Á fjaðralausum bíl

Ef maður ýtir þéttingsfast ofan á húddið á bíl þá dúar hann. Hann hreyfist í raun og veru mun meira en átakinu nemur því fjaðurbúnaður í bílnum veldur víxlverkun þannig að fyrst fer vagninn niður, þá upp og síðan niður aftur, upp og niður nokkrum sinnum allt eftir því hvað handsterkur maður er hér að verki.

Þannig herma demparar bílsins eftir hverri ójöfnum á vegi. Best er vitaskuld að vegur sé sem sléttastur og ójöfnur sem fæstar en þar sem þær eru, er mikilvægt að fara hægt og sneiða hjá þeim verstu. Sé það ekki gert geta sveiflurnar og kastið á bíl orðið svo miklar að farþegar kastast utan í grindina og lemstrast, fyrir utan þau ósköp að bíllinn kann að svífa í fjaðurmagnaðri sveiflu út af veginum og lenda þar á hvolfi.

En það dettur nú samt engum í hug að kenna fjaðrabúnaðinum um þegar svoleiðis gerist enda flestum ljóst að án hans hefði kastið allt orðið mikið verra og hættan á slysi meiri.

Þetta er nú skrýtin byrjun á pistli en tengist þó umræðu um söguna endalausu af krónunni og hagkerfinu. Það sem af er nýbyrjaðri öld hefur krónan svo sannarlega tekið sveiflurnar með landsmönnum þeim til bæði tjóns og ábata. Það er því broslegt að heyra nú sömu stjórnmálamenn hallmæla bæði ríkisstjórninni og krónunni. Þeir svara því að vonum ekki hvað það er þá sem hefur skilað Íslandi miklu lengra fram en öðrum þeim löndum Evrópu sem verst fóru út úr bankakreppunni.

Það er vissulega ekki svo að allt sé komið í lag og verkefni næstu ára eru ærin. En engu að síður er merkilegt að Ísland sem tók stærri dýfu og fékk yfir sig algjört gjaldþrot bankakerfisins skuli nú betur á veg komið en önnur fórnarlömb sömu kreppu.

Evrusinnarnir sem tilheyra ríkisstjórninni halda því eðlilega fram að krónan hafi engu bjargað heldur sé endurreisnin sem hér hefur orðið fyrir kraftaverkastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Slík trú er í sjálfu sér svo fágætt dæmi um fagra og ósnertanlega foringjahollustu að það er illa gert að hreyfa við henni. Um trú þessa ætti að gilda lögmál friðunar og varðveislu eins og á öðru því sem fágætt er og óborganlegt.

En fyrir þá sem lifa í raunheimi er hægt að gera aðrar kröfur í umræðunni og þar á meðal að krónan fái að eiga það sem henni ber. Í byrjun aldar ákváðu fjárglæframenn sem áður höfðu hnuplað þjóðarbönkum landsmanna að spana krónuna upp með innlendu vaxtaokri. Þeir höfðu sér til liðsinnis ríkisstjórnina, Seðlabanka, Viðskiptaráð og ýmis smærri dótturfélög. Afleiðingin varð bóluhagkerfi þar sem fjöldi manna efnaðist óheyrilega af peningum sem aldrei voru þó annað en blikkandi tölur á tölvuskjá. Það sýndi sig að með einbeittum brotavilja mátti nota krónuna til óhæfuverka sem komu allri þjóðinni illa.

Þegar bóla þessi sprakk var það síðan krónan en ekki útrásarvíkingarnir sem tók til eftir ballið. Með því að núllstilla krónuna tókst að koma raunverulegu hagkerfi framleiðslu og verðmætasköpunar í gang. Kraftaverk Jóhönnu Sigurðardóttur voru óþörf enda engin í boði.

Suður í Evrópu urðu á þessum árum einnig til bóluhagkerfi, fæst þó eins ofsafengin og hér heima. En þegar þessar bólur sprungu þá kom í ljós að spænska, gríska og ítalska hagkerfið voru öll á fjaðralausum bílum.

Þar hefur gjaldmiðillinn ekki unnið í takt við kast hagkerfisins heldur þvert á móti skaðað það óheyrilega og heldur áfram að brjóta það niður. Auður þessara landa verður að engu og framtíðarsýnin sem þau eiga í hinu sæla myntsamstarfi evrunnar er svört. Afhverju eiga Íslendingar að feta í þau fótspor með upptöku gjaldmiðils sem ekki sveiflast með hagkerfinu? /-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þennan pistill, mikið satt og rétt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2013 kl. 17:25

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þrátt fyrir ótímabær "fögn" og óljósar og rangar væntingar um hið gagnstæða, þá berast nú fréttir af því að efnahagssamdrátturinn á ESB/evru svæðinu sé enn dofinn og enn í niðursveiflu og mældist nú 0,6% í sjálfu flaggskipinu Þýskalandi á síðasta ársfjórðungi nýliðins árs.

Ekkert lát er heldur á hinu gríðarlega og viðvarandi atvinnuleysi á ESB/evru svæðinu.

Ætli að hann Össur sé enn að fagna !

Gunnlaugur I., 14.2.2013 kl. 17:59

3 identicon

Nú hafa þær gleðifréttir borizt að Fitch hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs vegna IceSave-dómsins eins og búast mátti við. Önnur matsfyrirtæki eiga eftir að fylgja því eftir. Hvort botninum hafi verið náð veit ég ekki, en vonandi fer allt á uppleið eftir kosningar.

En eitt er víst, að vindhaninn Ásmundur (Ragnar Reykás) á eftir að stinga upp kollinum hérna og tala lánshæfið niður. 

Pétur (IP-tala skráð) 14.2.2013 kl. 20:58

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Er hann ekki í endurhæfingu hjá Esb?

Helga Kristjánsdóttir, 14.2.2013 kl. 23:54

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er verið að endurprógrammera hann vegna skammhlaups. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2013 kl. 00:05

6 identicon

Pétur fagnar hækkun á lánshæfismati en virðist ekki gera sér grein fyrir að það er enn mjög lágt, hættulega lágt.

Hann virðist hins vegar hissa eins og hann hafi ekki búist við þessari litlu hækkun þó að allir hafi búsit við henni efir Icesave-dóminn.

Þegar ÓRG boðaði til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunnar var lánshæfismatið lækkað niður í ruslflokk.

Þar var það þangað til eftir seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna og olli minna trausti á Íslandi, lægra gengi krónunnar og hærri vöxtum á erlendum lánum en ella.

Steingrímur J hafði þá farið á fund matsfyrirtækjanna og sýnt fram á að þrotabú Landsbankans myndi greiða höfuðstólinn að mestu eða öllu leyti.

Það var því búist við hækkun núna enda bjuggust fæstir við algjörum sigri fyrir EFTA-dómstólnum.

Krónan og gjaldeyrishöftin munu hins vegar halda lánshæfismatinu áfram lágu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 10:54

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það að vera með sjálstæða og sveiflukennga örmynnt getur linað skammtímaáhrif kreppu en er til mikils skaða til lengri tíma. Það er eins og að pissa í skóinn sinn. Þar koma bæði til ruðninsáhrif krónunnar gagnvart útflutningastvinnuvegum þegar gengi hennar er hátt auk þess sem aðilar í alþjóðlegum viðskiptum forðast umhverfi með sveiflukennda mynnt.

A hverju halda menn að engin aukning hafi orðið í vöruútflutningi eftir hrun þrátt fyrir mikið falla krónunnar? Það stafar af því að útflutningsatfinnuvegir okkar eru nánast eingöngu atvinnuvegir sem neyðast til að vera hér og þá oftast nær atvinnuvegir sem nýta sér auðlindir okkar. Fyrst og fremst fiskveiðiauðlindirnar og orkuauðlidnirnar. Annar útflutnignsatvinnuvegur þekkist varla hér og er ekki að koma hinsga þó gangi krónunnar sé lágt því það gæti breyst og engin á von á öðru en að það verði sveiflukennt.

Af hverju ætli fyrir tæki eins og Össur, Marel og CCP sem eru vaxandi fyrirtæki séu með alla aukningu sína erlendis? Það stafar af því að þau forðast sveiflukenna krónu og þar að auki eru fjármögnunaraðilar þeirra ekki eins tilbúnir til að lána til þess hluta starfseminnar sem er á Íslandi vegna þeirrar áhætti sem þeir sjá í sveiflukenndri mynnt. Fyrirtækin fá því einfaldlega betri lánafyrrigreiðslu í erlenda hlutanum. Þetta hefur leitt til þess að íslenskt samfélag hefrur misst af mörgum hálaunastörfum sem mikill fengur væri í við endurreistn þjóðfélagsins eftir hrunið.

Þetta áhættuálag sem fjárfestar sjá í krónunni er líka ástæða þess að íslensk heimili og fyrirtæki þurfa aðgreiða mun hærri vexti en þeir sem búa við stöðugri mynt. Meðan íslensk heimili þurfa að greiða 4 til 5% vexti ofan á verðtryggingu þurfa grísk heimili ekki að greiða nema 3,5% vexti af óverðtryggðum lánum. Það gerist þrátt fyrir mjög slakt lánshæfismat gríska ríkisins. Dönsk heimili greiða innan við 1% vexti af óverðtryggðum húsnæðislánum.

Meira að segja grísk heimili hafa ekki orðið fyrir þeirri miklu kjararýrnun og eingarrýrnun sem íslensk heimili hafa orðið þrátt fyrir nánast gjaldþrot ríkisins vegna þess að þau búa við stöðuga mynt. Þeir búa einnig við fjölbreyttara atvinnulíf og þó nú sé atvinnuleysi hátt þá á það eftir að lagast vegna þeirra sóknartækifæra sem stjöðug mynt og aðild að ESB færir þeim.

Það getur verið gott að geta pissað í skóinn sinn annars lagið til að lina versta höggið í kreppunni en till lengri tíma skapar það betri lífskjör að hafa stöðuga mynnt og vera hluti af stóri og efirsóknarverðu markaðssvæði.

Sigurður M Grétarsson, 15.2.2013 kl. 12:09

8 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Frá október 2000 til júlí 2008 þá tapaði evran 50% af verðmæti sínu gagnvart dollar. Lang stærsti hluti á útflutningi frá Íslandi er háð heimsmarkaðsverði í USD.

Eggert Sigurbergsson, 15.2.2013 kl. 15:02

9 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

"Þetta áhættuálag sem fjárfestar sjá í krónunni.."

Ástæðan fyrir háum raunvöxtum á Íbúðalánum er að stærstum hluta til lögbundin krafa lífeyrissjóða um 3,5% raunávöxtum. Þetta hefur ekkert með áhættuálag að gera. Ef vilji er til að breyta því þá liggur gullið tækifæri til þess hjá stjórnvöldum sem gætu afnumið þessi lög. Lífeyrissjóðir halda uppi vaxtagólfinu á Íslandi með þessari kröfu sinni.

Í stuttu máli þá erum við að fjármagna lífeyriskerfið með ágóðanum af rándýrum lánum til einstaklinga og fyrirtækja. Bankar fljóta svo með og græða á tá og fingri.

Eggert Sigurbergsson, 15.2.2013 kl. 15:19

10 identicon

Að hrósa happi yfir að vera ekki með evru sem gjaldmiðil eftir hrun af völdum krónu er auðvitað órökrétt enda er sá möguleiki óhugsandi.

Ef við hefðum haft evru fyrir hrun er alveg óvíst hvort nokkurt hrun hefði orðið. Allavega hefði það verið miklu minna og því valdið miklu minna tjóni.

Of hátt gengi krónu hvatti til fjárfestinga erlendis og stuðlaði þannig að ofvexti bankanna. Hrun á gengi krónunnar átti þó trúlega stærstan þátt í hve hrikalegt hrunið varð.

Skuldavandi einstaklinga og fyrirtækja, sem enn sér ekki fyrir endann á, er afleiðing þess að hafa krónu sem gjaldmiðil.

Með evru hefðu skuldir ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu. Kaupmáttur launa hefði ekki hrunið. Staða almennings væri því miklu betri.

Þannig hefur krónan valdið því að að kjör almennings hafa versnað mikið meðan útflutningsfyrirtæki græða á tá og fingri. Almenningi blæðir en sérhagsmunaöflin hagnast.

Þegar við bætist að vöruútflutningur hefur ekkert aukist eftir hrun, eins og Sigurður M Grétarsson bendir á, er í meira lagi hæpið að halda því fram að krónan sé að hjálpa okkur eftir hrunið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 17:19

11 identicon

Eggert, evran hefur hækkað gagnvart dollar en ekki öfugt. Frá 27.október 2000 fram til dagsins í dag hefur evran hækkað úr $0.8324 í $1.3325. Þetta er 60% hækkun.

http://www.ecb.int/stats/exchange/eurofxref/html/eurofxref-graph-usd.en.html

Þetta sýnir ótvíræðan styrkleika evrunnar.

Krafa lífeyrissjóðanna um 3.5% raunávöxtun er ekki landslög. Þetta er aðeins markmið bundið í þeirra eigin lögum. Lífeyrissjóðirnir verða að sætta sig við markaðskjör eins og aðrir. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa er miklu lægri en 3.5% í dag.

Þegar viðskipti með gjaldeyri eru frjáls (engin gjaldeyrishöft), og krónan enn gjaldmiðillinn, verða íslenskar fjármálastofnanir að bjóða mun hærri vexti en þær sem eru á evrusvæðinu.

Þetta er vegna þess að traust á Íslandi er óhjákvæmilega lítið vegna  krónunnar. Ef vextir væru ekki hærri hér myndi sparifé streyma úr landi. Háir útlánsvextir fylgja svo háum innlánsvöxtum.

Þetta er aðalástæðan fyrir því að raunvextir voru hér miklu hærri fyrir hrun en á evrusvæðinu. Og þetta er ástæðan fyrir því að með tilkomu evru verða vextir miklu lægri.

Það sætir furðu að skuldarar berjist ekki fyrir upptöku evru. Þannig geta þeir fengið miklu meiri lækkun á greiðslubyrðinni en sem svarar 20% lækkun á höfuðstóli krónuláns.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 18:24

12 identicon

Eggert, varðandi útflutning skiptir mestu máli að mikill meirihluti hans er til ESB-landa, einkum evrulanda.

Verð vara sem eru seldar á heimsmarkaðsverði í US$ eru háðar framboði og eftirspurn um allan heim en ekki bara í Bandaríkjunum.

Þetta þýðir að ef gengi dollars lækkar þá hækkar verðið. Engu máli skiptir hvort verðið er í dollurum eða evrum

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 18:41

13 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Ásmundur, ef þú hægrismellir á myndina og velur "View Image" þá sérðu að þetta er dollaragraf. Á grafinu sést hvað evran sveiflast gagnvart USD og þar með gagnvart helstu útflutningsvörum okkar.

Evran hefur sveiflast um 94% gagnvart USD á sinni stuttu ævi.

Hin meinti stöðugleiki evrunnar er sami stöðugleiki og fæst með því að binda sig fastan við mastur á skipi út á rúmsjó í brælu.

Eggert Sigurbergsson, 15.2.2013 kl. 21:08

14 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Eggert Sigurbergsson. Grafið sem þú sýnir er verð á dollar gagnvart Evru. Lækkun í því grafi sýnir því lækkun á gengi dollars en ekki Evrunnar.

Þær sveiflur sem sjást á þessu grafi eru mun meira sveiflur í gengi dollar sen Evru. Evran hefur verið mun stöðugri gjaldmiðill en dollar. Gengi Evrunnar er hátt gagnvart helstu gjaldmiðlum heims og hefur ekki lækkað svo neinu nemi þrátt fyrir Evrukrísuna. Það eru skýr merki um það að aðilar á fjármálamarkaði hafa trú á því að Evru ríkin munu koma sterk út úr þeirri kreppu sem þau eru í.

Sigurður M Grétarsson, 15.2.2013 kl. 23:08

15 identicon

Eggert, með upptöku evru opnast möguleikar á sjálfsprottnum nýjum útflutningsatvinnugreinum sem hafa öll ESB-löndin sem markað upp á 500 milljónir íbúa.

Mest af þessum viðskiptum verða í evrum sem verður gjaldmiðill seljanda og kaupanda. Verðsveiflur vegna gengismunar verða því úr sögunni í þessum viðskiptum. Þetta verður vaxtarbroddurinn eftir aðild.

Gengissveiflurnar sem við búum við í dag auk tolla og/eða annarra gjalda útiloka slíkan útflutning. Markaður upp á 320.000 manns vex upp í 500.000.000. Þetta getur orðið gríðarleg lyftistöng fyrir íslenskan efnahag.

Lækkun á gengi dollars frá nóvember 2000 fram til dagsins í dag er 36%. Lækkunin frá því að gengið var hæst þangað til það var lægst um sjö árum síðar er  47.6%. 

Þessi mikla lækkun á dollar gagnvart evru var aðallega fyrstu ár evrunnar. Það bendir til að hún hafi í upphafi verið of lágt skráð. Sveiflurnar síðustu tíu árin eru hóflegar.

Útflutningur til Bandaríkjanna er mjög lítill, um 3% ef ég man rétt. Vörur sem eru á heimsmarkaðsverði í US$ lúta öðrum lögmálum.

Verð þeirra er skráð daglega og er háð framboði og eftirspurn um allan heim. Það fylgir því ekki gengissveiflum á dollar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 23:37

16 Smámynd: Elle_

Einn punktur, dollar er með litlum staf og evran líka.  Veit þetta munar engu fyrir fyrir virði evru-druslunnar, en ESB-sinnum hættir við að setja evruna upp á stall. 

Elle_, 16.2.2013 kl. 00:17

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elle hún er ekki sett á stall, hún er sett á Altari í aðdáun og tilbeiðslu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2013 kl. 01:04

18 identicon

Engin gjaldmiðill heitir dollar. Bandaríkjadollar er hins vegar nafn á gjaldmiðli og hann er ritaður með stórum upphafsstaf.

Evra er leidd af Evrópa sem er með stórum staf. Það er því ekki óeðlilegt að nota stóran upphafsstaf í evru.

Í þýsku, útbreiddasta fyrsta tungumál Evrópubúa, eru öll nafnorð rituð með stórum upphafsstaf. Það kemur því ekki annað til greina en að það eigi við um Euro þar.

Annars ber það vott um mikla málefnafátækt þegar ESB-andstæðingar eru að fjargviðrast yfir þessu og skrifa jafnvel heilu greinarnar um málið af mikilli vandlætingu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.2.2013 kl. 09:58

19 Smámynd: Elle_

Málefnafátækt?  Vorum við nokkuð að rökræða við ykkur?

Elle_, 16.2.2013 kl. 14:44

20 identicon

"Dönsk heimili greiða innan við 1% vexti af óverðtryggðum húsnæðislánum." (#7)

Sigurður M: Hvernig væri að þú bakkaðir upp með vísan í heimildir þessa fullyrðingu, sem ég held að sé upprunnin úr þínum eigin ímyndunarheimi.

Skv. því sem ég hef lesið á dönskum vefsíðum þá er algengt að vextirnir séu um 3% - 3,5%  og allt upp í 13% ef heildarkostnaðurinn við lántökuna er umreiknaður í prósent eins og lánastofnunum er skylt að upplýsa um.

Pétur (IP-tala skráð) 16.2.2013 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband