Þjóðernishyggja og alþjóðahyggja

Fullveldissinnar eru oft stimplaðir þjóðernissinnar sem í munni þess sem stimplar er þá jafnan niðrandi, ekki sama sem „nazistar" en í þá átt. Hugrenningatengsl verða, ekki kannski við Hitler en við hægripopúlista eins og Le Pen, Pia Kjærsgaard eða þá Benjamin Netanyahu.

Fyrir hrun - meðan útrásin blómstraði - voru samtökin Heimssýn og þess háttar fólk einkum bendlað við einangrunarhyggju, sveitamennsku og nesjamennsku. Eftir að útrásin hrundi tóku áðurnefndir stimpilgjafar upp nýja baráttuaðferð: að kenna íslenskri „þjóðernishyggju" um útrásina, sögðu að íslensk þjóðremba hefði verið virkjuð í þágu glæfralegrar útrásar, jafnvel komið henni af stað. Ekki gengur þó vel að finna þessu stað. Það er nefnilega ómótmælanlegt að nánast allar útrásarhetjurnar voru ESB- og evrusinnaðar (vildu kasta krónunni), fullar af „evrópuhugsjón".  Það er líka rökrétt.

Spurningin um þjóðernishyggju/-stefnu er stórt mál. Stefnan varð til á 19. öld og snerti afstöðuna til þjóðríkisins. Meginstef þjóðernishyggju var og er að ríki skuli fylgja þjóðernislínum og vera fullvalda. Þjóð sem samfélagsheild með sameiginlega menningu sé eðlilegasta uppspretta ríkisvalds og grundvöllur stjórnmála. Á 19. öld var borgarastéttin þjóðernissinnuð og skipulagði atvinnuhætti sína á grunni þjóðríkjanna sem mörg hver urðu til á þeirri öld. Gegn hugmyndinni um „sameinaða þjóð" tefldu sósíalistar fram alþjóðahyggju verkalýðsins, „öreigar allra landa sameinist!". Engu að síður þróaðist lýðræði einmitt á grunni þjóðríkja, þar sem almenningur í gegnum samtök sín hafði möguleg áhrif á gang stjórnmála.

Á 20.öld, á tíma voldugra auðhringa og heimsvaldastefnu, óx kapítalískt hagkerfi hins vegar út fyrir ramma þjóðríkjanna. Auðmagnið leitaði yfir landamærin að auðlindum, mörkuðum og fjárfestingum (mætti því kenna það við „útrásar"auðvald). Stórauðvald vestrænna iðnríkja snérist smám saman gegn þjóðernishyggju og leit nú á fullveldi þjóðríkja sem alvarlegan hemil á athafnafrelsið. „Alþjóðahyggja" auðvaldsins hefur í seinni tíð verið kennd við  „hnattvæðingu", en á henni herti mjög á síðustu áratugum 20. aldar (tengt m.a. falli Austurblokkar) með hjálp samtaka eins og AGS, ESB, NAFTA, GATT, WTO. Þessar stofnanir eru allar byggðar utan um hnattvæðingarreglu nr. 1: óheft flæði og athafnafrelsi fjármagnins um lönd og álfur. EES-reglurnar um athafnafrelsi fjármálastofnana innan alls hins sameiginlega markaðar - og þar með íslenska fjármálaútrásin - er mjög bein afleiðing af því prinsippi.

Þegar svo er komið þróun mála er það þess vegna afar mikilvægt hagsmunamál alþýðu í löndum sem ekki eru efnahagsstórveldi að verja fullveldið og þjóðlegt sjálfsforræði á sem flestum sviðum. Hið „frjálsa flæði" er knúið fram af gróðahagsmunum. Það er andstætt kröfum lýðræðisins og setur sig þess vegna yfir þær. Boðskapur hnattvæðingarinnar sló óðara í gegn hjá efnahagselítu, hagfræðingum og stjórnmálamönnum á Vesturlöndum. Í Evrópskum stjórnmálum eru það einkum tveir hópar sem fremstir fara og hafa leitt bæði markaðsvæðingu og samrunaferlið í ESB: hægrifrjálshyggjumenn og svo markaðskratar, þ.e.a.s. markaðssinnar til vinstri.

Á Íslandi urðu línurnar dálítið flóknari vegna spurningarinnar um yfirráð yfir fiskimiðunum. Svarið við þeirri spurningu ræður því að íslensk borgarastétt (viðskiptalífið) er miklu klofnari í afstöðu sinni til Evrópusamrunans en systur hennar í nálægum löndum. Fyrir LÍÚ og tengda hagsmuni er EES æskileg  millistaða. Fyrir vikið varð þróunin sú að markaðskratar urðu helstu málpípur ESB á Íslandi.

Lofum ESB-sinnum að hneykslast á samstöðu okkar með fullveldissinnuðum hægri mönnum gagnvart ESB. Það skaðar ekki málstaðinn neitt. Hrökkvum ekki hátt heldur þótt einhverjir kalli okkur þjóðernissinna. Í almennri orðræðu er þjóðernisstefna margt og misjafnt. Eitt er a.m.k. víst: Sú þjóðernisstefna sem hugsanlega mætti kenna okkur við ber hvorki ábyrgð á útrás né hruni.  

­ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

EES-samningnum fylgir meira framsal fullveldis en ESB-aðild. 

Þetta var niðurstaða norskrar sérfræðinganefndar eftir tveggja ára rannsókn. Svokallaðir "fullveldissinnar" hljóta því að vera hlynntir því að Ísland segi upp EES-samningnum.

Þjóðernishyggja er eins konar trúarbrögð vegna þess að hún byggir á tilfinningu og trú en ekki rökum. Þess vegna er hún hættuleg. Hún á ekkert skylt við heilbrigt sjálfstraust.

Óbærilegar afleiðingar úrsagnar úr EES þurfa þjóðernissinnar ekki að ræða enda eru trúarbrögð hafin yfir rökhyggju. Guðs vilji ræður för. Honum ber að fagna hver sem hann verður.

Útrásin byggði á þjóðernishyggju sem ÓRG kynti undir með yfirlýsingum um yfirburði hins íslenska kynstofns. Í því andrúmslofti trúðu útrásarvíkingarnir að þeim væru allir vegir færir og allt leyfilegt.

Þjóðernishyggja er ekki endilega einangrunarhyggja. Þjóðernissinnar hafa auðvitað ekkert á móti því að notfæra sér tækifæri í öðrum löndum sjálfum sér og þjóð sinni til dýrðar.

Útrásarvíkingar voru ekki talsmenn upptöku evru fyrr en þeir höfðu notfært sér út í ystu æsar allt of hátt gengi krónunnar. Þá sáu þeir fram á að gengið myndi hrynja og evran gæti verið þeim bjargvættur.

Fullveldisafsal á við þegar þjóð missir fullveldi sitt til annarrar þjóðar gegn eigin vilja án þess að geta endurheimt það þegar hún vill.

ESB-aðild er allt annars eðlis. Um er að ræða samstarf við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli sem þjóðin ákveður upp á eigið eindæmi að sækjast eftir. Samstarfinu getur hún svo slitið hvenær sem henni þóknast.

Þjóðernishyggja sem jafnframt er einangrunarhyggja byggir á vanmáttarkennd. Menn treysta sér þá ekki til að vinna þjóð sinni gagn í samstarfi við aðrar þjóðir og telja víst að þeir fari halloka í slíku samstarfi.

Stundum þróast vanmáttarkenndin út í hreina vænisýki. Þá er td væntanlegu atkvæðamagni Íslendinga í ESB stillt upp á móti atkvæðamagni allra hinna þjóðanna rétt eins og að þar verðum við ein á báti með allar hinar þjóðirnar á móti okkur.

"Yfirþjóðlegt vald" er af sama meiði.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 13:18

2 Smámynd: Elle_

Við skulum segja upp EES-samningnum og njóta þess að vera ein á bátnum hans ´Ásmundar´ í samvinnu með fullvalda ríkjum utan miðstjórnar Brussel yfir nýlenduveldasvæði Evrópu.

Elle_, 24.11.2012 kl. 15:37

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Elle, báturinn okkar verður að heilum skipaflota þegar ESB apparatið splundrast.  Ásmundur verður ekki þar um borð - en eflaust verða skaffaðir björgunarbátar fyrir sanntrúaða. 

Líkt og lofað er himnaför sértrúaðra við heimsendi.

Kolbrún Hilmars, 24.11.2012 kl. 16:24

4 Smámynd: Elle_

Eins gott það verða björgunarbátar þarna, Kolbrún, þá mun hið margumtalaða samstarf þeirra við hið yfirþjóðlega ofur-vald loks rætast.  En sástu að ´Ásmundur´ heldur að einangrunarhyggja (Brusselfaranna) byggi á vanmáttarkennd?

Elle_, 24.11.2012 kl. 17:57

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Yfirburðir íslenska kynstofnsins kristallast í hegðun utanríkisráðherra,hann heldur að heimurinn fari á taugum ef hann ályktar ! Mátti aðeins vera að lesa Ásmund að fjórðu línu. KV. Elle og Kolbrún.

Helga Kristjánsdóttir, 24.11.2012 kl. 18:17

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Helga, Ásmundur sagði margt og mikið hér að ofan og það var eiginlega nóg að lesa að fjórðu línu.  Restin var ekkert sem við höfum ekki áður lesið.

Elle, ekki veit ég hvort ESB sinnar byggi á einangrunarhyggju eða vanmáttarkennd.  Ásmundur má útskýra það, pennaglaður maðurinn.

Ég er þó komin á þá skoðun að allt þetta ESB brölt snúist um fjárhagslega hagsmuni - fárra.

Kolbrún Hilmars, 24.11.2012 kl. 18:49

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hver er ,,ÞH"?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.11.2012 kl. 20:12

8 identicon

Alveg rétt, Kolbrún, ESB-málið snýst að hluta til um fjárhagslega hagsmuni sumra en kannski ekki á þann hátt sem þig grunar.

Fyrir utan allan annan skaða af völdun krónunnar er hún nefnilega tæki fyrir auðmenn til að hagnast gífurlega á kostnað almennings.

Ég hef oft nefnt hvernig auðmenn spila á gengi krónunnar. Hvernig þeir flytja fé úr landi þegar gengi krónunnar er í hæstu hæðum til að flytja það aftur heim þegar það hefur fallið um helming. Þannig tvöfalda þeir auðinn á kostnað almennings.

Króna í höftum er ekki síður gróðavegur fyrir ýmsa auðmenn. Heilu fyrirtækin eru stofnuð til að hagnast á glufum í höftunum fyrir utan öll peðin sem eru í aðstöðu til að hagnast á gengismuninum hér og erlendis og notfæra sér það óspart. Allt á kostnað íslensks almennings.

Það eru ekki bara Íslendingar sem græða þannig á sveiflum á gengi krónunnar. Verra er að erlendir vogunarsjóðir hagnast mikið einkum á skortsölu á krónum. Við það hverfur dýrmætur gjaldeyrir í stórum stíl úr landi.

Einnig er mikil tregða á að gjaldeyrir skili sér til landsins vegna hættunnar á að hann sitji hér fastur vegna hafta sem stöðugt þarf að auka. Hvorutveggja veldur gengislækkun og lífskjaraskerðingu. 

Eigendur fyrirtækja, einkum í útflutningi, græða formúur á sveiflum á gengi  krónu. Þegar vel árar greiða þeir sér hagnaðinn sem arð. Þess vegna er enginn varasjóður til í fyrirtækjunum þegar gengi krónunnar hrynur og allt fer í kaldakol.

Þá fá fyrirtækin afskriftir sem að lokum lenda á almenningi. Síðan auka þeir hlutafé fyrirtækjanna með þeim arðgreiðslum sem þeir fengu og fyrirtækin byrja aftur að fjárfesta á fullu.

Ekki kom til greina að auka hlutaféð til að greiða skuldir úr því að hægt var að varpa þeim vanda yfir á almenning. 

Útgerðarmönnum og ýmsum öðrum auðmönnum finnst alveg yndislegt að hafa gjaldmiðil sem auðveldar þeim þannig að arðræna almenning á löglegan hátt. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.11.2012 kl. 10:11

9 Smámynd: Elle_

Ætli okkur sé ekki sama um þessar peningasveiflur ykkar og öll ykkar skuldamál?  Svo koma þau ekki fullveldi Íslands við. 

Þú gætir samt glaðst yfir hinni margumtöluðu samvinnu fullvalda ríkja ofur-valdsins sem nokkrir kollegar þínir munu loksins fá í skamma stund, á meðan björgunarbátarnir verða á floti.  Þó þið trúuðustu verðið löngu sokkin.

Elle_, 25.11.2012 kl. 11:28

10 identicon

Elle, auðvitað er ykkur sama um skuldir ríkisins.

Þær koma ykkur ekkert við. Þið neitið bara að borga.

Algjört fullveldi über alles!

Ertu nokkuð farin að leita að helli uppi í óbyggðum fyrir þig til að hreiðra þig í?

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.11.2012 kl. 21:24

11 identicon

Ertu nokkuð farinn að leita þér að vinnu þarna í Danmörk, Jón Ásmundur?

Æjá, þú ert félagslegt frík sem enginn vill hafa í vinnu né yfirleitt umgangast.

Það er alveg ótrúlegt að horfa upp á jafn bilaðan einstakling eins og þig opinbera og afhjúpa eigin sjúku sál, eins og þú gerir sífellt á þessu bloggi.

Þvílíka þráhyggjan í þér maður!

Mikið ferlega áttu bágt!

palli (IP-tala skráð) 26.11.2012 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband