Vinnufélagi minn frá Rúmeníu

Starfsliðið á vinnustaðnum mínum er fjölþjóðlegt. Sem stendur er þar u.þ.b. tugur Pólverja, einn Lithái og einn Rúmeni. Þetta eru ESB-lönd. Svo er þar einn Rússi sem komst hingað eftir krókaleiðum á bólutímanum. Sumir eru með fjölskyldu og komnir til að vera. Aðrir eru bara í tímabundnum vinnutúr. Enn aðrir reyna að vinna sér inn sem flesta aura og senda þá heim. Sem sagt nokkrar tegundir af hinu frjálsa flæði „evrópusamvinnunnar".

Rúmeninn er af síðustu tegundinni. Nýlega spjallaði ég dálítið við hann og spurði um hans hagi. Hann er ekkert of ánægður. Hann er einmana. Hann fótbraut sig fyrir skemmstu í vinnunni en mætti aftur rúmri viku síðar og hefur svo harkað af sér. Hann vill ekki vera baggi á fyrirtækinu né eiga á hættu að missa vinnuna.

Hann er tæplega fertugur, einn og ógiftur, en hefur miklar og stöðugar áhyggjur af foreldrum sínum heima sem eru um sjötugt og heilsulaus. Hann sendir þeim alla umframpeninga sem hann vinnur inn, sem eru engin ósköp. Hann yfirgaf þó land sitt vegna lágra launa heima. Þar eru laun verkafólks um einn fimmti af íslenskum launum. Heilbrigðiskerfið í Rúmeníu er ömurlegt, nema læknum sé greitt undir borðið. Faðir þessa kunningja míns fékk heilablóðfall fyrir nokkru og lamaðist miki til öðrum megin. Hann var sendur heim af spítalanum samdægurs, enda er þetta bara verkafólk.

ESB er byggt kringum markaðsfrelsið/fjórfrelsið á fjölþjóðlegum evrópskum markaði. Hinn sameiginlegi evrópski markaður er náttúrlega frjálshyggjan og markaðshyggjan í verki  - fjármagn og vinnuafl flýtur nú frjálst um álfuna, fjármagnið þangað sem hagnaðar er von og vinnuaflið á eftir þangað sem góðra launa er von. Samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar skapar frjálsi markaðurinn ekki aðeins hámarkshagvöxt heldur miðlar líka gæðunum jafnast til allra.

Í orði já, en ekki á borði. Eftir að Rúmenía opnaðist fyrir  vesturevrópsku fjármagni á 10. áratug og gekk svo í ESB með öðrum austantjaldsríkjum um áramótin 2006/2007 var atvinnulífið einkavætt í stórum skrefum sem vænta mátti. Ný dæmi eru úr járnbrautarsamgöngum og orkuiðnaði svo að orkuverð til húsahitunar hefur rokið upp. Meirihluti fjármálastofnana voru seld vesturevrópskum bönkum kringum aldamót. Þar með buðust næg lán til einstaklinga og fyrirtækja. Þau voru ekki notuð til að byggja upp framleiðslu- og stoðkerfi heldur fremur til kaupa á innfluttum vörum. Þýska útflutningsmaskínan græðir. Svo kom kreppan.

Rúmenía hefur afiðnvæðst fremur en hitt. Í takt við það að innlendur iðnaður lagðist af leitaði vinnuaflið út úr landinu. Svo mjög að á árunum 2002-2011 fækkaði landsmönnum um nærri 15%! Vinnufélaginn minn segir að flestir vinir sínir og kunningjar búi nú og starfi í öðrum löndum Evrópu.

Sameiginlegur markaður ESB er stór tilraunareitur frjálshyggju og markaðsvæðingar. Það er fjarri því að markaðsfrelsið virki jafnandi milli landa. Laun í Rúmeníu eru áfram bara 1/5 af íslenskum launum. Hið frjálsa fjölþjóðlega flæði vinnuafls þýðir einkum það að launafólk verður að elta auðmagnið og atvinnuna milli landa. Sá „sveigjanleiki" er mjög hagstæður fyrir auðhringana en þýðir óöryggi, útlegð og oft hvíldarlaust flakk fyrir launafólk.

Kunningi minn hikar ekki við að segja að ástandið í Rúmeníu hafi verið betra fyrir almenning undir Sjáseskú (1965-89). Einkum tíminn aðeins fram yfir 1980. Lífskjör voru almennt betri, öryggið miklu meira og heilbrigðiskerfið miklu, miklu betra. Sjáseskú var þó einræðisherra og samfélagshættir á stjórnartíma hans hreint ekki til fyrirmyndar. En svona óhagstæður samanburður við gamla „Drakúla" sýnir fyrst og fremst hve grátt hið frjálsa markaðskerfi ESB hefur leikið hagkerfi fátækra Austur- og Suður-Evrópulanda.

ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Rúmeninn getur þakkað kommúnistanum fyrir það hvernig komið er fyrir Rúmeníu, enda skildi kommúnisminn allt í rúst eftir sig. Þetta er sami kommúnismi sem Ragnar Arnalds dáist (pdf, og þetta er einnig stórmerkileg lesning inn í hugarheim Ragnar Arnalds) svo mikið af. Þó svo að kommúnisminn sé með allt niður um sig og hafi hrunið árið 1990 með braki og brestum.

Rúmenía gekk í Evrópusambandið árið 2007, og hefur því verið aðili í heil 6 ár. Það er mikið verk óunnið í Rúmeníu og reikna má með að ástandið verði orðið sambærilegt og í vestur Evrópu eftir 20 til 50 ár. Spilling er einnig stórt vandamál í Rúmeníu, svo mikið að Evrópusambandið hefur þurft að stoppa styrkargreiðslur til landsins vegna þess að þær voru ekki að fara þangað sem þær áttu að fara.

Stjórnvöld í Rúmeníu bera ábyrgð á sinni efnahagsstefnu, og þar getur ýmislegt verið að vegna spillingar í landinu.

Rúmeninn getur þó verið þakklátur fyrir Evrópusambandið. Hann getur sótt um vinnu hvar sem er innan Evrópusambandsins+EES+Swiss (með takmörkunum í Svisslandi). Afhverju hann valdi Ísland er mér hulin ráðgáta, þar sem Ísland er láglaunaland eins og Rúmenía. Munar þar eingöngu því að Ísland er í Skandinavíu en ekki suður Evrópu, en láglaunaland er Ísland nú samt.

Jón Frímann Jónsson, 29.6.2013 kl. 22:52

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég er sammála þér jón – Rúmenar völdu að koma í nútímann en þetta er samt hugljúf saga. virkaði sennilega aður en internetið varð allmannaeign

Rafn Guðmundsson, 30.6.2013 kl. 01:41

3 Smámynd: Elle_

Hvorugur ykkar skildi pistilinn.  Hann var ekki hól um neitt nútímalegt.  Og enn síður glæsilegt.

Elle_, 30.6.2013 kl. 11:02

4 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

"Rúmeninn getur þakkað kommúnistanum fyrir það hvernig komið er fyrir Rúmeníu" Jón Frímann, Ég efast um að þú hafir skilning á því hvernig stóð á því að sovétríkin hrundu eða hvers vegna kommunistin virkar ekki, því ef þú gerðir það þá værir þú ekki stuðningsmaður ESB. Ástæðan er einföld, nær allt það sem feldi Sovétríkin er nú að fella ESB.

Þitt svar verður við þessu verður sennilega eitthvað í áttina við svar gömlu kommana; þetta er ekki að gerast, þetta er bara tímabundið ástand eða eitthvað í þá áttina

Brynjar Þór Guðmundsson, 30.6.2013 kl. 13:01

5 Smámynd: Elle_

Held þó að Rafn skilji alveg hvað er í gangi þarna og vilji bara ekki vita það og haldi dauðahaldi í Össurarblekkinguna eins og nokkrir enn.

Elle_, 30.6.2013 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband