Spáð er stormasömum leiðtogafundi ESB

Í gær, fimmtudag, hófst tveggja daga leiðtogafundur ESB sem flestir spáðu að yrði stormasamur. Fréttir hafa einskorðast við umfjöllun um björgunarpakka Spánverja (og fótboltaleik Ítalíu og Þýskalands) en meira kraumar undir. Tvíeykið Angela Merkel og Nicolas Sarkozy ræður ekki lengur för og nýr forseti Frakklands, Hollande, er talinn halla sér í átt til þeirra leiðtoga sem vilja ekki að öllum fjárhagshremmingum sé mætt með taumlausum niðurskurði.

Vandamálið er bara það að nú reynir á hvernig vinna má úr ágreiningi stórveldanna innan ESB við neyðaraðstæður. Angela Merkel hefur gert félögum sínum það kýrskýrt að Þjóðverjum hugnist ekki að leggja of mikið í sameiginlega sjóði bandalagsins. Hjálparbeiðni Spánar, sem engum kom á óvart, gæti orðið mun stærra dæmi en staða Grikklands, sem þegar hefur bakað vandræði, bæði í samskiptum ESB og innanlands í Grikklandi, þar sem raunveruleg neyð er fyrir hendi.

Hafi einhver einhver tíma efast um að stærstu stórveldin ráði ferð innan ESB þá er hægt að leggja þær draumsýnir á hilluna. Hins vegar er ástandið alvarlegra nú en oftast eða nokkrun tíma áður, böndin sem tengja þjóðir ESB gætu verið komin í flækju ef ekki rembihnút og hvernig verður tekist á við fyrirsjáanlegan ágreining er enn óskrifað blað. Fórnarlömbin eru áhrifaminni og blankari þjóðir innan ESB.

Einhvers staðar í flækjunni er svo Herman Van Rompuy, forseti ESB, með björgunaráætlun sem ekki er vitað hvernig reiðir af. Hún felst í mun meiri samþættingu í fjármálum bandalagsríkjanna. Það er ekki ljóst á þessari stundu hvort hann er höfuð stórríkisins eða leiðtogar stærstu ríkjanna, sem eru nú að sýna klærnar gagnvart meintum jafningjum sínum sem eiga minna undir sér. Það minnkar ekki flækjustigið að ástandið innan ýmissa landa ESB er mismunandi, sú ráðstöfun að setja Mario Monti sem varðhund ESB á Ítalíu gæti hreinlega greitt leið Silvio Berlusconi til baka í valdastól, og virðist hafa verið mjög skammsýn. 

Það er engin furða þótt ýmsir vefmiðlar séu ráðvilltir þessa stundina og eigi erfitt með að kortleggja stöðuna og framtíð ESB. Evrusvæðið er í jafn miklum vanda og fyrr, þótt reynt sé að auka tiltrú fjárfesta á gjaldmiðlinum með fyrirheitum um aukið miðstjórnarvald ESB.

Hvort staðan verður skýrari að tveimur dögum liðnum eða ekki mun koma í ljós, en enginn gengur að því gruflandi að átakafundur er hafinn meðal leiðtoga ESB. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband