Skýr afstaða forsetans til örlagaríkra deilumála tryggði honum sigur

Sigur forsetans á sér margar skýringar. En mestu skiptir að hann hefur ekki hikað við að taka afdráttarlausa afstöðu gegn ESB-aðild og Icesave-samningum og fékk því stuðning frá tugþúsundum fólks sem aldrei áður hefur látið sér detta í hug að kjósa hann.

 

Ljóst er að Ólafur Ragnar fékk mikinn stuðning bæði frá fólki sem kýs til vinstri og hægri í alþingiskosningum og það fylgi fékk hann vegna afdráttarlausrar afstöðu sinnar til málefna sem sameina mikinn meirihluta þjóðarinnar.

 

Athyglisvert var að fylgjast með því í kosningabaráttunni að sumir frambjóðenda létu eins og ESB-málið kæmi þeim ekkert við því að þjóðin fengi að skera úr um það hvort Ísland gengi í ESB eða ekki. Þeir virtust ekki skilja að það skiptir þjóðina miklu máli hvaða viðhorf æðsti embættismaður landsins hefur til þessa örlagaríka máls sem snýst um sjálfstæði og fullveldi landsins á komandi árum. Ótvíræð afstaða Ólafs gegn ESB-aðild og framganga hans í icesave-málinu varð til þess að jafnvel hörðustu andstæðingar hans frá fyrri tíð þyrptust á kjörstað til að styðja hann og margir þeirra sögðu: Ég veit hvað ég hef. En ég veit ekki hvað ég fæ!

 

Úrslit forsetakosninganna varpa ljósi á stöðu VG í komandi þingkosningum. Þrátt fyrir endurteknar samþykktir flokksins þess efnis að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB verður því ekki neitað að ásýnd flokksins í augum fólksins í landinu, hvað ESB-málið varðar, er harla óljós og loðin. Flokkurinn féll í þá gryfju að lenda í mótsögn við sjálfan sig með því að ráða úrslitum um það á Alþingi að sótt var um aðild að ESB, þótt flokkurinn sé og hafi alla tíð verið andvígur aðild. Að sjálfsögðu er fólk almennt lítt hrifið af þess háttar hálfvelgju og skollaleik.

 

Spurningin um framtíð Íslands og fullveldisréttindi þjóðarinnar er miklu stærri en svo að nokkur stjórnmálamaður, sem vill að mark sé á honum tekið, komist upp með óljósa eða mótsagnakennda stefnu í því máli. Sú viðbára að verið væri að kanna hvað í boði sé gat hugsanlega dugað einhverjum í skamman tíma en má ekki teygja sig inn í nýtt kjörtímabil, ef ekki á illa að fara.

 

Flokkurinn mun ganga haltur og hokinn til næstu þingkosninga og sligast mjög undan þeirri þungu byrði sem hann tók á sínar herðar með aðildarumsókninni – nema því aðeins að hann varpi þessu óþverrahlassi af sér með góðum fyrirvara fyrir næstu kosningar og segi við Össur og Jóhönnu: Nú er nóg komið! Þessum könnunarleiðangri er lokið! Hingað og ekki lengra! - RA


mbl.is Ólafur hlaut 52,78% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ert þú ekki að vanmeta þitt fólk Ragnar? það eru allir búnir að sjá það að Steingrímur J og hans hirð eru gjörsamlega ómarktækir einstaklingar það skiptir engu úr þessu til hvaða aðgerða þau grípa til að reyna að bjarga stöðu sinni í næstu kosningum, við kjósendur erum búnir að setja stimpilinn "úrgangur" á þau, eina vonin fyrir VG er að skipta þeim út fyrir nýtt fólk sem ekki hefur svikið sína huldumey.  

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 13:42

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er óumdeilt og vitað að Sjallar og Framsóknarjálkar kusu ÓRG til valda - jú jú, ásamt almennum þjóðrembingum sem eru hvorki til hægri eða vistri beinlínus heldur bara kjánalegir öfgamenn. þetta er alveg óumdeilt og klárt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.7.2012 kl. 16:05

3 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Nei, Kristján! Ég er ekki að vanmeta mitt fólk. VG er í sjálfheldu og þarf að komast út úr henni. Ég er að hvetja mitt fólk. Flokkar jafnt sem einstaklingar geta horfið frá villu síns vegar. Við þurfum ekki að afskrifa flokk, leggja hann niður eða ganga úr honum í hvert sinn sem okkur mislíkar við hann.Ef allir gerðu það yrði mikil ringulreið í íslenskum stjórnmálum. - Með bestu kveðjum, Ragnar Arnalds

Vinstrivaktin gegn ESB, 1.7.2012 kl. 16:09

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Algjörlega sammála Ragnari. Engin ástæða til þess að afskrifa heilan stjórnmálaflokk bara vegna þess að forystan svíkur flokksfundarstefnuna.

Reyndar má minna á að XD er í nákvæmlega sömu forystukreppu og VG.

Kolbrún Hilmars, 1.7.2012 kl. 17:31

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Gott mál hér, og þarft að vekja athygli á undarlegu skoðanaleysi sumra frambjóðenda á Evrópumálum.  En ég hélt að fólk þyrfti að hafa skoðanir og segja frá þeim til að verða áhugaverðir frambjóðendur.

Þú hefur ekkert vit á þessu Ómar Bjarki, kannt ekki einu sinni að skrifa sjálfstæðismenn og þaðan af síður framsóknarmenn. 

Það er hinsvegar eingin launung að margir Sjálfstæðismenn gátu ekki hugsað sér að kjósa Ólaf þó þeir vonuðu að hann yrði áfram.  Þeir sátu því heima þegar þeir sáu niðurstöður skoðanakannana og voru því sjálfum sér til skammar.

Rétt Kolbrún.     

Hrólfur Þ Hraundal, 1.7.2012 kl. 17:41

6 identicon

Ég á ekki við það að VG sé afskrifaður sem stjórnmálaflokkur en forystusveit hans SJ og hans hirð ég er hræddur um að hún eigi ekki upp á pallborðið hjá kjósendum og ef flokkurinn ætlar að lifa þá verði hann að taka verulega til þar.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 19:05

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Vg átti kost á því að skipta um forystu, en formaðurinn - svikarinn var kosinn rússneskri kosningu, þó hæfur maður væri í mótframboði.  Þar brást sú von.

En ég vil benda á að ekki er nú glæsileg forystan í Samfylkingunni og enginn líklegur foringi í augsýn þar heldur.  Veit ekki um Framsókn, formaðurinn virðist vera þar bæði á toppnum og botninum.

Það virðist þurfa að skipta hreinlega um forystu alls fjórflokksins.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2012 kl. 20:46

8 Smámynd: Elle_

Alltof mikið er lagt upp úr forystu stjórnmálaflokka.  Eins og þeir hafi valdið.  Foringjar hvað?  Hvaða vald hafa þeir?  Það er óeðlilegt vægt sagt.  Það er eins óeðlilegt og að ráðstjórnarherrar eins og Jóhanna og Steingrímur og Össur hafi alþingismannasetu eða það vald sem þau stela núna.  Þau eru nánast orðin alvaldar, einráð yfir heilum embættum og ríkisstofnunum í lýðræðisríki.

Elle_, 1.7.2012 kl. 22:37

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt Elle, hvaðan fá þau sitt embættisbréf??? ekki frá hinum almenna kjósenda allavega ekki Steingrímur og co.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2012 kl. 22:39

10 Smámynd: Elle_

Þau eru nefnilega ekki með neitt embættisbréf að ég viti og burt með þau úr öllum skúmaskotum.  Þau fremja einfaldlega valdarán eða hvaða orð ætti maður að nota?  Þetta orð ´foringi´ er ógeðfellt.

Elle_, 1.7.2012 kl. 22:50

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála burt með þetta einræðislið og það sem fyrst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.7.2012 kl. 23:05

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er líka enn ein blekking Samfylkingarinnar, að þjóðin fái hvort eð er að hafa síðasta orðið um ESB aðild. Þjóðaratkvæðagreiðslan á að vera ráðgefandi, sem þýðir einfaldlega að ríkisstjórnin getur hunsað vilja þjóðarinnar, ef hún (stjórnin) svo kýs. Það er hinsvegar ekki hægt í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna synjunar forseta á lögum.

Theódór Norðkvist, 2.7.2012 kl. 02:36

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Ragnar, að vanda. En athugasemd Kristjáns segir nokkur sannleiksorð. Stjórnmálaflokkur er í eðli sínu hópur fólks sem aðhyllist ákveðna skoðun í stjórnmálum. Þegar forysta slíks flokks fer síðan fram gegn þeirri skoðun á sá hópur sem flokkurinn samanstendur af einungis þrjá kosti.

Í fyrsta lagi að sætta sig við þau vinnubrögð og svik sem forystan vinnur gegn markmiðum flokksins. Það hefur nokkur hópur gert, einkum þeir sem telja sig eitthvað gagn hafa af því, s.s. þingsetu, ráðherraembætti eða eitthvað annað. Örfáir aðrir fylgja einnig þessum svikum forystunnar og svo eru til einstaklingar sem svo trúir eru hugsjóninni að þeir sjá ekki hvert stefnir.

Í öðru lagi að skipta um forystu. Það var ekki gert í VG þegar tækifæri gafst.

Í þriðja lagi að yfirgefa flokkinn. Það hefur fjöldinn gert og því er flokkurinn nú ekki einungis haltur og hokinn, heldur fallinn í kör.

Hvort svo það fólk sem yfirgefið hefur flokkinn stofnar nýjann eða gengurtil liðs við önnur framboð, mun tíminn leiða í ljós. Enn hefur enginn sýnt kjark til að stofna nýjann flokk á stefnumálum þess gamla, en nokkrir þingmenn VG hafa ákveðið að ganga til samstarfs við önnur framboð.

Það er vissulega rétt að ef allir afskrifuðu sinn stjórnmálaflokk vegna þess að þeim mislíkar eitthvað, gæti skapast mikil ringulreið. En það er þó ekki eins og forysta VG hafi gert eitthvað smotterí, hún beinlínis stóð að því að sótt yrði um aðild að ESB, eitthvað sem stór hluti landsmanna og sennilega flestir kjósendur VG, líta sem fórnun á sjálfstæði þjóðarinnar.

Við skulum ekki gleyma niðurstöðum síðustu kosninga, þegar VG var hinn óumdeildi sigurvegari. Fylgi floksins jókst meira en nokkurn hefði dreymt um. Miklar líkur eru á að þetta aukna fylgi hafi komið til vegna einarðrar andstöðu við aðild að ESB.

Því hefur það hlass sem forysta flokksins lagði á hann þegar aðildarumsókn var samþykkt ekki bara beygt hné og bak flokksins, það hlass hefur kramið hann til jarðar og þar liggur hann nú, undir því hlassi. Það er því úr vöndu að ráða fyrir það fólk sem samanstóð að þessum flokk. Fyrir það fólk sem aðhyllist þær skoðanir sem flokkurinn stóð fyrir. 

Hugsanlega munu rísa upp einstaklingar sem hafa kraft og þor til að rífa flokkinn undann hlassinu og skilja þar eftir þá sem sviku hann. En það þarf að gerast fljótt. Því fyrr því betra.

Gunnar Heiðarsson, 2.7.2012 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband