Breskt blað: Íslendingar mega þakka fyrir að vera ekki á evrusvæðinu
1.7.2011 | 11:55
Í síðustu viku seldi íslenska ríkið skuldabréf í sérstöku útboði fyrir einn milljarð dollara til erlendra fjárfesta og tókst það með því að greiða þeim aðeins 4,9% vexti", segir í leiðara breska vikublaðsins The Spectator 25. júní s.l. "Þetta er sama ríkið og var þar til fyrir skömmu samnefnari fyrir eitraðar fjárskuldbindingar. Ríkisstjórn landsins neitaði að ábyrgjast skuldir bankanna og neyddi þá þess í stað til erfiðs uppgjörs við kröfuhafa sína. Mesta blessun Íslands var að standa utan evru-svæðisins og eiga því ekki aðgang að neinum lánum. Hefði landið verið í þeirri stöðu hefði ríkið örugglega verið pínt til að nota skattfé almennings til að greiða skuldir bankanna."
Blaðið bætir því við að á Íslandi megi menn þakka sínum sæla fyrir að vera ekki á evru-svæðinu og hafa þar með orðið að ábyrgjast skuldir einkabanka og standa undir greiðslum þeirra með sköttum sínum.
Blaðið lýsir yfir söknuði vegna brotthvarfs drökmunar, gjaldmiðils Grikkja áður en þeir tóku upp evru. Með því að fella hana um allt að 50% við núverandi aðstæður hefðu Grikkir boðið öðrum þjóðum ódýr sumarleyfi og leyst skuldavanda sinn á þann veg að nágrannar þeirra hefðu orðið fyrr lágmarkstjóni. Eins og Rússar 1998 og Argentínumenn 2002 hefðu Grikkir sigrast á sársaukafullum vandræðum sínum á fljótvirkan hátt. Nú sitji þeir hins vegar uppi með þau hörmulegu mistök að hafa tekið upp evruna og búi þess vegna við kreppu, þeir geti hvorki greitt skuldir sínar né fellt gengið til að brjótast út úr vandanum með auknum útflutningi og fjölgun ferðamanna.
Í lok leiðarans er fullyrt að tilraunin með evru-svæðið sé að renna sitt skeið á enda. Þjóðríkið sé komið til sögunnar að nýju. Bretar eigi mikið verk fyrir höndum við að endurheimta þann hluta fullveldis síns sem hefði aldrei átt að færa í hendur annarra.
Heimild: Evrópuvaktin 29.júní - evropuvaktin.is/frettir/19120/
Athugasemdir
Já, er þetta ekki orðið margsannað að við eigum ekkert erindi inn í EB ?? Ég skora á Össur og ríkisstjórnina að hætta við aðildarviðræður og hvet alla þenkjandi Íslendinga til að mótmæla, hver með sínum hætti!!
Guðmundur Júlíusson, 1.7.2011 kl. 18:05
íslenska ríkisstjórnin neitaði ekki að ábyrgjast skuldir bankanna. Ríkisstjórnin var auralaus og gat það ekki. Alþingi veitti þáverandi ríkisstjórn heimild til að taka 500 milljarða að láni til að auka stöðugleika fjármálakerfisins en það vildi enginn lána.
Auk þess lánaði Seðlabankinn fleiri hundruð milljarða og gerði þannig bæði íslensku ríkisstjórnina og skattgreiðendur ábyrga fyrir tapi upp á 200 milljarða króna.
Það er best að hafa staðreyndirnar á hreinu í þessu máli.
Munurinn á evru og krónu er að á evrusvæðinu þá þarf að semja við almenning þegar kjör þess eru skert en hér á Íslandi er gengið einfaldlega fellt. Í báðum tilfellum eru kjör skert en aðeins í öðru tilfellinu er leitað til almennings um að samþykkja það. Fullveldi stjórnmálamanna er mögulega meira hér á landi en lýðræðið greinilega er minna.
Lúðvík Júlíusson, 2.7.2011 kl. 08:39
Hvenær var grískur almenningur spurður?
Einar (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.