Um sjálfstæðissinna og einangrunarsinna

Oft fá andstæðingar ESB-aðildar að heyra þá ómerkilegu áróðursklisju að þeir séu á móti alþjóðlegri samvinnu og vilji einangra Ísland. Ég þekki þó engan sem gerir sér ekki ljóst að við þurfum áfram að eiga fjölbreytt viðskiptaleg og stjórnmálaleg samskipti við aðrar þjóðir. Það breytist ekki þótt við stöndum utan við ESB. Aftur á móti er hætt við að smáþjóðir sem ganga í ESB og lenda innan tollmúra ESB einangri sig smám saman frá ríkjum sem standa utan ESB enda eru þær tilneyddar við inngöngu að hækka tolla á ýmsum vörum sem þær flytja inn frá Asíu-, Afríku- og Ameríkuríkjum.

 

Sykur er tollfrjáls í innflutningi og er ágætt dæmi um það sem myndi hækka mjög í verði vegna verndartolla ESB. Tollar á innfluttum vörum frá ESB myndu hins vegar lækka í undantekningar­tilvikum, enda eru þeir nú þegar engir á öðrum vörum en þeim sem íslenskir bændur framleiða.

 

Á sínum tíma hefðu Íslendingar vafalaust átt þess kost að ganga í Bandaríkin, Stóra Bretland eða Þýska sambandsríkið úr því að þeir vildu ekki vera áfram undir danskri stjórn. En þeir kusu sjálfstæði. Ástæðan var ekki sú að þeir væru einangrunarsinnar eða óforbetranlegir þjóðernissinnar heldur vegna hins að þeir töldu miklu skynsamlegra að ráða málum sínum sjálfir og vildu ekki láta stjórna sér úr mörg þúsund kílómetra fjarlægð af embættismönnum sem lítið þekktu til aðstæðna hér á landi eða þarfa landsmanna. Leiðtogar Íslendinga voru sjálfstæðissinnar, ekki einangrunarsinnar. Kjarni sjálfstæðisbaráttunnar var einfaldlega að færa völdin frá meginlandi Evrópu til Íslands. Efnahagslega var það bæði nauðsynlegt og skynsamlegt. Með sömu rökum er mikill meiri hluti Íslendinga andvígur því að færa völdin aftur út úr landinu til Brussel, meðal annars yfirráðin yfir fiskveiðum umhverfis landið. Þeim er ljóst að það væri beinlínis efnahagslegt glapræði en jafnframt mikil afturför fyrir lýðræði í landinu.  

 

Áhugamenn um ESB-aðild verða að átta sig á því til fulls að ESB er ekki lengur samvinnuvettvangur sjálfstæðra ríkja heldur vísir að stórríki. Seinustu sex áratugi hefur ESB þróast hratt og fengið öll helstu einkenni nýs stórríkis sem stjórnað er af forseta og ríkisstjórn, þingi og æðsta dómstól, hefur sameiginlega utanríkisstefnu og fiskveiðilögsögu, landamæraeftirlit, stjórnarskrá, fána og þjóðsöng og stefnir að einum gjald­miðli. Ekkert bendir til þess að sú samrunaþróun sé á enda runnin.

 

Meginmarkmiðið með framsali aðildarríkjanna á mikilvægustu þáttum fullveldis síns til miðstjórnarvaldsins í Brussel er að byggja upp nýtt risaveldi sem þjónar innri þörfum ESB og þeim hagsmunum sem þar eru helst ráðandi. Réttarstaða aðildarríkjanna mun smám saman verða hliðstæð fylkjum í Bandaríkjanna sem vissulega hafa sjálfstjórn í nokkrum málum en lúta sterku alríkisvaldi og eru langt frá því að vera sjálfstæð.

Ragnar Arnalds

(Áður birt sem grein í Morgunblaðinu 16. júní s.l.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Ragnar góða og upplýsandi grein, margir halda nefnilega að matvælaverð muni lækka við inngöngu í ESB og ég verð að viðurkenna að ég keypti þau rök aðildarsinna þar til ég las þessa góðu grein þína.

Finnst þér ekki sniðugt hjá þeim Fréttablaðsmönnum að kalla þessa góðu síðu ykkar vinstri manna innan Heimssýnar klofningshóp Heimsýnar?

Þeir eru farnir að verða ansi rökþrota finnst mér aðildarsinnarnir um þessar mundir, enda hafa þeir veikan málstað að verja.

Jón Ríkharðsson, 17.6.2011 kl. 21:51

2 Smámynd: Gunnar Waage

Þetta er góð grein hjá Ragnari já. Það er ágætt að hann kemur inn á þetta með verndartollana en það virðist vera hugmynd Evrópusambandsáhugamanna, að fella niður alla tollvernd.

NAFTA er fyrst og fremst tollasvæði þar sem að unnið er með flokkun verndartolla og væri það eðlilegasta tollafyrirkomulagið fyrir okkur. Þá er með nokkurra vikna millibili endurmetnir allir vöruflokkar og þeir færir til á milli tollflokka eftir því hve mikil framleiðsla er innanlands.

Ef nóg er til af hveiti í Bandaríkjunum sem dæmi, þá fer innflutt hveiti í verndartollaflokk. Eftir því sem að birgðir minnka og afkoma framleiðenda kemst í eðlilegt horf, þá færast vöruflokkar niður um tollflokka og á endanum er tollum aflétt.

Þetta er síðan endurmetið á nokkurra vikna fresti og töflurnar uppfærðar. Þetta er fyrir mér alvöru tollvernd sem að er um leið hönnuð til þess að hvetja til heilbrigðra milliríkjaviðskipta.

En að fella hér niður alla tollvernd, það er bara grín, réttara sagt þá er það mikil forheimska.

Gleðilega þjóðhátíð félagar !!

Gunnar Waage, 18.6.2011 kl. 03:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband