ESB-forystan kvíðir kosningum til Evrópuþingsins í maí

Dagana 22.‒25. maí næstkomandi fara fram kosningar til Evrópuþingsins í öllum aðildarríkjum ESB. Kosið er á 5 ára fresti til þessarar fjölmennu samkundu, en heildarfjöldi þingsæta er nú 751 og hefur verið fjölgað um 15 frá kosningunum 2009 í samræmi við Lissabonsáttmálann sem gekk í gildi það ár. Flest þingsætin tilheyra Þýskalandi, alls 96, en næst koma Frakkland með 74 og Bretland og Ítalía með 73 sæti hvort land. Fæstir þingmenn koma í hlut Eistlands, Kýpur, Lúxemborgar og Möltu, 6 sæti fyrir hvert þessara smáríkja. Kosningar í hverju landi til þingsins skulu vera hlutfallslegar og þröskuldur má ekki vera hærri en 5% fyrir hvert einstakt framboð. Að öðru leyti getur hvert aðildarríki ákveðið fyrirkomulag kosninganna.

Evrópuþingið er fyrst og fremst ráðgefandi málþing án heimilda til að leggja fram lagafrumvörp eða tillögur að tilskipunum. Frumkvæði í þeim efnum er eingöngu í höndum Framkvæmdastjórnar ESB í Brussel, sem er embættismannaklúbbur án alls aðhalds frá almenningi. Hinsvegar eru bæði Framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið umsetin af svonefndum lobbýistum, þ.e. útsendurum sem flestir koma frá stórfyrirtækjum og öðrum fjársterkum þrýstihópum. Smám saman hefur verið bætt við verkefnalista þingsins til að mæta gagnrýni á frægan lýðræðishalla Evrópusambandsins. Þannig þarf þingið nú að leggja blessum sína yfir fjárlög ESB og staðfesta kjör svokallaðs forseta Ráðherraráðsins, embætti sem búið var til með Lissabonsáttmálanum. Því starfi gegnir nú Belginn Herman van Rompuy, sem þykir heldur litlaus silkihúfa. Evrópuþingið hefur löngum sætt harðri gagnrýni, ekki síst vegna rausnarlegs þingfararkaups og margháttaðra fríðinda. Komið hefur fyrir að menn hirði þar kaup án þess að hafa sést þar svo misserum skiptir. Fjöldi þingmanna eru fyrrum þingmenn og ráðherrar í aðildarríkjunum sem leita þarna rólegs skjóls á efri árum. Silvio Berlusconi ætlaði að slást í hópinn í maí, en dómsúrskurður heima fyrir lokaði honum leiðina til Strassborgar og Brussel, en þingið heldur fundi sína til skiptis í þessum borgum.

Áhugi almennings í aðildarríkjum ESB á kosningum til Evrópuþingsins hefur stöðugt farið dvínandi frá því fyrst var kosið til þingsins 1979. Þá var þátttakan 62% en í kosningum 2009 aðeins 43%, þar af minnst í Slóvakíu, aðeins 20%, og rétt um þriðjungur í Bretlandi svo dæmi séu nefnd. Nú er brugðið á ýmis ráð til að vekja áhuga á þessum kosningum, en kosningaspár valda ráðamönnum ESB vaxandi áhyggjum. Ástæðan er sú að fylgi hinna hefðbundnu valdablokka í þinginu, hægrimanna, miðjuhóps og sósíalista virðist ætla að minnka til muna á sama tíma og andstæðingum ESB-kerfisins vex fiskur um hrygg í hverju landinu á fætur öðru. Þannig spáir tímaritið The Economist því að fylgi andstöðuflokka við ESB-kerfið verði á bilinu 16‒25%, sem væri auking úr 12% síðast. Einhver bið verður á að 6 kandídatar frá Íslandi komist á þessa vel höldnu samkomu, en óhætt er að fullyrða að ekki yrði skortur á frambjóðendum ef til kæmi.

Hjörleifur Guttormsson         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband