Höfnum vanmetakennd og undirlægjuhætti gagnvart ESB

Útrásarvíkingarnir ímynduðu sér að alþjóðleg bankastarfsemi væri best til þess fallin að afla landsmönnum tekna. Þeir vildu taka upp evru og kasta krónunni. Þeir nýttu sér stórgallað  og eftirlitslaust regluverk ESB til frjálsra fjármagnsflutninga og höfðu næstum sett íslenska ríkið á hausinn.

 

Nú þarf einmitt að varast hinar öfgarnar, þ.e. þá firru að við getum ekki haft vit fyrir sjálfum okkur. Sjálfstæðar ákvarðanir í kjölfar hrunsins eru að lyfta okkur á framfarabraut meðan ástandið í ESB stefnir augljóslega niður á við.

 

Þegar valdaskeiði oflátungsháttarins lauk með bankahruninu tók við tímabil örvæntingar og vanmetakenndar. Alltof margir töldu hrunið sýna að Íslendingar gætu ekki stjórnað sér sjálfir.  Við yrðum að skríða undir pilsfald vaxandi stórríkis Evrópu, ESB.  Samfylkingin var sjálfkjörinn málsvari vanmetakenndarinnar.

 

Send var aðildarumsókn til Brussel. En nokkurn veginn um sama leyti sýndu skoðanakannanir að mikill meiri hluti þjóðarinnar hafði aftur náð áttum og vildi hafna ESB-aðild. Allar kannanir frá ársbyrjun 2009 til þessa dags hafa sýnt að meirihluti kjósenda skilur nauðsyn þess að Íslandi sé stjórnað með íslenska hagsmuni huga en ekki af embættismönnum í 2000 km fjarlægð sem lítið þekkja til aðstæðna hér á landi.

 

Nú þremur árum eftir hrun er makrílveiði Íslendinga í íslenskri lögsögu lýsandi dæmi um nauðsyn þess að fylgt sé íslenskri sjávarútvegsstefnu en ekki sjávarútvegsstefnu ESB, sem hefði ótvírætt hindrað makrílveiðar íslenskra skipa ef við værum nú í ESB, og þar með torveldað endurreisn íslensks atvinnulífs.

 

Makrílveiðarnar og stórauknar heimsóknir erlendra ferðamanna á sama tíma og ferðamannaiðnaður evruríkjanna berst í bökkum er meðal þess helsta sem er að lyfta íslensku efnahagslífi á rétta braut. Með sjálfstæðum gjaldmiðli sem lagaði sig að breyttum aðstæðum hefur ferðamannaiðnaður blómstrað hér á landi þrátt fyrir alþjóðlega niðursveiflu. Meðal annars þess vegna er efnahagur landsmanna á uppleið með auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi.

 

Þó er langt í frá að hér sé allt í besta standi. Skuldir heimilanna eru miklar og þúsundir fjölskyldna bíða enn eftir því að leyst verði úr vanda þeirra. Nýtt bankakerfi reis á rústum þess gamla. Reikningar bankanna sýna að eiginfjárstaða þeirra er mjög sterk í alþjóðlegum samanburði. Með öðrum orðum: hagtölur sýna að staða flestra banka í álfunni er almennt veikari um þessar mundir en staða íslensku bankanna og hlutfall heildarskulda á móti eigin fé margfalt lakara. Það er því borð fyrir báru hjá íslensku bönkunum að koma betur til móts við skuldugar fjölskyldur en gert hefur verið.

 

Þrátt fyrir allt erum við Íslendingar að rísa upp úr rústunum. Látum ekki stjórnast af vanmetakennd og undirlægjuhætti gagnvart ESB! Endurreisnin er verk okkar sjálfra og fyllsta ástæða til bjartsýni þrátt fyrir vaxandi kreppu í mörgum nálægum löndum.

 

Ragnar Arnalds   


mbl.is Íslenska leiðin var best
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er skynsemin sem ræður þeirri afstöðu að taka upp samvinnu við aðrar þjóðir um sameiginleg lög um efnahagsmál.

Við það vinnst nauðsynlegur stöðugleiki til að efla atvinnuvegi, auka útflutningstekjur, minnka spillingu og bæta lífsjkör. Greiðslubyrði lána verður ekki aðeins jafnari heldur mikli lægri.

Það er hins vegar til vitnis um vanmáttarkennd að halda að samstarf af þessu tagi leiði til slíks yfirgangs af hálfu hinna þjóðanna að Ísland sé dæmt til að fara illa út úr því þrátt fyrir að smáþjóðum hafi vegnað sérstaklega vel í ESB.

Slík vanmáttarkennd leiðir auðveldlega til nýs hruns ef krónan er aftur sett á flot. Til að forðast hrun er hægt að hafa gjaldeyrishöft til frambúðar sem þýðir úrsögn úr EES. Ísland mun þá dragast aftur úr ESB-þjóðunum með hverju árinu sem líður eins og reynslan sýnir.

Þannig kemur vanmáttarkenndin í veg fyrir að menn horfist í augu við veruleikann því að enginn sækist eftir einangrun og versnandi lífskjörum.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 10:02

2 Smámynd: Elle_

Við fullveldissinnar hlustum nú ekki á ´paranoju´ og ´útlendingaphóbíu´ og ´útúrsnúninga´ og ´vanmáttarkennd´ og ´vanþroska´ og ´öfugmæli´ Ásmundar og Jóhönnu sem vilja ´einangra´ landið og okkur inni í spillta Brussel-stórríkinu frá eðlilegu og frjálsu sambandi við hin 92% heimsins.  Við ætlum að halda fullveldi og sjálfstæði landsins SAMKVÆMT STJÓRNARSKRÁ.  

Elle_, 3.1.2012 kl. 14:09

3 identicon

Elle, er þetta nýjasta nýtt í blekkingaráróðrinum, að Ísland einangrist frá löndum utan ESB með aðild?

ESB-aðild þykir gæðastimpill í heiminum. Aðild mun því verða okkur til framdráttar í öðrum löndum.

Ljóst er að jafn stór markaður og ESB er í aðstöðu til að ná miklu betri viðskiptasamningum en við. Innan ESB getum við svo beitt ekkur fyrir okkar hagsmunum ef við látum ekki stjórnast af vanmáttarkennd.

Hvers vegna finnst þér efnhagsleg eining upp á 8% jarðarbúa vera of lítil? Það er undarlegt á sama tíma og þú vilt halda í einingu sem er ekki nema um 0.004% jarðarbúa.

ESB-löndin er stór eining, miklu stærri en BNA. Hvergi í heiminum er jöfnuður jafn mikill og í ESB og hvergi eins lítil spilling. Við erum heppin að hafa rétt á aðild.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 15:01

4 Smámynd: Elle_

Við ætlum að halda fullveldi og sjálfstæði landsins SAMKVÆMT STJÓRNARSKRÁ.  

Elle_, 3.1.2012 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband