Meiri hluti kjósenda VG vill afturkalla ESB-umsókn
8.7.2011 | 10:46
Samkvæmt nýjustu könnun er ljóst að skýr meirihluti kjósenda VG hefur fengið nóg af ESB-brölti Samfylkingarinnar og vill aðaðildarumsókn Íslands sé dregin til baka. Þetta eru stórtíðindi sem litla umfjöllun hafa fengið í fjölmiðlum en vísa þó veginn til þess sem koma skal.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, ritaði grein í Fréttablaðið 2. júlí s.l. og fullyrti þar að "núverandi stefna, að ljúka viðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina, (eigi) miklu fylgi að fagna skv. könnunum". Ef Árni hefði notað orðin "að hætta viðræðum" í staðinn fyrir að "að ljúka viðræðum" væri þetta rétt hjá Árna. Meiri hluti þjóðarinnar telur einsýnt að ESB-aðild samrýmist ekki hagsmunum Íslendinga og stjórnvöld hafi þegar fengið nægan tíma eftir tveggja ára samtöl við ráðamenn í Brussel til að sannfæra landsmenn um hvað í boði sé sem breytt geti þeirri skoðun.
Að sjálfsögðu er löngu tímabært að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu til þessa umdeilda máls og þingið afturkalli síðan umsóknina formlega enda flestum ljóst að Íslendingar hafa næg not fyrir milljarðana sem samningsþófið kostar og brýn þörf er á því fyrir landsmenn að sameinast til átaka í því skyni að endurreisa efnahag þjóðarbúsins frekar en að láta sundra sér meira en orðið er í máli sem meiri hlutinn er bersýnilega á móti.
Það er minni hluti þjóðarinnar sem styður þá skoðun Árna Þórs að réttast sé "að ljúka viðræðum" en í því felst samkvæmt lýsingu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér í fyrra að í lokin verði gerður formlegur aðildarsamningur um inngöngu Íslands í ESB, "Ísland fær stöðu verðandi aðildarríkis, leiðtogaráð ESB samþykkir samninginn einróma og Evrópuþingið veitir samþykki sitt, aðildarsamningurinn er undirritaður af öllum aðildarríkjum ESB og Íslandi, og fullgildingarferli hefst." En að þessu loknu: "Þjóðaratkvæðagreiðsla áÍslandi."
Sem sagt: þegar allt er klappað og klárt og samningurinn hefur verið undirritaður f.h. ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrigrænna, þá loks fær þjóðin tækifæri til að ýta á neyðarhnappinn og fella samninginn í þjóðaratkvæði!
Í skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var16. - 23. júní s.l. kemur skýrt fram að meirihluti fólks í öllum aldurshópum og í öllum stjórnmálaflokkum nema Samfylkingunni vill afturkalla ESB-umsóknina. Kjósendum er skipt upp í sjö skoðanahópa: 1) þá sem eru andvígir því að öllu leyti að draga umsókna til baka, 2) þá sem eru mjög andvígir því, 3) þá sem eru frekar andvígir því, 4) þá sem eru hvorki né, 5) þá sem eru frekar hlynntir því að draga umsóknina til baka, 6) þá sem eru mjög hlynntir því og 7) þá sem eru að öllu leyti hlynntir því.
Athygli vekur að seinast nefndi skoðanahópurinn, þeir sem hafa þá eindregnu og afdráttarlausu skoðun að draga eigi umsóknina til baka, er yfirgnæfandi langstærstur af þessum sjö hópum en þar eru fulltrúar 31% þjóðarinnar. Þeir sem að öllu leyti eru andvígir því að afturkalla umsóknina eru hins vegar aðeins 19%. Ef ekki eru reiknaðir með þeir sem enga afstöðu tóku eru 57% kjósenda að öllu leyti, mjög og frekar hlynnt því að ESB-umsóknin sé dregin til baka en 43% eru að öllu leyti, mjög eða frekar andvíg því.
Ragnar Arnalds
Athugasemdir
Ragnar. Það er alveg ljóst að meiri hluti þjóðarinnar er, og hefur alla tíð verið andvígur aðild að ESB. Og það er að koma betur og betur í ljós, með hverjum deginum sem líður, hvers vegna meirihlutinn er á móti þessum hörmungar-aðildarsamningum.
Það er í rauninni orðið lítið um skiljanleg og réttlætanleg rök fyrir aðild, nú í seinni tíð. Það er einfaldlega erfitt að rökstyðja það að Ísland eigi að borga gífurlegar fjárhæðir fyrir að ganga í ESB-sambandið, með langa halarófu af undanþágu-óskum frá raunveruleikanum í ESB, sem Össur blessaður segir að þurfi hreinlega ekkert að taka með í reikninginn?
Hvers vegna er Ísland að ganga í ESB, þegar íslendingar þurfa nánast undanþágu frá öllu sem tilheyrir þessu blessaða sambandi? Hvað er þá verið að sækja um?
Er eitthvað undarlegt að maður spyrji sig að því, hvers vegna vörur á Íslandi eigi að verða ódýrari með aðild að ESB, en vörur almennt í ESB-löndum eru núna, þrátt fyrir að vera í ESB, jafn dýrar og á Íslandi?
Þetta er frekar flókið dæmi fyrir mér?
Útskýringar óskast af ESB-aðildarsinnum, ásamt öðrum, sem skilja um hvað aðildar-hagnaðurinn raunverulega snýst?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.7.2011 kl. 01:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.