Samningaviðræður við ESB á brauðfótum
27.6.2011 | 16:37
Þann 16. júlí næstkomandi verða tvö ár liðin frá einum dapurlegasta degi í sögu Alþingis á lýðveldistímanum þegar naumur meirihluti þingmanna samþykkti ályktun þess efnis að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu, sumir að því er virtist þvert á eigin vilja og samvisku. Þessa dagana eru að hefjast formlegar samningaviðræður en hálft annað ár hefur farið í að undirbúa þær. Landslagið er gjörbreytt frá því sem var fyrir tveimur árum. Meirihluti þjóðarinnar er sem fyrr andvígur aðild að ESB, sé litið á skoðanakannana. Annar stjórnarflokkurinn, VG, er samkvæmt stefnuskrá og margítrekuðum flokkssamþykktum andvígur aðild að ESB og andstaðan við aðild er nú einnig yfirgnæfandi hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Evrópusambandið, sem umsókninni er beint til, er í dýpstu kreppu frá stofnun sinni og algjör óvissa er um hvernig sambandinu tekst að vinna sig út úr vandræðunum. Við þessar aðstæður eru aðildarviðræður af Íslands hálfu út í hött og umsóknina ætti því að draga til baka hið skjótasta. Pólitísk blinda Samfylkingarinnar og ístöðuleysi forystu VG ræður því hins vegar að áfram er haldið og í þennan leiðangur varið ómældum fjárupphæðum, auk gífurlegs álags á íslenska stjórnkerfið.
Framtíð ESB í mikilli óvissu
Evrópusambandið er engin kjörbúð sem umsóknarríki gengur inn í til að moða úr ákvæðum sem felast í samþykktum ESB og þeim grundvelli sem það starfar eftir. Það er því blekking sem stuðningsmenn aðildar halda á lofti að með aðildarviðræðum verði eitthvað nýtt og ófyrirséð leitt í ljós. Svigrúm framkvæmdastjórnar ESB til frávika getur helst varðað gildistökutíma einstakra samningsákvæða, en sé um efnislega þætti að ræða sem varða frávik frá grundvallarreglum þarf til að koma samþykki allra aðildarríkjanna 27 talsins. Þetta fengu Norðmenn ítrekað að reyna í samningaviðræðum við sambandið, m.a. á sjávarútvegssviði. Óvissan er hins vegar mikil þegar kemur að framtíð ESB, þar sem háværar kröfur eru nú uppi um að koma á nýjum samræmdum og bindandi reglum, ekki síst um fjárhagsmálefni aðildarríkja og stíga þannig stór skref til frekari samruna. Úrskurðir dómstóls ESB geta líka hvenær sem er breytt lagagrundvelli sambandsins, eins og ítrekað hefur gerst, m.a. á sviði vinnuréttar samtökum launafólks í óhag. Eðlilegt væri að margir þeir sem töldu rétt að sækja um aðild að ESB fyrir tveimur árum endurskoði afstöðu sína í ljósi breyttra aðstæðna.
Stjórnmálaflokkar hérlendis eiga í vök að verjast gagnvart almenningsálitinu, m.a. vegna þess að orð og efndir eiga oft ekki samleið. VG hefur í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna goldið dýru verði undansláttinn frá stefnu sinni og kosningaloforðum varðandi ESB. Nú reynir á flokkinn fyrir alvöru í komandi samningaviðræðum þar sem ekki verður undan því vikist að taka afstöðu lið fyrir lið. Mótun samningsmarkmiða á einstökum sviðum er pólitískt viðfangsefni sem ekki verður leyst af svonefndri faglegri viðræðunefnd ríkisstjórnarinnar. Þar hljóta stjórnarflokkarnir og einstök ráðuneyti að koma að málum á hverju stigi viðræðna. Jafnframt hefur verið heitið opnu og gagnsæju ferli og reglubundinni upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila. Svigrúm VG til undansláttar frá eigin samþykktum og forskrift utanríkismálanefndar Alþingis er ekki til staðar. Því verður að teljast afar ólíklegt að til verði á næstu árum aðildarsamningur Íslands og ESB.
Aðdragandi þjóðaratkvæðis
Ályktun Alþingis um aðildarumsókn fyrir tveimur árum gerði ráð fyrir „þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.‟ Sumir hafa viljað túlka það svo að niðurstaða samningaviðræðna í formi samnings renni rakleitt í þjóðaratkvæði án frekari milligöngu þingsins. Í athugasemdum með þingsályktuninni frá 16. júlí 2009 segir hins vegar: „Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir ...‟. Jafnframt setti Alþingi með hliðsjón af aðildarumsókninni sérstök lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna (nr. 91/2010). Þau gera ráð fyrir að Alþingi álykti um slík mál hverju sinni og til þess þarf auðvitað meirihlutastuðning við tillögu þar að lútandi. Fari svo að óbreyttu stjórnarsamstarfi að samningur takist milli milli Íslands og Evrópusambandsins kemst VG ekki undan því að bera á honum fulla pólitíska ábyrgð. Hvernig það gæti gerst að óbreyttri stefnu flokksins þess efnis, að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins, er vart á annarra færi en lækna sem þekkja vel til geðklofa að útskýra.
Hjörleifur Guttormsson
Athugasemdir
Hver gæti verið skýringin á því að ESB hefur ekki skilað árituðum ársreikningi af lögg. endursk. síðastliðin 13ár,hvert og eitt einasta ehf á Íslandi hversu lítið sem það er, verður að skila ársreikningi til RSK árlega annars er það sektað, gæti verið að það sé einhver fjármálaóreiða innan ESB.
Jón Ólafs (IP-tala skráð) 27.6.2011 kl. 23:07
Hjörleifur. Takk fyrir góða samantekt. Satt er það, að það þarf ýmsa til að útskýra svona svika-rugl. Afbrotafræðingar, sálfræðingar, og aðrir sem hafa menntað sig í hvernig hótanir, mútur og jafnvel kúganir geta farið með fólk, í valdastöðum, og hvernig þeir fiska þá úr sem auðvelt er að blekkja, múta og ginna. þrátt fyrir allar staðreyndir sem liggja fyrir.
Tilvonandi ESB-AGS-stórveldið leyfa sér t.a.m. að kalla sig friðarbandalag? En er ekki meira friðarbandalag en svo, og verið er að undirbúa samruna Evrulandanna. Og ekki ætlar sá "friðar-klúbbur" að vera hernaðarlega óvarinn?
Örugglega ekki.
En friðarbandalag getur ekki opinberað, (án þess að setja sig í ótrúverðugt ljós), að aðildargjöld þjóðanna, sem eru svimandi há, fara í hergagnaframleiðslu, stríðsstuðning við aðrar mafíur og alvarlega sjúka heimsbanka-auðmenn og ræningja. Þetta hljómar ekki sem góð auglýsing, fyrir löndin sem verið er að ná þarna inn með svika-blekkingum og gylliboðum. Þess vegna finnst þeim að sjálfsögðu snjallt blekkingar-bragð, að sýna enga endurskoðaða reikninga frá síðustu árum og áratug.
Þessir valdamenn heimsins er alvarlega hættulegir sjálfum sér og öðrum.
En aðildarsinnum virðist vera alveg sama um þannig spillingu, og lofa ó-bindandi þjóðaratkvæða-greiðslum (skoðanakönnun) um aðild, þegar það er of seint að kjósa um herlegheita-ESB-pakkann.
Þeim sem eru í æðstu stöðum, er talin trú um að svona vinnubrögð séu í lagi, vegna þess að aðrir hafi unnið á svona svikulan hátt áður fyrr? Semsagt, ef aðrir ræna og svíkja þjóðina, þá megum við það líka? Þannig hljóma rökin sem eiga að réttlæta svikul vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, fyrir að svíkja megi meirihluta almennings á Íslandi um þjóðaratkvæða-greiðslu um aðild! Traustvekjandi, eða hvað?
Eitt sinn var talað um að Íslendingar væru vel gefið fólk, jafnvel orðið vel menntað líka, ef það er kostur, því menntaða fólkið flytur frá Íslandi í stórum hópum, og ráðamenn eru hættir að hafa tölu á þeim, né skilja hvernig þeir sjálfir stjórna? Hvað og hvernig eru Íslendingar? Engin þjóð var blekkt/ginnt eins mikið og Íslendingar, í útrásinni frægu. Ætlum við ekki að læra neitt af því?
Síðasta orðið í þessum málum er síður en svo sagt, og ESB-liðar vanvirða ekki skoðanir og rétt meirihluta Íslendinga, án þess að mæta afleiðingum slíkra svika. Gleymum ekki andlega kúgunar-ofbeldinu, sem var beitt á alþingi 16 júlí 2009. Fólk er ekki búin að gleyma þeim mannréttindabrotum, sem voru framin í alþingishúsinu þann dag. En það er ekki endalaust hægt að líða tortímandi vinnubrögð, án þess að grípa inn í atburðar-rásina. Stjórnarliðar VG og fleiri ættu að kæra þá vel þekktu hótunar-aðgerð, sem allir vissu um. Þetta eru þau vinnubrögð sem koma munu, með ESB-aðild. Þú gerir eins og þér er sagt, eða verra hlýst af, munu kúgunar-boðorð ESB verða.
Við höfum fengið sýnishorn af þessu ESB-bandalagi síðustu tvö og hálft ár, í gegnum tæra/glæra og auðtrúa vinstri-stjórn, og það ætti að nægja öllu velmeinandi, ábyrgu og hugsandi fólki, óháð flokkum, til að átta sig á staðreyndunum, og vinnubrögðum tilvonandi ESB-stórveldisins, sem er í samstarfi með AGS-mafíunni gjörspilltu. Fólki er hótað, það niðurnítt og kúgað með einelti, þar til það hlýðir, og sumir eru svo auðtrúa og "samvinnuþýðir" að þeir eru fulltamdir og fullsamþykktir af heimsveldinu!
Við getum alveg eins tekið slaginn á heimavelli, eins og í ESB-hernaðarveldinu, því í ESB-AGS-veldis-aðild bíður okkar ekkert annað og betra en stríð fyrir mannréttindum og lifibrauðinu hvort eð er, og enn erfiðara að mæta í Brussel til að berja potta og pönnur, þegar ekkert er orðið eftir til að elda í þeim hjá neinum.
Þau geta farið að "hlakka til," ESB-dýrkararnir, þegar hugsjónafólkið tekur til sinna aðgerða. Sumir gefast nefnilega aldrei upp við að berjast fyrir réttlátum hugsjónum og mannréttindum almennings. Og það mun finnast leið sem virkar, með málefnalegum hætti og samstöðu, það er alveg víst!
Sumt fólk er tilbúið til að standa og falla með sinni þekkingu og réttlátu sannfæringu, sem betur fer.
Lögin í landinu eru ekki þess virði að fara eftir þeim, ef þau virka ekki fyrir réttlætið. Minnumst verka níumenninganna og kjarkmikillar baráttu þeirra, sem var hótað allt að 16 ára fangelsi á Íslandi, fyrir mótmæli og smávægileg brot!Nú eru samsekir ríkisstjórnar-liðar búnir að krefjast dóms yfir einum manni í hrunstjórninni, en sleppa í leiðinni sjálfum sér? Svona virkar hið raunverulega réttætið hjá ríkisstjórninni á Íslandi, og víðar í heiminum.
Þetta er aðalástæðan fyrir að við verðum að standa saman, um að ná fram réttlæti, hvernig sem við förum að því.
Og ég sem hélt að hlutirnir gætu ekki versnað, frá síðustu stjórn? Og það héldu eflaust mjög margir aðrir líka.
Amnesty International er kannski að verða eina von almennings í heiminum?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.6.2011 kl. 20:17
Þakka þér fyrir Hjörleifur . Ég er þér hjartanlega sammála.
Ég hef ekki talið mig vinstri mann. Ekki í langan tíma. Hvernig er að vera vinstri maður í dag?
Hvaða flokk ætli þið að styðja í næstu kosningum? Er ekki von að maður spyrji?
Svo kallaðir vinstri flokkar eru hreinlega að knésetja íslenska þjóð í nafni Norrænnar velferðar .
Vinstri grænir eru að leiða þjóðina í kviksyndi ESB eftir að hafa mokað til sín fylgi fyri síðustu kostningar Vegna að því er virtist einlæga andstöðu við inngöngu. Steingrímur getur raunar kjaftað sig útúr hverju sem er. En það er ekkert að marka það sem hann segir.
Það hefði veri sagt eitthvað ef gömlu Kommúnistarnir hefðu komist á þetta stig kostaðir af erlendu fé til áróðurs. Þá hefðu sumir ekki verið feimnir að nota orðin Þjóðsv... og Landrá......
Snorri Hansson, 30.6.2011 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.