki einangrunarstefna né útlendingahatur eins og sumir í hópi ESB-sinna reyna að telja fólki trú um. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að eiga sem best samstarf við sem flestar þjóðir. En innlimun í nýtt stórríki þar sem voldugustu ríki álfunnar ráða lögum og lofum er einfaldlega afturhvarf til þess tíma þegar Íslendingar voru undir erlendri stjórn.
Íslendingar hafa vafalaust fæstir neitt á móti því að nokkrar voldugustu þjóðir Evrópu efli samstarf sitt á sem flestum sviðum eftir að tvær heimsstyrjaldir hafa átt upptök sín í álfunni. En fyrir löngu er orðið ljóst að Evrópusambandið er ekki nein venjuleg samvinna þjóða í milli. Á undanförnum áratugum hefur ESB fengið öll helstu einkenni rísandi stórríkis sem stjórnað er af forseta og ríkisstjórn, þingi og æðsta dómstóli, hefur sameiginlega utanríkisstefnu og fiskveiðilögsögu, sameiginlegt landamæraeftirlit fyrir a.m.k. meiri hluta aðildarríkjanna, stjórnarskrá, fána og þjóðsöng og er að reyna að koma upp sameiginlegum gjaldmiðli.
Íslendingar og Norðmenn hafa hingað til talið að hagsmunum sínum væri betur borgið utan ESB. Báðar þjóðirnar þekkja það vel úr sögu sinni hvaða afleiðingar það hafði að lúta erlendri stjórn og báðar þjóðirnar telja gæfulegra að glata ekki stjórn eigin mála á ný í hendur erlendra embættis- og stjórnmálamanna.
ESB er ekki orðið það stórríki sem að er stefnt. En einmitt þessa dagana er þó verið að stíga enn eitt skrefið í þá átt. Á fundi Angelu Merkel og Nicholas Sarkozy nú í vikunni ákváðu kanslarinn og forsetinn (án þess að á þeim fundi væru fulltrúar annarra ríkja) að koma á sameiginlegri efnahagsstjórn evruríkja, eins konar ríkisfjármálabandalagi með samræmdri skattastefnu. Styrmir Gunnarsson lýsir þessum áformum ágætlega á Evrópuvaktinni og þá einkum hvað í því fælist fyrir okkur Íslendinga ef við gengjum í ESB:
"Í þessu felst, ef Ísland gengur í Evrópusambandið, að efnahagsmálum Íslendinga, fjármálum íslenzka ríkisins, skattastefnu íslenzka ríkisins (og sveitarfélaga) verður ekki stjórnað af fólki, sem til þess er kjörið í lýðræðislegum kosningum á Íslandi til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum, heldur fólki í Berlín og París, sem sækja umboð sitt til kjósenda í Þýzkalandi og Frakklandi og til embættismanna í Brussel, sem hafa ekkert umboð frá Íslendingum.
Þessi stefnuyfirlýsing ein frá forystumönnum þeirra tveggja ríkja sem ráða ferðinni í Evrópusambandinu ætti að duga til þess að Alþingi yrði kallað saman til fundar þegar í stað til þess að taka afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu, hvort meirihluti er fyrir því í þinginu að halda áfram á þeirri vegferð, sem hafin var i júlí 2009.
Yfirlýsing þeirra Merkel og Sarkozy þýðir, að sjálfstæði Ísland er horfið í einu vetfangi. Við munum við slíkar aðstæður ekkert hafa um eigin mál að segja. Okkur yrði stjórnað frá öðrum löndum, eins og reyndar gerðist um aldir. Ísland yrði eins konar útibú frá ESB hér norður í hafi, en að vísu útibú, sem ESB mundi telja mikilvægt vegna þeirra möguleika, sem eru að opnast í norðri."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.