Sérfræðingar eru efins um evruna

Eftir að skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðlamálin kom út er eitt víst. Sérfræðingar hafa lengi verið og eru enn efins um að rétt sé fyrir Ísland að taka upp evru sem gjaldmiðil. Skýrslan er í raun rothögg fyrir evrusinnana í Samfylkingunni.

Þessarar skýrslu var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Vitanlega væntu ESB-aðildarsinnar í Samfylkingunni þess að skýrslan myndi leiða til skýrrar niðurstöðu sem væri þeim þóknanleg. En því var ekki til að dreifa.  Í raun hefur sú afstaða sem lesa má út úr niðursöðum af athugunum seðlabankafólksins og forystu þess verið nokkurn veginn hin sama frá því þessi umræða hófst. Það hafa alltaf verið efasemdir um upptöku gjaldmiðils á borð við evruna.

Árið 1997 gaf Seðlabankinn út skýrsluna Efnahags- og myntbandalag Evrópu – EMU
– Aðdragandi og áhrif stofnunar EMU. Þótt þetta væri tveimur árum áður en
efnahags- og myntbandalagið tók formlega til starfa hafði heilmikil
rannsóknarvinna og umræða verið í gangi. Margir hagfræðingar vöruðu við
ófullburða fæðingu gjaldmiðilsbandalagsins. Stjórnmálaelítan í Evrópu lét
varnaðarorðin sér í léttu rúmi liggja, en það sýnir m.a. að ESB og EMU er
fremur pólitísk bandalög en að þau séu byggð á efnahagslega skynsömum grunni. Í
formála bankastjórnar árið 1997 kemur fram að meginniðurstaða skýrslunnar sé að
efnahagsleg áhrif bandalagsins á íslenskt efnahagslíf séu óljós.

Vissulega var ýmislegt óljóst með myntbandalagið í upphafi og því ekki að undra
þótt Seðlabankinn treysti sér ekki þá til að fjalla beinlínis um rök með og
móti ESB.  Þær ályktanir eru þó dregnar að best sé fyrir Ísland að halda að
minnsta kosti um sinn óbreyttri gengisstefnu.

Um þremur árum síðar, árið 2000, gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út ritið
Macroeconomic Policy – Iceland in an Era of Global Integration (þjóðhagsstefna
– Ísland á tímum alþjóðlegrar samþættingar). Í kafla um val á hagkvæmustu
gengisstefnu fyrir Ísland komast  höfundar að þeirri niðurstöðu að
formgerðareinkenni hagkerfisins styðji öll þá ályktun að heppilegast sé fyrir
Ísland að vera með sveigjanlegt gengi. Jafnframt virðist þeim sem Ísland
uppfylli engin, eða nánast engin af þeim skilyrðum sem kenningin um hagkvæm
myntsvæði gerir til þess að Ísland tengist evrunni.

Eftir þetta fór evrusvæðið í gang og fyrstu árin virtust lofa góðu. Þegar á
leið fóru hins vegar erfiðleikar að koma í ljós.  Nú er svo komið að Efnahags-
og myntbandalagið hefur í nokkur ár átt í gífurlegum erfiðleikum sem ekki sér
fyrir endann á. Þeim stjórnmálamönnum utan evrusvæðisins fjölgar stöðugt sem
vilja halda sig sem lengst frá myntbandalaginu – nema innan Samfylkingarinnar á
Íslandi. Það er óþarfi að telja hér upp ýmsa hagfræðinga austan hafs og vestan
sem varað hafa við þessari evrukreppu.

Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans er komist að þeirri skýru niðurstöðu að það
sé fyrsti kostur að halda krónunni og bæta umgjörð hennar. Evran komi ekki til
álita sem stendur, bæði vegna erfiðleika evrusvæðisins en einnig vegna annarra
þátta, þótt bankinn komist skiljanlega að þeirri niðurstöðu að rétt sé að loka
engum leiðum fyrst aðildarumsóknin sé í gangi.  Hins vegar er á það bent að
Íslendingar ættu í raun fremur að huga að almennt bættri hagstjórn fremur en að
líta á einn eða annan gjaldmiðil sem einhverja töfralausn á ýmsum vanda.

Þetta hljóta að vera gífurleg vonbrigði fyrir þann hóp innan Samfylkingarinnar
sem gert hefur það að leiðarljósi lífs síns að Ísland gangi í ESB og að besta
leiðin til að ná því marki væri að telja fólki trú um að með evru fengjust
betri lífskjör hér á landi. Þeir sérfræðingar sem gerst þekkja hafa aldrei
trúað almennilega á þessa spádóma eða óskir ESB-sinnanna. Nú hlýtur
efasemdarfólkinu í forystu Samfylkingarinnar að aukast kjarkur til að segja hug
sinn. Það er kominn tími til.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Rothöggið er hjá Evrópuandstæðingum reyndar. Það kemur mér lítið á óvart að þessi bloggsíða skuli túlka skýrsluna sér í hag. Þar sem skýrt kom fram að íslendingar hefðu eingöngu þrjá mögulega.

Halda íslensku krónunni með þeim óstöðugleika sem því fylgir.

Taka upp evruna með inngöngu í Evrópusambandið.

Taka upp dönsku krónuna með aðstoð Danmerkur. Þar sem að danska krónan er á föstu gengi við evruna og hefur verið það síðan árið 1999.

Það er áhugaverð staðreynd að Evrópuandstæðingar skuli gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að forðast þessa umræðu. Þar sem ljóst er að þeir búnir að tapa henni nú þegar. Hvernig sem á málið er litið.

Jón Frímann Jónsson, 19.9.2012 kl. 13:09

2 identicon

Jafnvel Björn Bjarnason hefur svo mikinn áhuga á að taka upp evru að hann vill freista þess að Ísland sem EES- og Shengen-þjóð reyni að semja um það við ESB.

Þó eru engar líkur á að ESB veiti Íslandi undanþágu enda okkur ekkert að vanbúnaði að uppfylla þau skilyrði sem aðrar þjóðir hafa þurft að uppfylla til að taka upp evru.

Það verður ekki tómur dans á rósum að vera með evru eins og Grikkir virðast hafa haldið. En eftir að hafa haft krónu, sem er fullreynt að sé ónýt, verða viðbrigðin mikil. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 14:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt Ásmundur þetta er það sem þú kallar að Björn Bjarnason vilji taka upp evru:

Á fundi okkar var enn staðfest í mínum huga að skynsamlegast væri fyrir okkur Íslendinga að nálgast ríkisstjórnir ESB-ríkjanna sem EES- og Schengenríki og leita eftir tvíhliða úrlausn á málum sem okkur væru brýn í stað þess að sækja um aðild að ESB. Ég tel til dæmis að óska eigi eftir viðræðum við ESB um tvíhliða gjaldmiðlasamstarf í stað þess að fara löngu leiðina inn í evru-samstarfið sem ESB-ríki, vilji menn á annað borð tengjast evrunni á einhvern hátt. Hvers vegna skyldi EES-ríki ekki vera gjaldgengt í ERM II eins og það getur átt aðild að Prümsamningnum sem við Schäuble ræddum í ágúst 2008?

Ég vissi að þú værir takmarkaður en að þú tækir orð úr samhengi og færðir þau í þinn búning kemur ekki á óvart. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.9.2012 kl. 17:49

4 identicon

Ásthildur, þessi  ummæli Björns Bjarnasonar staðfesta allt sem ég sagði. Hvar viltu halda fram að sé misræmi?

"Hvers vegna skyldi EES-ríki ekki vera gjaldgengt í ERM II eins og það getur átt aðild að Prümsamningnum sem við Schäuble ræddum í ágúst 2008?"

Svarið við þessari spurningu Björns Bjarnasonar er einfalt: Vegna þess að það samræmist ekki reglum ESB um hverjir hafa rétt á að taka upp evru.

Sem EES-þjóð getum við ekki haft nein áhrif á lög sem við þó verðum að fylgja. Það er því fráleitt að við getum fengið ESB til að veita okkur leyfi til að taka upp evru án þess að við uppfyllum skilyrðin sem allar ESB-þjóðirnar hafa þurft að uppfylla.

Vegna sérstakra vandamála sem tengjast krónunni er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að ESB veiti tímabundnar undanþágur eftir að við höfum samþykkt aðild.

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 19:03

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sem Björn er að segja er þetta: Ef menn á vilja á annað borð tengjast evrunni.  Þarna er hann ekki að segja að íslendingar ættu að taka upp evru, heldur er hann að benda á leið sem gæti verið fær, EF MENN VILJA.  Það er enginn yfirlýsing frá Birni um að við eigum að taka upp evruna. 

Og þar kemur skýrt fram að hann er ekki á inngöngu í ESB.  Þegar þið takið fegins hendi svona ummæli, þá eruð þið komin ansi langt í afneitun og ugg að mínu mati.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.9.2012 kl. 19:21

6 identicon

Björn Bjarnason mundi aldrei benda á hvernig ætti að fara að því að taka upp evru nema vegna þess að hann er hlynntur því eða heldur að það sé óhjákvæmilegt.

Vill Sigmundur Davíð kannski einnig halda í krónuna þrátt fyrir að hafa sýnt því mikinn áhuga að taka upp norska krónu og síðar Kanadadollar?

Steingrímur veit einnig að krónan er ónýt. Annars hefði hann aldrei viljað taka upp norska krónu. Hann sýndi því mikinn áhuga alveg þangað til Stoltenberg sagði nei.

Einu talsmenn krónunnar virðast vera þeir sem Doddsson segir fyrir verkum. Eins og kunnugt er tekur hann alltaf afstöðu gegn afstöðu Samfylkingarinnar og krefst síðan skilyrðislausrar hlýðni af hálfu undirsáta sinna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 21:58

7 identicon

Auglýsing frá 2009:

"Tökum upp evru í samstarfi við AGS

Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og IMF (AGS) vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.

Bjarni Benediktsson                                                                              formaður Sjálfstæðisflokksins"

Þetta var áður en Davíð beygði Bjarna og flokkinn. Nú liggur það fyrir að enginn af formönnum fjórflokksins hefur í raun trú á krónunni.

http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1258510/

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 09:20

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásmundur á þessum tíma vissum við ekki það sem vitað er í dag.  Þetta hálmstrá sem þú grípur til er í besta falli barnalegt.  Ef þú getur ekki gert betur en þetta þá ættir þú að viðurkenna að þú hefur ekki hundsvit á því hvað er að gerast, eða ert eins og komið hefur fram hér að ert áróðursmeistari fyrir ESB klíkuna og þar af leiðandi ekki marktækur í umræðunni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.9.2012 kl. 10:32

9 identicon

Ásthildur, hvað ertu að gefa í skyn? Hvað vissum við ekki?

Skammtímaáhrif vegna kreppu skipta engu máli í þessu sambandi. Kreppur koma og fara hvort sem evra er gjaldmiðillinn eða ekki. Þegar hægt verður að taka upp evru eftir nokkur ár hafa málin skýrst svo að ekkert er að óttast. 

Það voru engar slíkar ytri aðstæður sem breyttu afstöðu Bjarna. Hún breyttist eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem sægreifar með dyggri aðstoð Davíðs fóru hamförum og beygðu fundinn undir sinn vilja.

Sannleikurinn er sagna bestur.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 10:47

10 Smámynd: Elle_

Hann er ekki marktækur, Ásthildur.  Hann er áróðursmaður Brussel og Samfó.  Við vissum það fyrir löngu.

Elle_, 20.9.2012 kl. 15:07

11 identicon

Ásthildur, hvað vitum við um krónuna sem við vissum ekki 2009? Meint óvissa um evruna breytir engu um ónothæfi krónunnar.

Hún er jafnlitill gjaldmiðill og því jafnónothæf og 2009. Enn er sama þörfin fyrir gjaldeyrishöft (sem samræmast ekki EES-samningnum) enda hætta á hruni yfirgnæfandi með krónu á floti.

Lítill gjaldmiðill eins og króna á floti er enn auðveld bráð vogunarsjóða og annarra stórfjárfesta. Ekkert getur breytt því.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 19:37

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vissulega má segja að krónan okkar sé lítill gjaldmiðill.  En við höfum samt lifað við hana um árafjöld.  Enda er það ekki krónan sem er vandamálið heldur hagstjórnin.  Steingrímur Sigfússon sagði í dag á þingi að þar sem ekki væri hægt að taka upp aðra mynt næstu árin yrðum við að smíða ramma utan um krónuna.  Og það er einmitt það sem þarf að gera.  Hún hefur bjargað okkur í huninu það er óumdeilt.  Og ef við högum okkur eins og fólk og eyðum ekki endalaust um efni fram, þá getur krónan orðið bara ansi sterkur gjaldmiðill að mínu mati.  Þar spilar margt inn í.  Svo sem að við erum ríkt land af náttúruauðlindum og getum nýtt þær á skynsaman sjálfbæran hátt.  Við erum orðin föst í einhverri svínasúpu græðgi og uppveðrunar við útlendinga, sér í lagi þeir sem ekki þekkja til aðstöðu fólks erlendis og halda að þar sé allt glóandi gull, sem það er reyndar alls ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.9.2012 kl. 20:20

13 Smámynd: Bragi

Evran er skaðvaldurinn sem Ásmundur og co. þora ekki að tala um. Einfaldar hagtölur sýna það svart á hvítu.

Bragi, 20.9.2012 kl. 21:06

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt og þeir lifa eftir mottóinu sókn er besta vörnin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.9.2012 kl. 21:14

15 identicon

Bragi bullar sem aldrei fyrr og er þá mikið sagt.

Við erum með krónu sem gjaldmiðil en samt er evran skaðvaldurinn. Kannski að við þurfum að taka upp evru til að hún hætti að vera skaðvaldur.

Krónan hefur hins vegar verið gífurlegur skaðvaldur. Ef við hefðum haft evru fyrir hrun hefðu skuldir ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu.

Ekki hefði þurft að afskrifa skuldir nema að mjög litlu leyti. Fáir einstaklingar hefðu lent í vandræðum með sín lán. Einnig fá fyrirtæki.

Eilíf krafa um almenna skuldalækkun hefði ekki komið fram. Sú krafa er í reynd algjört vantraust á krónunni því að hún felur það í sér að ekki skuli tekið mark á henni.

Reynslan af krónunni sýnir að lántaka í henni er fjárhættuspil þar sem líkurnar á að tapa miklu fé eru gríðarlegar.

Mikill fjöldi fólks hafði árum saman safnað mörgum milljónum til sinna fyrstu íbúðakaupa. Vegna hruns á gengi krónunnar tapaðist öll upphæðin og miklu meira en það. Eftir stóðu skuldir sem voru miklu hærri en söluverð íbúðarinnar.

Þeir sem hafa farið illa út úr samskiptum sínum við krónuna ættu í staðinn fyrir að krefjast lækkunar á skuldum að berjast fyrir því að krónunni verði kastað og evra tekin upp í staðinn.

Annars gætu skuldirnar hækkað enn meira í næsta hruni án þess að laun hækki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 23:42

16 Smámynd: Bragi

Ég sé að þú ert við sama heygarðshornið í svörum, þ.e. beitir blekkingum og lygum og neitar að melta rök annara. Flottur. Skoðaðu hagtölur evrulanda og berðu saman við íslenskar hagtölur.

Bragi, 21.9.2012 kl. 00:38

17 identicon

Bragi, hagtölur evrulanda eru jafnmargvíslegar og löndin eru mörg. Hagtölurnar eru betri í mörgum evrulöndum en í öðrum ESB-löndum sem sýnir að evran er ekki skaðvaldurinn.

Svo áttu að venja þig af að ásaka menn um lygar og blekkingar án þess að tilgreina í hverju þær eru fólgnar. Slíkt háttalag bendir yfirleitt til að enginn fótur sé fyrir ásökununum.     

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 07:54

18 Smámynd: Bragi

Hagtölur Íslands eru líka betri en í mörgum evrulönd sem samkvæmt þinni rökfærslu ætti að sýna að króna er ekki skaðvaldur.

Nei, ég nenni ekki að benda þér á það hvar blekkingar og lygar þínar eru því þú tekur ekki einföldum rökfærslum. Lest bara í gegnum það, ypptir öxlum og heldur áfram þinni þvælu. Ég hef reynt að benda þér á það í gegnum tíðina en það er tímasóun því samræðurnar eru alltaf fastar í sama hjólfarinu.

Bragi, 21.9.2012 kl. 11:33

19 Smámynd: Bragi

"Hagtölurnar eru betri í mörgum evrulöndum en í öðrum ESB-löndum sem sýnir að evran er ekki skaðvaldurinn."

Enn ein lygin, eða hálfsannleikur. Þú gætir líka snúið þessu á haus og sagt: "Hagtölurnar eru verri í mörgum evrulöndum en í öðrum ESB-löndum sem sýnir að evran er skaðvaldurinn."

Bragi, 21.9.2012 kl. 11:37

20 identicon

Rökhugsun er greinilega ekki sterk hlið hjá Braga.

Fyrst telur hann að evran sé skaðvaldurinn (væntanlega fyrir Ísland) vegna þess að einhverjar hagtölur séu betri fyrir Ísland en evrusvæðið.

Rétt eins og það eina sem komi til álita í því sambandi sé gjaldmiðilinn. Það er auðvitað fráleitt.

Síðan bendi ég honum á að eðlilegri samanburður sé ESB-löndin sem eru ekki með evru. Þá svarar hann sjálfumglaður með hártogunum, útúrsnúningi og skætingi.

Þau fimm lönd ESB sem eru með minnst atvinnuleysi eru öll á evrusvæðinu. Þetta eru Austurríki, Holland, Lúxemborg Þýskaland og Malta.

Það þarf ekki að rýna lengi í hagtölur til að sjá að flest evrulönd koma vel út úr samanburði við önnur ESB-lönd eða önnur Evrópulönd.

Svo er það bara fyndið hvernig Bragi snýr eigin rökþroti upp í að ásaka aðra að ósekju um lygar og blekkingar. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 15:10

21 Smámynd: Elle_

Bragi er bara einn enn sem hefur komist að þessu: - - -Nei, ég nenni ekki að benda þér á það hvar blekkingar og lygar þínar eru því þú tekur ekki einföldum rökfærslum. Lest bara í gegnum það, ypptir öxlum og heldur áfram þinni þvælu. - - -

Já, þannig hefur maðurinn hagað sínum málflutningi í óratíma með blekkingum og lygum og útúrsnúningi.  Fullkomlega óþolandi.  Og svo skilur hann ekki að við nennum ekki lengur að rökstyðja.  Og segist svo aldrei hafa heyrt andstæðinga (Brusselofbeldisins) koma með rök.

Elle_, 21.9.2012 kl. 15:17

22 identicon

Elle hefur einmitt ásakað aðra um lygar og blekkingar eins og Bragi og ávallt neitað að gera grein fyrir hvað hún á við.

Elle og Bragi verða að vanda málflutninginn betur ef þau vilja láta taka mark á sér. Óskhyggjuhjal á ekkert erindi hér.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 16:23

23 identicon

Elle hefur aldrei rökstutt neitt. Það eru því lygar af hennar hálfu að hún nenni ekki lengur að rökstyðja.

Satt að segja efast ég um að hún viti hvað rökstuðningur er sbr eftirfarandi svar hennar við beiðni um rökstuðning gegn ESB-aðild: Við viljum ekki aðild, það eru okkar rök.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 16:30

24 Smámynd: Elle_

Nei, við vitleysingarnir getum ekki rökrætt og vitum ekki neitt.  Þeir sem blekkja og ljúga eiga ekki að fá að gera það án nokkur andspyrnu í friði.  Við höfum nokkur okkar bent á beinar blekkingar og lygar en þú snýrð þig út úr öllu.

Elle_, 21.9.2012 kl. 19:17

25 Smámynd: Elle_

Og þá meina ég ykkur Brussel-vinnumennina 3, Jón Fr, Ómar Kr og þig, fóstbræðurna í rangfærslum og útúrsnúningum.  Líklega ert þú skæðastur.  Það eru ekki allir í vinnu við þetta.

Og svo átti að standa þarna: - - - nokkurrar andstöðu í friði.

Elle_, 21.9.2012 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband