Hrunráðherrann rasandi yfir þróun mála hjá Sjálfstæðisflokki

Það er óneitanlega skoplegt að sjá Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, æsa sig yfir harðnandi andstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins við ESB-aðild.

En það gerir Björgvin í pistli á vefsíðunni Pressunni. Tilefnið er að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti afdráttarlausri andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu í útvarpsviðtali á Bylgjunni 14. ágúst s.l. Hann taldi einnig rangt að eiga aðildarviðræður við ESB eins og málum væri háttað, þeim ætti að hætta tafarlaust.

Samfylkingarmenn hafa gert sér nokkrar vonir um að Bjarni væri ekki eins harður í þessu máli og ýmsir samflokksmenn hans og gæti verið til viðtals um að ljúka viðræðunum við ESB með samningi, jafnvel þótt núverandi stjórnarsamstarf splundraðist. Bjarni tók af allan vafa um að slíkt komi til greina. Hann fullyrti beinlínis að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leiða baráttuna gegn aðildarviðræðum að ESB. Ekki yrði gerð nein málamiðlun í ESB-málinu. Með þeim orðum var hann bersýnilega að senda Samfylkingunni þau skilaboð að í hugsanlegu samstarfi þessara flokka, ef núverandi ríkisstjórn hrykki upp af, yrði engu að síður að afturkalla ESB-umsóknina.

Yfirlýsing Bjarna hefur fyrst og fremst þá pólitísku þýðingu að hún styrkir stöðu þeirra mörgu í VG, bæði í þingflokki og utan hans, sem sætta sig illa við að Samfylkingin hafi VG eins og hund í bandi í þessu örlagaríkasta máli íslenskra stjórnmála. Samfylkingin á engra kosta völ.

Skoplega hliðin á málflutningi Björgvins verður aftur á móti að teljast eftirfarandi fullyrðing hans: „Bjarni formaður er með þessu að einangra Sjálfstæðisflokkinn frá öðrum stjórnmálaöflum."

Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar sem er, eins og allir vita, eini flokkur íslenskra stjórnmála sem heilshugar styður umsókn Íslands um aðild að ESB.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Bjarni Ben er þegar búinn að einangra sig frá okkur Flokksmönnum...

Vilhjálmur Stefánsson, 14.8.2011 kl. 21:54

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Með þessari skynsamlegu ákvörðun er Bjarni Benediktsson að reyna að rjúfa einangrunina sem hann kom sér í með því að styðja síðustu útgáfu af Æsseif. Þetta skref ætti líka að losa Steingrím J. Sigfússon við versta þrælsóttann. Ef Bjarni hefði betur tekið þessa stefnu fyrr, því þá hefði verið hægt að komast hjá mörgum afleitum ákvörðunum," fórnarkostnaði", til að halda saman "hreinni og ómengaðri vinstristjórn".

Sigurður Þórðarson, 15.8.2011 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband