Um byltingar og kannibalisma

Hver þekkir ekki orðtækið um að byltingar éti börnin sín. Slagorðið um allt vald í hendur öreiganna þótti snúast herfilega í höndum sósíalískra ríkja og svo hefur farið um fleiri mannsins drauma.

 

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að allar byltingar hafi verið misheppnuð ævintýri enda væri þá af mér allur byltingarmóður. Íslenska þjóðfrelsið og sjálfstæðið var svo sannarlega bylting frá ríkjandi kerfi sem í stórum dráttum skilaði okkur fram á við og það sama gerðu byltingarnar frönsku þrátt fyrir óhugnanlega sögukafla.

 

En sú bylting sem verst hefur reynst hin seinni ár er markaðsbyltingin sem var svar sósíaldemókratismans við kenningu marxista um sjálfkrafa einokun og hnignun kapítalismans. Í stað þess að viðhalda stríði gagnvart kapítalismanum vildu hin lýðræðissinnuðu vinstri öfl taka höndum saman við hið kapítalíska hagkerfi, búa því regluverk og umgjörð sem dygði þannig að allir mættu vel við una. Setja þyrfti hindranir þannig að ekki yrði af hinum miklu hrakspám kommúnismans um einokun og hrun jafnframt því að koma í veg fyrir skefjalausa stéttakúgun með opinberri samhjálp, lögleiðingu stéttarfélaga og vinnuvernd.

 

Það er ekki bara að þetta hafi verið vel og fallega hugsað, þessar hugsjónir kratanna urðu smám saman að pólitískum samnefnara sem engir ábyrgir aðilar gerðu athugasemdir við. Við hneigðum okkur öll fyrir að þetta væri leiðin til farsældar og deildum svo um smámuni sem allir rúmuðust innan þessa ramma.

 

Eftir því sem lengra leið á 20. öldina varð hugmyndin um lögleiðingu samkeppninnar sterkari og við tókum því öll sem gefnu að hún væri æðsta boðorðs réttlætis, heiðarleika og hagkvæmni. Til þess að tryggja tilveru hennar innleiddum við fleiri og fleiri reglur, stofnuðum til eftirlits og embætta jafnframt því sem til urðu nýir refsirammar og viðurlög til handa þeim sem fóru út af þessari braut. Leiðandi í löggjöf og framförum á þessu sviði urðu stórríki vesturlanda, ESB og Bandaríkin. Boðað var að opna yrði landamæri, fella niður múra milli ríkja, tryggja hið algera réttlæti og algildan heiðarleika samkeppnis og fjármagns.

 

Niðurstaðan lét heldur ekki á sér standa. Smám saman hurfu litlar rekstrareiningar úr atvinnulífinu, einokun fór vaxandi og tilraunir til nýliðunar urðu ámátlegar og broslegar. Við höfum haldið okkur lifa við meira frelsi en íbúar í öðrum álfum en er það svo þar sem allir eru þrælar hins stóra. Nú er svo komið að það er einfaldara fyrir millistéttar afríkumann eða Indverja á heimaslóð að gerast eigin herra í eigin rekstri heldur en fyrir Íslending eða Evrópumann.

 

Stéttamunur í öllum hinum vestræna heimi hefur farið vaxandi, vald alþjóðlegra fyrirtækja vaxið þjóðríkjum yfir höfuð og regluskógurinn er svo þykkur að engir nema skrautbúnir svindlarar fjármagns og stórfyrirtækja geta þar fundið leið í gegn.

 

Þetta varð með öðrum orðum bylting sem át börnin sín. Í stað samkeppni var með reglum sem áttu að stuðla að henni hlaðið undir fákeppni, í stað frelsis til athafna kom algert ófrelsi, í stað réttlætis og heiðarleika sótti okkur heim hinn ósvífnasti veruleiki hinna sterku og ríku. Í stað hagkvæmni kom bóluhagkefi og í stað öryggis og velsældar kom hrun.

 

Í söguskýringum um hugsjónir marxismans er oft gripið til þeirrar líkingar að hin byltingasinnaða hugmyndafræði hafi hrunið með Berlínarmúrnum. Þó svo að þar sé um nokkra einföldun að ræða og flestir hafi raunar tapað trú á það hvíta stílhreina mannvirki löngu áður en það hrundi, þá markaði hrun austurblokkarinnar kaflaskil og var síðasta vala í stórri vörðu sem reist var til minningar um brotna hugsjón. Hinir gömlu kommar höfðu nú við fátt að styðjast og margir leituðu illu heilli í faðm markaðskratismans í stað þess að þróa hugsjónir sínar áfram.

 

En hvað gerist þá nú þegar fjármálakerfi Vesturlanda hrynur með brauki. Raunar bæði brauki og bramli sem kostar milljónir manna aleiguna, fjölda ríkja endanlegan missi fjárhagslegs sjálfstæðis og opinberum á spillingu og misskiptingu sem öllu heilbrigðu fólki blöskrar.

 

Jú, markaðshyggjan lifir sínu sjálfstæða lífi eins og ekkert hafi gerst og enginn hafi atburðurinn orðið. Í síðasta Silfri Egils sátu fjórir talsmenn jafn margra stjórnmálaflokka og ræddu þjóðmálin og voru svo sammála um að auðvitað hlyti markaðshyggjan að ráða för í atvinnulífinu, þar gæti ekkert annað átt við. Svo hlógu allir að þeirri fjarstæðu að nokkrum gæti þótt annað.

 

Getur verið að það sé kominn tími til að endurnýja gömlu sósíalísku leshringina, leita nýrra lausna og hafna þeim spillta stórfyrirtækjaheimi sem byggir á löngu viðurkenndum sannindum sem eru þegar kíkt eru undir teppið blygðunarlaus lygi.

Bjarni Harðarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband