Breskur ráðherra kallar kvótaúthlutun ESB hrossakaup

Á sama tíma og Össur lýsir því yfir að Ísland þurfi enga undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB viðurkennir sjávarútvegsráðherra Breta að ESB hafi siglt sjávarútvegsmálum sínum í strand og stefnan sé í molum („fundamentally broken“).

 

Breska blaðið Sunday Mirror (mirror.co.uk) hefur það jafnframt eftir ráðherranum, Richard Benyon, 13. júlí s.l., að nýtanlegir fiskistofnar innan sameiginlegrar lögsögu ESB-ríkja hafi minnkað um tvo þriðju og valdamenn í Brussel hafi sett fjöldann allan af reglum og reglugerðum sem reynst hafi gagnslausar til viðhalds fiskistofnum. Hann fer háðulegum orðum um þá kvótaúthlutun sem fram fer á desemberfundi sjávarútvegsráðherra ESB og kallar hana hrossakaup.

 

Þýska vikuritið Spiegel tekur í sama streng og fullyrðir að fiskveiðifloti ESB sé 30-40% stærri en fiskistofnarnir í sameiginlegri lögsögu ESB þoli. Sagt er að í fiskveiðiflota ESB séu 80 þúsund skip og 75% af fiskistofnunum ESB séu ofveiddir.

 

Það er því engin furða þótt leiðtogar ESB leiti eftir leiðum til að snúa vörn í sókn. Ein leiðin er að endurskoða fiskveiðistefnuna, eins og reyndar er mjög til umræðu þessa dagana. Hvernig síðan til tekst að ná samkomulagi um breytta stefnu veit enginn. Jafnframt er ekki lakara fyrir ESB að lokka Íslendinga inn í sambandið; þjóð sem býr við ein gjöfulustu fiskimið álfunnar. Það er einmitt hornsteinn hinnar „sameiginlegu fiskveiðistefnu“ (CFP, Common Fisheries Policy) og er lögfest í Lissabonsáttmálanum, grein I-12, að „the Union shall have exclusive competence in the management of the fisheries and other biological resurces under the common fisheries policy“. Þetta má að sjálfsögðu þýða með ýmsu orðalagi á íslensku; „competence“ merkir m.a. „valdsvið“ og „exclusive“ merkir „það sem útilokar annað“. Þessi grundvallarsetning um sjávarútvegsmál í stjórnarskrá ESB (sem ekki mátti heita stjórnarskrá) merkir því:

 

ESB áskilur sér úrslitavald um stjórn fiskveiða og annars lífríkis sjávarauðlinda í samræmi við sameiginlega fiskveiðistefnu“.

 

Yfirlýsing Össur um að Ísland þurfi enga undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB hefur óneitanlega vakið nokkurn hroll hér á landi en hún skýrist af því að varanleg undanþága frá CFP er ekki í boði. Í stað þess að viðurkenna það hreint út bregst Össur við með því að halda því fram að við þurfum enga undanþágu heldur einungis „sérlausn“ og á þá bersýnilega við einhvers konar sýndarlausn af því tagi sem embættismenn ESB eru frægir fyrir.

 

Það bætir heldur ekki málstað Össurar þótt þessa dagana sé um það rætt í Brussel að ESB taki upp kvótakerfi með framseljanlegum veiðiheimildum líkt og verið hefur við lýði hér á landi. Þótt talað sé um að veiðiheimildirnar eigi ekki að forminu til að ganga kaupum og sölum milli landa hefur önnur aðferð lengi verið viðhöfð í ESB til að flytja veiðiheimildir frá einu landi til annars, en það er svonefnt kvótahopp, byggt á leppfélögum sem skráð eru í landinu þar sem veiðin fer fram en síðan er aflinn að stórum hluta fluttur burt til eigenda leppfélagsins í fjarlægu landi. Þetta er gert í krafti þess að ESB heimilar ekki að lögð séu höft á frjálsar fjárfestingar í sjávarútvegi.

 Ragnar Arnalds

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband