Steingrímur: Íslendingum betur borgið utan ESB!

Formaður VG minnti Samfylkinguna á í setningarræðu sinni á landsfundi VG að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB. Það var þörf áminning til samstarfsflokksins og mætti heyrast oftar frá forystumönnum VG. Þjóðin er löngu orðin dauðleið á einleik Samfylkingarráðherranna í þessu máli.

„Ekkert bendir til annars en að krónan verði gjaldmiðill Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð." Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á landsfundi VG, sem hófst á Akureyri í gær:

„Sæluríki evrunnar lítur nú ekki beinlínis vel út um þessar mundir og jafnvel norska krónan, sem ég hef stundum verið grunaður um að daðra við, hefði nú reynst íslenskum veruleika strembin með sínum olíustyrk undanfarin misseri. Á Íslandi erum við að ná utan um okkar vanda, allavega þann sem snýr beint að okkur sjálfum, og höfum lært þá lexíu að við getum til lengri tíma litið ekki eytt meiru en við öflum. Íslandsvinurinn og nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, benti í gær á það á ráðstefnu hér á landi, að krónan hefði hjálpað landinu í gegnum hrunið. Ég er sannfærður um að atvinnuleysi hér á landi hefði farið, a.m.k. tímabundið, í háa tveggja stafa prósentutölu, ef við hefðum ekki haft okkar eigin gjaldmiðil, úr því sem komið var.

Og er ekki reynsla sumra annarra þjóða að sýna að það er nákvæmlega eins hægt að setja sig á hausinn í evrum og krónum? Meira að segja mætti halda því fram að hið falska öryggi evrunnar hafi leitt margar þær þjóðir sem nú eru í vanda, einmitt í þær ógöngur sem þær eru í. Ekkert bendir til annars en að krónan verði gjaldmiðill Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð með þeim eina fyrirvara að gjaldmiðlamál heimsins alls eru á hverfanda hveli. Allavega er það ljóst að engin gjaldmiðils- og peningastefna verður mótuð hér á landi, með aðild okkar vinstri grænna, öðruvísi en að krónan verði þar fullgildur valkostur við aðrar hugmyndir. Það er vissulega krefjandi verkefni að treysta þannig undirstöður efnahagslífs og ríkisfjármála að hægt sé að reka eigin gjaldmiðil.

En mistök fortíðarinnar mega ekki berja úr okkur kjarkinn og eru engin sönnun þess að það sé ekki hægt. Stefna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Evrópumálum er óbreytt, að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess, og það gera aðrir flokkar, þar með talið vinir okkar og samstarfsaðilar í Samfylkingunni, rétt í að hafa í huga," sagði Steingrímur.


mbl.is Munum áfram nota krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig í ósköpunun er hægt að taka nokkurt mark á Steingrími J Sigfússyni varðarndi stefnu í ESB málum þegar hann gengur þvert á yfirlýsta stefnu flokksins og sína eigin varðandi aðlögunarferlið að ESB.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 10:21

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hann bæði heldur og sleppur. Það er stefna flokksins að vera utan en stefna hans í ríkistjórn að fylgja Samfylkingunni áfram að málum. Engin breyting þar. Þingflokkurinn og stjórnarflokkurinn VG er ekki sami hlutur. Það eru allavega skilaboð þessa ómarktækasta tækifærissinna sögunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2011 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband