„Lobbyistar" í Brussel taka við lýðræðislegu eftirlitsvaldi fólksins

Það var göfugt hlutverk að vera „lobbyisti" í Kaupmannahöfn á 19. öld. Samband Íslendinga við dönsku stjórnina fór þá einkum fram í gegnum íslenska „lobbyista". Óþreytandi elja Jón Sigurðssonar var gott dæmi um þau störf. Síðan kostaði það langvinnt þref og erfiði og tók Íslendinga heila öld að flytja réttinn til að taka ákvarðanir um hagsmunamál lands og þjóðar heim til Íslands.

Nú stefnir aftur í sama farið. EES samningurinn nær að vísu yfir lítinn hluta af stjórnkerfi ESB, þ.e. einungis svonefndan innri markað ESB en ekki til sjávarútvegs, landbúnaðar, skattamála, velferðarmála, orkumála o.s.frv. Engu að síður sér nú móta fyrir því að Íslendingar lendi í sömu stöðu í samskiptum sínum við stórríkið ESB eins og einkenndi stöðu Íslands á sínum tíma gagnvart yfirboðurum okkar í Kaupmannahöfn. Sérlegir trúnaðarmenn íslenskra hagsmunasamtaka standa vaktina í Brussel og reyna að hafa einhver svolítil áhrif á ákvarðanir embættismanna í háborg ESB valdsins og þá einkum þær sem varða Ísland. Enska orðið „lobby" merkir forsal eða anddyri og „lobbyist"  var upphaflega notað um fulltrúa þrýstihópa sem stóðu í anddyri þinghúsa og reyndu að hafa áhrif á ákvarðanir þingmanna.

Tugþúsundir manna gegna nú því hlutverki að vera „lobbyistar" í Brussel og þar á meðal eru nokkrir Íslendingar sem sinna þessu starfi við flóknar og erfiðar aðstæður. Það er þakkarvert. En hvers vegna þurfa íslensk hagsmunasamtök að ráða sér „lobbyista" í Brussel? Að sjálfsögðu er tilgangurinn ekki sá einn að reka áróður fyrir íslenskum hagsmunamálum heldur ekki síður að fylgjast með hvað sé á seyði hverju sinni.

Íslenskir fjölmiðlar gera þeim málum ágæt skil sem fjallað er um á Alþingi, í ríkisstjórn eða annars staðar þar sem stjórnmál eru til meðferðar. Þau mál eru síðan í umræðu manna á milli, hvarvetna þar sem tveir menn eða fleiri hittast og skiptast á skoðunum, til dæmis á vinnustöðum eða á heimilum, í heitum pottum sundlauganna eða á götuhornum. Þetta er einmitt kjarni og undirstaða lýðræðisins. Hins vegar fjalla fjölmiðlar sjaldan um þau mál sem eru til umræðu í Brussel. Fáir fylgjast með því sem þar er ákveðið og enn síður veit alþýða manna hverjir tóku ákvarðanirnar eða hvers vegna.

Reyndar á þetta ekkert síður við um þær þjóðir sem eru í ESB. Fjarlægðin milli alþýðu manna í aðildarríkjunum og embættismannanna í Brussel er einmitt eitt helsta einkenni Evrópusambandsins. Þátttaka kjósenda í kosningum til ESB-þingsins er víðast hvar aðeins brot af því sem er í kosningum til þjóðþinga aðildarríkjanna. Stjórnkerfi ESB hefur því bersýnilega lamandi áhrif á stjórnmálaáhuga almennings og er í eðli sínu andlýðræðislegt.  Eftirlitsvald fólksins hverfur.

Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna ESB á íslenskum aðstæðum yrði okkur Íslendingum dýrkeypt ef við framseldum fullveldisréttindi okkar til hins verðandi stórríkis. Því að hvort er nú vænlegra til árangurs að ákvarðanir sem varða hagsmuni okkar sjálfra séu teknar hér heima eða þá hitt að útsendir „lobbyistar" og sendimenn sem ráða yfir minna en 1% atkvæðanna reyni að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í Brussel.

Undir þessum tengli á vef Ríkisútvarpsins má heyra „lobbyistann" Jón Sólness lýsa störfum sínum.

Ragnar Arnalds      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir pistilinn.

Hef velt því fyrir mér hvort menn með lundarfar "hins feita þjóns" sem vilja fórna auðlindum þjóðarinnar fyrir þægilega innivinnu í Brussel, líði betur ef við köllum þá evrópuhugsjónamenn?

Líklega er það gustukaverk.

Sigurður Þórðarson, 6.7.2011 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband