Samstarfssamningur ESB og Úkraínu; liður í vestrænni útþenslustefnu

Meginorsök hins grafalvarlega ástands í Úkraínu er pólitík Vesturblokkarinnar, skammsýn gróðadrifin heimsvaldapólitík. Blokkin sú nýtti sér til hins ýtrasta djúpa kreppu og veiklun Rússlands eftir fall Sovétríkjanna.

Þetta var einkum gert með samhliða sókn ESB og NATO inn í gömlu Austurblokkina og áhrifasvæði Sovétríkjanna. Þannig voru brotnir niður gamlir viðskiptamúrar og verndaður iðnaður, opnað fyrir frjálst flæði vestrænna auðhringa o.s.frv. jafnhliða því að Rússland var umkringt hernaðarlega.

Þegar svo Rússland rís úr öskunni og leitar eftir hefðbundinni stöðu sinni sem stórveldi svarar Vesturblokkin af fullri hörku. Annars vegar býður ESB Úkraínu „samstarfssamning“. Hann gerir Úkraínu að hluta af evrópska markaðnum og raskar mjög tengslum Úkraínu við Rússland sem verið hafa mjög samþættuð frá Sovéttímanum. M.a. útilokar samningurinn þátttöku Úkraínu í svonefndu Eurasian Economic Community sem er efnahagsbandalag undir forustu Rússa.

„Samastarfssamningnum“ fylgdi einnig boð um AGS-lán til Úkraínu. Kreppan í Úkraínu er djúp og hinir voldugu í vestrinu vinna saman, í þessu tilfelli AGS og ESB. AGS-lánið er bundið miklum skilmálum um lífskjaraskerðingu og niðurskurð og mun í framkvæmd setja Úkraínu í líka stöðu og Grikkland. Það var ekki síst þetta AGS-lán sem stjórnvöld í Úkraínu voru að hafna þegar þeir höfnuðu samstarfssamningnum við ESB sl. haust. Íslandsvinurinn Michael Hudson skrifar að markmið AGS-lánsins hafi verið og sé að þvinga stjórnvöld til að stórfelldrar einkavæðingar ríkiseigna. http://therealnews.com/t2/index.php?option=com_content&task=view&id=31&Itemid=74&jumival=11614. Útþenslan heldur áfram. Samstarfssamningur við Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rússland er á aðgerðaráætlun ESB fyrir yfirstandandi ár.

Hin hliðin á sókn Vesturblokkarinnar gagnvart Úkraínu er hernaðarleg. Hernaðarþátturinn var sterkur og afar mikilvægur þáttur í umræddum samstarfssamningi við ESB. Þar segir: „Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðila á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. NATO er ekki nefnt berum orðum en „Evrópska öryggiskerfið“ þýðir á mannamáli NATO og reyndar gaf NATO Úkraínu þegar árið 2008 þungvæga stöðu með „strategic partneship“.

Enn frekar en á efnahagssviðinu nýtti Vesturblokkin sér veiklun Rússlands í öryggismálum. Eftir fall múrsins sóttu Bandaríkin og NATO hratt inn á fyrrverandi svæði Sovétríkja, komu sér upp herstöðvum í nýju Kákasus-ríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri hefur „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO), og nú segir NATO-Rasmussen gallharður að vegna spennunnar í Úkraínu muni NATO „efla starfsemi sína í Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópu“. NATO hefur auk þess byggt upp langdrægt skotflaugakerfi (gagneldflaugakerfi) á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Úkraína er aðeins eitt dæmi um hina herskáu grundvallarafstöðu Vesturblokkarinnar, en sérlega hættulegt dæmi..

Victoria Nuland, bandaríski varautanríkisráðherrann sagði í umtalaðri ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara í að byggja upp stjórnarandstöðuna í Úkraínu. Hún átti þá væntanlega helst við aðstoð gegnum ríkisstofnunina USAID, en auk þess hafa fjölmörg bandarísk „frjáls félagasamtök“ starfað í Úkraínu (eins og vítt um heim) að „mannréttindamálum“ um langt árabil. http://www.sott.net/article/273602-US-Assistant-Secretary-of-State-Victoria-Nuland-says-Washington-has-spent-5-billion-trying-to-subvert-Ukraine .

Hér skal látið nægja að fullyrða að valdarán úkraínskra þjóðernissinna í febrúar sl. fór fram með afar ríkulegum vestrænum stuðningi án þess ég útlisti það frekar. Í heimsókn hjá þýska starfsbróður sínum sakaði þá Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, ESB um að byggja upp áhrifasvæði í austur: „Ég tek alveg undir með Steinmeier. Það ættu ekki að vera nein áhrifasvæði. En að draga Úkraínu yfir á aðra hliðina, segjandi að hún  verði að velja „annað hvort eða“, annað hvort með ESB eða með Rússlandi er í reynd að skapa slíkt áhrifasvæði." Þessi pólitík er sérstaklega skaðleg í ljósi þess að Úkraín er ósamstætt land a.m.k. tveggja stórra þjóða. http://news.yahoo.com/russia-accuses-eu-seeking-39-sphere-influence-39-121919028--spt.html

Úkraínudeilan er fyrst og síðast afleiðing blindrar útþenslustefnu Vesturblokkar. Þá er þess að geta að hagsmunir innan Vesturblokkarinnar í málefnum Úkraínu og Rússlands eru á margan hátt mjög ólíkir. Fyrir þýskt auðmagn er Úkraína frjótt landbúnaðarland með auðlindir og mikla fjárfestingamöguleika, en fyrir Bandaríkin er mikilvægi hennar fyrst og fremst hernaðarlegt. Ekki síður gagnvart viðskiptaþvingunum og efnahagslegum refsiaðgerðum á Rússa eru hagsmunirnir ólíkir.

ESB er mikilvægasti viðskiptaaðili Rússa og Rússar eru einn af þremur mikilvægustu viðskiptaaðilum ESB. Árleg viðskipti þeirra á milli nema 370 milljörðum dollara. Í samanburði eru viðskipti Bandaríkjanna við Rússa léttvæg, aðeins 26 milljarðar. Viðskiptaþvinganir þýða því fremur samkeppnisávinning fyrir Bandaríkin, nefnilega stóraukinn útflutning til Evrópu. Með viðskiptabanni er að nokkru leyti verið að fórna hagsmunum ESB. Að ekki sé minnst á bein hernaðarátök við Rússa sem væru afar váleg tíðindi fyrir Evrópu. Þá væri nú Evrópa að fórna sjálfri sér fyrir „vini“ sína. Ég er ekkert bjartsýnn, en það væri þó helsta vonin að tilfinnanlegur skaði ESB af refsiaðgerðunum gæti orðið til að slá á herskáa afstöðu ESB-veldanna. http://en.ria.ru/world/20140428/189421661/US-Europe-Divided-Over-Anti-Russia-Sanctions.html

Þórarinn Hjartarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þessi grein er bull.Rússland lítur en á úkrainu sem hluta Rússlands sem hún er ekki.Með stofnun Sovétríkjanna varð Úkraína til í sinni núverandi mynd.Það ber að virða.Krím hefur ekki verið hluti úkraínu nema frá 1954.Það er annað mál.Krím var ekki hluti Rússland fyrr en Rússar tóku Krím með valdi fyrir rúmum 200 árum.Ef greinarhöfundur er í Heymssýn, þá legg ég til að hann verði rekinn þaðan.Skrif hans skemma fyrir.

Sigurgeir Jónsson, 4.5.2014 kl. 17:44

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hversu mjög sem við hljótum að andmæla ólögmætum aðgerðum víða í Úkraínu þessa dagana og vikurnar í þágu aðskilnaðar, er hitt staðreynd, að stríðshanzka var kastað með ýmsum aðgerðum Evrópusambandsins, sem fundu sér tjáningarfarveg í orðum forseta leiðtogaráðs þess, Hermans van Rampuy: "Úkraína á heima í Evrópusambandinu!" Með þessu var reynt að raska valdjafnvægi í austurhluta álfunnar og beinlínis ögra og storka Rússum. Kiev er fornrússnesk borg, þar var uppruni konungsættarinnar og nánast engin forsaga fyrir algeru sjálfstæði Úkraínu og fráleitt að ímynda sér, að Rússar þoli það, að landið verði NATO-land, með allri þeirri virðingu sem NATO á inni fyrir margt, en ekki allt.

ESB hefur farið illa og lymskulega að ráði sínu í þessu máli og efnt til stórfelldra árekstra í álfunni. Hún er ekki betri músin sem læðist en hin sem stekkur.

Jón Valur Jensson, 5.5.2014 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband