Höftin hverfa ekki með hókus-pókus aðferðum

Aftur og aftur er reynt að telja fólki trú um að með því að skipta krónunni út fyrir erlendan gjaldmiðil sé svonefndur snjóhengjuvandi úr sögunni, nú seinast á að blekkja fyrirhugaðan landsfund sjálfstæðismanna til að gleypa þá flugu. Kanadadollar á að leysa vandann.

 

Snjóhengjuvandinn er einfaldlega í því fólginn að vegna þess að umsvif hinna föllnu banka voru svo tröllvaxin í samanburði við stærð íslenska hagkerfisins og námu um tífaldri landsframleiðslu, lokuðust hér inni miklir fjármunir í hruninu, bæði í erlendum gjaldeyriseignum og í krónum sem voru eign erlendra aðila, meðal annars vogunarsjóða, og þess vegna hefur verið óhjákvæmilegt að stjórna peningaflæði til og frá landinu með gjaldeyrishöftum svo að efnahagslíf okkar færi ekki á hvolf ef fyrrnefnd „snjóhengja“ færi af stað.

 

Neyðarlögin og sjálfstæður gjaldmiðill með kostum sínum og göllum hafa gert okkur kleyft að tempra útflæði fjármagns í samræmi við getu okkar á hverjum tíma. Skipti á krónum yfir í Kanadadollar gætu ekki gerst nema með því að íslenska ríkið nýtti stóran hluta af gjaldeyrisforðanum til að kaupa kanadíska dollara. Þá yrði þegar gríðarlegt útstreymi fjármagns sem íslenska bankakerfið réði einfaldlega ekki við. Við værum þá jafnframt að auðvelda vogunarsjóðum og öðrum viðlíka aðilum sem keypt hafa kröfur á íslensku þrotabúin á lágu verði að koma gífurlegum hagnaði úr landi.

 

Fátt er eins auðvelt og að benda á neikvæðu hliðarnar á gjaldeyrishöftum. En eins og á stendur eru hugmyndir um upptöku annars gjaldmiðils til að leysa vandann álíka ódýrar og yfirborðslegar eins og hver önnur brella sem villir okkur sýn. Einhliða upptaka Kanadadollars gæti þvert á móti leitt til algers fjármálahruns á Íslandi og þjóðargjaldþrots.

 

Fyrst eftir hrun voru ýmsir veikir fyrir hugmyndinni um einhliða upptöku annarrar myntar. Margir hafa þó orðið til að benda á að sú tilraun gæti orðið mjög áhættusöm fyrir Íslendinga, og má m.a. nefna rökstuðning gegn hugmyndinni í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans, en þar er m.a. á það bent,

 

„að íslenska bankakerfið er enn nokkuð stórt og að mestu innlent í merkingu aðgengis að lausafjárfyrirgreiðslu. Þjóðarbúið er jafnframt töluvert skuldsett í erlendum gjaldeyri og horfur um þróun greiðslujafnaðar á næstu árum háðar nokkurri óvissu. Við slíkar aðstæður getur einhliða upptaka annars gjaldmiðils verið töluvert hættuspil. Þetta á sérstaklega við um einhliða upptöku evrunnar, sem yrði þvert á vilja stofnana evrusvæðisins. Við þetta má svo bæta að við núverandi aðstæður fjármagnshafta og hárrar stöðu aflandskróna vaknar sú spurning hvernig yrði með þær farið í gjaldmiðlaskiptum. Það yrði þjóðinni dýrt að leysa þær stöður út nú á álandsgengi. Ef það er hins vegar gert á aflandsgengi gætu alþjóðamarkaðir og lánshæfismats fyrirtæki túlkað það sem greiðslufall."

 

Jafnframt má benda á rökföst skrif Einars Björns Bjarnasonar sem skrifar um þetta mál á bloggi sínu 30. janúar s.l. undir fyrirsögninni: „Einhliða upptaka annars gjaldmiðils getur leitt til algers fjármálahruns á Íslandi, og stærra falls lífskjara almennings en í okt. 2008!“. http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1280063/

 

-RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg rétt, eina leiðin til að gera þetta er að gera þetta hægt og rólega. Að því gefnu að xD og xS myndi nýja ríkisstjórn á næsta kjörtímabili virðist því miður sú sýn blasa við að flokkarnir munu hundsa það með tilheyrandi verðbólguskoti. Það mun svo endanlega ganga frá þeim heimilum og fyrirtækjum sem hafa verðtryggð lán. Í kjölfarið verður hægt að tala um hversu slæm krónan sé og þannig auka rækilega við ESB-fylgið.

Þetta er veruleiki sem verður e.t.v. ofan á nk. 12-18 mánuðum. Ég vona að SÍ hafi einhver ráð til að sporna gegn óráðsíu stjórnmálamanna ef svo fer. Það er ekki hægt að leysa þennan vanda nema að gera það hægt, allt tal um að gera þetta hratt er ekki hægt að styðja með rökum sem halda.

Flowell (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 12:44

2 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Það sem dregur úr trúverðugleika þeirra sem vilja krónu áfram er að þeir berjast ekki fyrir því nú að gera krónuna nothæfa.

Lúðvík Júlíusson, 3.2.2013 kl. 18:41

3 identicon

Krónan líður náttúrulega fyrir ítrekaðar morðtilraunir Samfylkingar. En hún lifir þær af, og gott betur. Krónan verður komin í "full-swing" um leið og kjósendur hafa gert Samfylkingu að áhrifalausum smáflokki.

Krónan er eina leiðin út úr vandanum, aðrar leiðir eru ekki í boði, og verða ekki.

Þegar við erum búin að losa okkur við Samfylkingu, þá er rétt að skoða í alvöru hvaða leiðir eru bestar, og reyna að vinna upp 4 töpuð ár.

Hilmar (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 19:29

4 identicon

Hvað meinarðu Lúðvík?

Seiken (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 19:30

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Seiken, t.d. hafa Heimssýn og Bjarni Harðar lýst því yfir að það sé ekkert að því að selja landið með afslætti og láta þannig milljarða í fang auðmanna vegna þess að það sé gert til að forðast meira óréttlæti.  Hér sýnir Vinstrivaktin vanþekkingu sína á gjaldeyrishöftinum.  -  Ef krónusinnar vilja trúverðuga krónu þá verður það að vera sama krónan fyrir alla án mismununar, margfalds gengis og vanþekkingar.

Hvar er lausnin? 

Lúðvík Júlíusson, 3.2.2013 kl. 20:14

6 identicon

Það er ekki nema ein leið út úr gjaldeyrishöftunum,og hún er að taka upp ný krónu(ríkisdal)og tengja hana myntköfu, og frysta gömlu krónuna inni í 15-20 ár. Öðru vísi verður vandi snjóhengjunnar upp á ca. 800-1000 miljarða ekki leystur.

Lilja og Hægri grænir eru með lausnina.

Allt tal um einhliða upptöku annars gjaldmyðils, er bara bull, því hvar á gjaldþrota þjóð,að taka lán til að kaupa annan gjaldmiðil.

og það eru 10-15 ár í að uppfylla Mascrik skilyrðin, og þá leið er hægt að slá út af borðinu strax.

Jón Ólafur (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 20:20

7 identicon

Ok. Lúðvík.  Skil þig.

Lausnin?  Ég veit það ekki. En upptaka evru leysir varla þessi mál.  Þeir sem tala öðrum þræði um hversu skelfilegt það var að seðlabankinn skildi setja sjálfan sig í 270 milljarða kr. þrot í þeim gjaldmiðli sem hann prentar eru núna að auglýsa það sem lausn á höftunum að breyta snjóhengjunni í ca. 1000 milljarða skúffuskuld í ECB, í gjaldmiðli sem SÍ prentar ekki. Það verður seint talinn trúverðugur málflutningur.

Ég er smeykur um að á næsta kjörtímabili munum við þurfa allan þann kjark sem 63 þingmenn geta lagt saman til þess að losa um höftin. Og það verður trúlega ekki gert nema með því að vogunnarsjóðir verði snoðaðir og skuldabréfinu sem að nýji Landsbankinn lagði inn í þrotabú gamla bankans breytt í krónuskuld.

Seiken (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 20:45

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er eiginlega skelfilegt að forystumaður í einum flokki hér skuli ekki skammast sín fyrir að segja að við getum ekkert annað gert en að ganga í ESB, megi hann hafa ævarandi skömm fyrir.  Og svo ætlar hann sér að fara fram á að allir aðrir stjórnmálaflokkar gangi á hans ESBlínu, hversu lágt getur einn maður lagst?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2013 kl. 20:47

9 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Seiken, er ekki góð byrjun hjá vinstrimönnum að útfæra höftin með þeim hætti að þar sé jöfnuður og engin forréttindi?

Nú notum við krónu og munum líklega nota krónu næstu árin og jafnvel næstu áratugina.  Þá viljum við örugglega búa í landi þar sem allir nota sömu krónuna.

Afnám forréttindi þarf ekki endilega að þýða afnám hafta.

Lúðvík Júlíusson, 3.2.2013 kl. 20:52

10 identicon

Ef þú ert að vísa í 50.000 Evru þröskuldinn Lúðvík sem menn þurfa að kljúfa eða 40% top-up sem menn fá á evrurnar sínar í fjárfestingaleið SÍ þá er ég hjartanlega sammála. Það er óþolandi mismunun.

Seiken (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 21:10

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Seiken, meðal annars, auk þess sem sömu aðilar geta verið beggja megin borðs með því að selja skuldabréf á Íslandi og kaupa þau síðan af sjálfum sér með aflandskrónum keyptum af Seðlabankanum.  Skilaskyldan er ekki heldur eins almenn og haldið er fram og réttindi fólks eru mjög ólík.

Lúðvík Júlíusson, 3.2.2013 kl. 21:31

12 identicon

Höftin verða ekki afnumin nema með ESB-aðild og upptöku evru. Þetta ætti að vera orðið ljóst nú þegar meira en fjögur ár eru liðin síðan höftin voru sett á og enn sér enginn neina leið til að halda áfram með krónu án hafta.

Skýrsla Seðlabankans sýndi fram á að einhliða upptaka annars gjaldmiðils kemur ekki til greina. Samt eru margir í sömu afneitun gagnvart þeirri hugmynd og krónunni.

Þessi afneitun stafar af því að mönnum líkar ekki að vera stillt upp við vegg með aðeins einn kost. Kostunum fjölgar þó ekki við það að neita að horfast í augu við staðreyndir.

Í raun eigum við að vera himinlifandi yfir því að geta fengið aðild að ESB. Fjöldi örþjóða hefur engan slíkan valkost. Þær eru einar á báti og hafa tekið einhliða upp evru eða dollar eða bundið gengi síns gjaldmiðils við annanhvorn þeirra þótt það gefist illa.

Evran og allt sem henni fylgir eru ekki eini fengurinn með ESB-aðild. Nauðsynlegir bandamenn, vönduð löggjöf, virkt eftirlit og samtrygging eru einnig mikils virði.

Það er meiri fengur í ESB-aðild fyrir Ísland en það var fyrir allar ESB-þjóðirnar vegna þess að krónan er ónýt. Ísland ætti því fyrir löngu að vera komið með aðild.

Við megum ekki endurtaka leikinn frá því fyrir hrun og reyna að þagga niður viðvörunarorð. Ég hef trú á að Árni Páll muni tala tæpitungulaust þó að eflaust muni margir reyna að stoppa hann af.

Höft eru mismunun. Það er því ekki hægt að vera með réttlát höft. Í haftaþjóðfélagi þrífst gífurleg spilling á kostnað almennings.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 23:27

13 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ásmundur, það er skrítin hugsjón margra ESB sinna að ekki megi auka jöfnuð og réttlæti í núverandi skipan peningamála heldur verði maður að bíða eftir upptöku annarrar myntar.  Jöfnuður og réttlæti er ekkert meira í evru ríkjum sem afleiðing af upptöku evru.

Þegar ESB og evru sinnar réttlæta óréttlæti, jafnvel óréttlæti sem hægt er að lagfæra, þá dregur það úr trúverðuleika ESB og evrunnar, enda hægt að stunda nákvæmlega sama óréttlæti þar.

Rót jöfnuðar og réttlætis er í hjörtum fólks en ekki í peningum landsins eða sameiginlegri mynt.

Lúðvík Júlíusson, 4.2.2013 kl. 05:32

14 identicon

Lúðvík, ég er ekki að réttlæta óréttlæti, heldur þvert á móti að mælast til að það sé komið í veg fyrir það með einu tiltæku leiðinni, nefnilega ESB-aðild og upptöku evru.

Það er ekki að réttlæta óréttlæti að horfast í augu við þá staðreynd að mismunun sé eðli hafta. Þú vilt afnema þá mismunun sem þú finnur fyrir. En ef öll mismunun verður afnumin þá eru ekki nein höft lengur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 08:15

15 identicon

Jón Ólafur, leið Lilju er hugarórar.

Með inngöngu í ESB mun krónan fljótlega komast í skjól ESB. Þá getum við notað gjaldeyrisvarasjóðinn til að lækka skuldir svo að þær uppfylli skilyrði Maastricht sáttmálans.

Í ERM myntsamstafunu er sveiflum á gengi krónunnar haldið í skefjum innan vikmarka. Við það lækka vextir og verðbólga. Upptaka evru innan fáeinna ára er því raunhæfur möguleiki.

Að gerast aðili að ESB er því leið til að uppfylla skilyrði Maastricht sáttmálans fyrir upptöku evru. Án þess munum við aldrei geta það vegna þess að krónan er ónýt.

Hún krefst öflugs gjaldeyrisvarasjóðs sem eykur skuldir, veldur mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 08:52

16 identicon

Snjóhengju vandinn er ekki alveg rétt skilgreindur í pistli.

Vandinn er sá að búið er að gefa út svo margar krónur sem ávísun á hagkerfið að hver um sig er miklu verðminni en látið er í veðri vaka.

Það eru í raun tvö hagkerfi í gangi í einu, annars vegar þetta dags daglega þar sem krónan á að gegna sínu hefðbundna hlutverki á því gengi miðað við erlenda gjaldmiðla sem seðlabankinn er að reyna að miða við.

Hitt hagkerfið eru leifar af hruninu þar sem krónur sem voru ávísun á loftbóluhagkerfi hrunsins liggja hér fastar inni en eigendur þeirra láta sig dreyma um að fá þær leystar út á sama verðgildi og hinar, þessar venjulegu sem íslendingar nota dags daglega.

Þetta eru óraunhæfar væntingar þessara erlendu krónueigenda, ef ætti að standa undir þeim þá yrði þjóðarbúið að taka gríðarlegt lán til að greiða upp í þessar væntingar, t.d. við gjaldmiðilsskifti.  (Gjaldeyrisvarasjóðurinn er því miður lekur hvað þetta varðar)

Lausnin er auðvitað sú að greina þarna á milli þessara tveggja gerða af krónum.   (það má raunar segja að hér séu 3 gerðir af krónum ef sú verðtryggða er talin með)

Gjaldmiðilsskiftileið sú er Lilja talaði fyrir virðist langeðlilegasta lausnin. Hvort menn kjósa svo að binda krónuna við einhvern annan gjaldmiðil eins og hægri grænir predika eða taka upp evru sbr. Árna Pál, er svo allt annað mál og lausninni óskylt.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 09:23

17 identicon

ps. Ef mönnum finnst það að skifta um gjaldmiðil á misjöfnu gengi eftir hver á í hlut, eitthvað ósanngjarnt, þá ættu menn að hugsa sér að við hrun hafi gjaldmiðillinn hrunið.

Þá hefði vel mátt hugsa sér að hann hefði verið aflagður en ný króna tekin upp sem átti að endurspegla hagkerfið eins og það kom út úr hruninu.

Við þær aðstæður hefði hverjum heilvita manni orðið ljóst að galið væri að gefa út krónur sem ávísun á hin föllnu fyrirtæki og  ónýtu verðbréf hrunsins, alveg eins þó einhver vogunnarsjóður hefði keypt vonina í draslinu því.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 09:32

18 identicon

Með upptöku evru í kjölfar ESB-aðildar leysist skuldavandinn að mestu. Þá verður verðtryggðum lánum breytt í óverðtryggð evrulán án uppgreiðslugjalds.

Þá lækkar greiðslubyrðin gífurlega, sérstaklega eftir því sem lengra liður á lánstímann. Sú lækkun er miklu meiri en 20% eins og krafa skuldara hefur gjarnan hljóðað upp á.

Vankantar óverðtryggðra íslenskra lána verða einnig úr sögunni. Óyfirstíganlegar hækkanir á greiðslubyrði þeirra vegna verðbólguskota verða ekki lengur yfirvofandi með evru.

Hvers vegna berjast ekki þeir sem eru í skuldavanda fyrir upptöku evru í stað þess að reyna að gera ónýta krónu ómarktæka og leggja til að ekki sé tekið mark á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar?

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 10:45

19 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ásmundur, þú virðist ekki skilja eðli hafta og mismununar.  Höft eru takmörk eða bann á einhverju sem annars væri heimilt.  Mismunun felst í því að takmörkin eða bannið nær ekki til allra, undanþágur lögfestar eða veittar síðar, og ólíkt er tekið á málum aðila.  Engin mismunun þarf að felast í höftum, boðum og bönnum og það er ekki heldur í eðli þeirra.

Það er hins vegar í eðli óvandaðrar stjórnsýslu og stjórnmála að mismuna og kenna einhverjum öðru um.  Þar er rótin, nú eins og fyrir hrun.

Síðan er það næsta umræða um það hvort höft leiði af sér lakari lífskjör vegna óhagræðis en það er annað mál og óskylt mismunun.

Lúðvík Júlíusson, 4.2.2013 kl. 12:55

20 identicon

Lúðvík, höftin eru tilraun til að koma á jafnvægi í gjaldeyrismálum. Ef þau næðu jafnt til alls flutnings gjaldeyris úr landi þá væri voðinn vís. Þess vegna er gert upp á milli aðila. Það er mismunun.

Dæmi um þessa mismunun er að ferðamenn fá nánast ótakmarkaðan gjaldeyri til að eyða í útlöndum ef þeir nota kreditkort en lífeyrissjóðir fá engan gjaldeyri til að fjárfesta í erlendum verðbréfum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 14:04

21 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ásmundur, þessi dæmi þín eru gölluð og sýna enn og aftur að þekking þín á höftum er vægast sagt mjög takmörkuð.

Til dæmis þá eru engin takmörk á neyslu erlendis hvort sem það eru einstaklingar eða lífeyrissjóðir.  Þess vegna er engin mismunun!

Einstaklingum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum er bannað að fjárfesta erlendis þannig að þar er ekki heldur nein mismunun!

Mismununin verður til þegar sumum er leyft að fjárfesta erlendis en öðrum ekki, þegar sumir þurfa að skila gjaldeyristekjum sínum til landsins en aðrir ekki, þegar sumir mega kaupa gjaldeyri til að greiða framfærslu fjölskyldu en arðrir ekki, þegar sumir eru kærðir fyrir brot en aðrir ekki og þegar sumir mega kaupa aflandskrónur og nota en aðrir ekki.

Lúðvík Júlíusson, 4.2.2013 kl. 17:45

22 identicon

"Ásmundur, þessi dæmi þín eru gölluð og sýna enn og aftur að þekking þín á höftum er vægast sagt mjög takmörkuð."

Þetta er vægast sagt furðuleg yfirlýsing.

Ef höftin eru túlkuð rúmt, eins og ég gerði, er mismunun óhjákvæmileg. Þrengri túlkun, eins og þú virðist halda að sé hin eina rétta, kemur ekki að nægilegu gagni.

Þess vegna þarf Seðlabankinn að grípa til enn þrengri túlkunar sem þú ert ekki sáttur við. Svo er að sjá hve lengi hún dugar.

Höft eru þess eðlis að Seðlabankinn þarf stöðugt að vera að endurskoða þau. Þau verða meira íþyngjandi eftir því sem árin liða. Þau eru stórhættuleg.

Þess vegna er brýnt að ganga í ESB við fyrsta tækifæri.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 00:10

23 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ásmundur, sjáðu athugasemdir #13, #19 og #21.

Það er hægt að sjá óréttlæti og ójöfnuð í eðli allra hluta og stöðugt vera að réttlæta ójöfnuð og slæm vinnubrögð.  Það er löngu kominn tími til að hætta réttlætingum og gera eitthvað í málunum annað en að segja að framtíðin muni verða betri ef maður gerir eins og þú segir.  Það er auðvitað ekkert annað en kúgun og það er ekki ESB sinnum til framdráttar að styðjast við hana.

Lúðvík Júlíusson, 6.2.2013 kl. 05:46

24 identicon

Lúðvík, ESB-sinnar eru einmitt þeir sem styðja ekki þá kúgun eða mismunun sem felst í gjaldeyrishöftum.

Það er ekki síst til að koma í veg fyrir hana sem þeir vilja taka upp evru í kjölfarið á ESB-aðild.

Hrunið 2008 varð vegna gjaldeyrisskorts. Gjaldeyrisskortur mun aftur valda hruni á næstu árum ef krónan verður ekki komin í skjól.

Skuldir ríkis, sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja eru of miklar til að við getum aflað nægilegs gjaldeyris til að standa í skilum, allavega ef höftin verða ekki hert til mikilla muna sem þá mun valda enn meira tjóni og einangrun.

Næsta hrun verður alvarlegra en 2008 vegna þess að skuldir opinberra aðila eru nú miklu meiri. Þær er ekki hægt að afskrifa eins og skuldir gjaldþrota banka sem voru einkafyrirtæki.

Okkar helsta von er að vera komin í skjól gjaldeyrissamstarfs ERM II og koma þannig í veg fyrir að skuldir hækki upp úr öllu valdi vegna hruns á gengi krónunnar. Til þess þurfum við að ganga í ESB.

Miklu skiptir einnig að þá munum við njóta miklu betri vaxtakjara og njóta ESB-ríkjanna sem okkar bandamanna.

Íslensk króna og miklar erlendar skuldir eru banvæn blanda.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband